Skynsamlegar breytingar - en í framhaldinu á að leggja landsdóm niður

Allar hljóma þessar breytingatillögur skynsamlega og til þess fallnar að færa fyrirkomulag nær því sem er með almenna dómsstóla. Það er hins vegar skoðun mín að sérstakur landsdómur sé ónauðsynlegur og óheppilegur. Réttast er að ráðherrar séu ákærðir og um mál þeirra fjallað af almennum dómstólum - eins og þeim verður fyrir komið samkvæmt nýrri stjórnarskrá. Þar þarf sérstaklega að huga að því hvernig er farið með mál þegar ráðherrar eru sakaðir um að hafa brotið gegn ákvæðum eða anda stjórnarskrárinnar. Finnst mér vel koma til álita að hafa sérstakan stjórnlagadómstól til að fjalla um álitamál og beinum málarekstri sem tengjast ákvæðum nýrrar stjórnarskrá og túlkun á henni.
mbl.is Breyta lögum um landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju HR

Það er rétt að óska Háskólanum í Reykjavík til hamingju með þennan áfanga og hornsteininn gamla sem vonandi vísar til þess að skólinn eigi lengi að standa. Þetta er hin glæsilegasta bygging og þrátt fyrir tímabundna erfiðleika félagsins sem á bygginguna þá megum við ekki gleyma því að háskólar eru ekki skammtímafyrirbæri og hafa sjaldan verið eins nauðsynlegir eins og nú.

Svona prívat og persónulega hefði ég fengið geimveruna Gnarr til að leggja hornsteininn - en það er nú aukaatriði.


mbl.is Hornsteinn lagður að nýbyggingu HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar æskilegar

Hér eru svör mín við spurningum þjóðkrikjunnar:

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
Já, ég er fylgjandi því að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að stjórnarskráin tryggi fullt trúfrelsi en feli ekki í sér ákvæði um sérstaka þjóðkirkju sem njóti stuðnings ríkisins. Það segir reyndar í núgildandi stjórnarskrá að þessu fyrirkomulagi megi breyta með lögum þannig að það er þegar í reynd á valdi alþingis að breyta þessu - þótt heppilegra sé að það gerist að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í ljósi þess sem ég hef sett fram sem leiðarljós í mínu framboði- réttlæti, sanngirni og sátt - þarf að haga þessum breytingum þannig að um þær ríki friður. Það tekur tíma að ná nauðsynlegri sátt um hvernig þessar breytingar geta gengið fyrir sig og hvernig samfélagslegum hlutverkum Þjóðkirkjunnar verður fyrir komin í framtíðinni. Hugsanlega kann að vera sanngirnismál að um þetta verði kosið sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að skýr þjóðarvilji búi að baki. Niðurstaða þjóðfundar bendir til að meirihluti fólks telji að tímabært sé að breyta sambandi ríkis og kirkju.

2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Íslenska þjóðkirkjan hefur gengt mikilvægu samfélagslegu hlutverki og mun gera það áfram þótt hún verði ekki ríkiskirkja eins og verið hefur. Það sama gildir um félagslíf og menningarstarf sem tengist kirkjum landsins. Mikil þátttaka almennings í þessu starfi sem og langar hefðir munu ekki breytast þótt formlegum tengslum verði breytt. Ég held einnig að í breytingum felist tækifæri fyrir kirkjuna til að blása lífi í trúarstarf og endurskoða hvernig því er sinnt.


mbl.is Frambjóðendur spurðir um samband ríkis og þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veru-leikur og skáldskapur

Það er auðvitað ekkert til að gantast með þegar fólk lendir í svikahröppum - hvort sem það nú eru íslenskir hrappar eða annarra þjóða. En manni leyfist að brosa ögn út í annað þegar söguþráðurinn er jafn farsakenndur og virðist vera í þessu tilviki.

Sem dyggum lesanda bóka Dan Browns þykir mér athyglisvert hvernig skáldskapurinn og verkuleikinn tvinnast saman hér til að gera veruleikann jafn lýgilegan og skáldskapinn - eða öfugt?

Nú er bara að sjá hvort hvort einhver íslenskur höfundur gerir sér ekki mat úr þessum efnivið um hvernig er hægt er að nýta sér umhverfi sem elur á allra handa vænisýki og samsæriskenningum sem óvandað fólk getur gert sér mat úr.

Að lokum: Í fréttinni er fjallað um handtöku á grundvelli ásakana, ekki dóms sem er fallinn. Munum því eftir einni mikilvægri grundvallarreglu réttarríkisins: Saklaus þar til sekt er sönnuð.


mbl.is Íslensk kona grunuð um stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð samlíking - rándýrið í íslenskum stjórnmálum?

Mér þykir þetta afar athyglisverð samlíking hjá borgarstjóranum okkar. Ef ég heyrði rétt þá sagði hann á undan því sem vitnað er til í fréttinni: "ég er predator í íslenskum stjórnmálum" og bætti því við svona til skýringa að hann væri "geimvera sem enginn veit almennilega hvernig hann á að takast á við". 

Þetta er vísun í myndina Predator frá 1987 sem fjallar um baráttu heljarmennisins og síðar ríkisstjórans Arnold Schwarzeneggers við tæknilega háþróaðan hermann frá annarri plánetu sem beytti miklum bellibrögðum í hrottafenginni baráttu við hetjuna Arnold.

Við skulum vona að borgarstjórninn taki þessa samlíkingu ekki of alvarlega og láti felubrögð og fimleika duga en láti ekki andstæðinga sína hverfa hvern á fætur öðrum eins og rándýrið í myndinni.


mbl.is Geimvera í íslenskum stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur þjóðfundur gefur góðan tón fyrir stjórnlagaþing

Glæsilegur þjóðfundur gaf jákvæðan og góðan tón fyrir vinnu fyrir störf stjórnlagaþings. Nokkur grunngildi eru skýr og þau á stjórnlagaþing skilyrðislaust að hafa að leiðarljósi - en það er síðan verkefni þingsins að fjalla um hvernig er best að tryggja að þau séu skýr í stjórnaskrá og verði í heiðri höfð í allri stjórnskipun landsins. Það er flókið verkefni en þjóðfundurinn setur ramma sem auðveldar það.

Eitt meginatriði er vert að benda strax á sem er að niðurstöðurnar gefa ótvírætt til kynna að skynsamlegast sé að semja nýja sjórnarskrá frá grunni í stað þess að reyna að breyta og beturumbæta þá gömlu. Núgildandi stjórnarskrá er ekki skipulögð eða skrifuð þannig að hægt sé að kynna hana og kenna í öllum grunnskólum og gera þannig að grunnlögum sem öll þjóðin þekkir og virðir - en það á að vera markmiðið með nýrri stjórnarskrá.


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarhald á náttúruauðlindum á skilyrðislaust að skilgreina í nýrri stjórnarskrá Íslands

Núgildandi stjórnarskrá segir ekkert um umhverfismál, sem styður þá skoðun að æskilegt sé að skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni fremur en bæta við og breyta þeirri gömlu. Eignarhald íslensku þjóðarinnar á náttúruauðlindum á að vera ótvírætt í stjórnarskrá og um leið þarf að reisa þröngar skorður við því með hvaða hætti nýtingaréttur er framseldur til að ganga ekki á réttindi og svigrúm komandi kynslóða.

Þar sem ég tel að við eigum að hafa réttlæti að leiðarljósi við samningu nýrrar stjórnarskrá, ætti nýtingarréttur aldrei að geta myndað framseljanlegan eignarétt. Það getur aldrei talist sanngjarnt að nokkrir einstaklingar eigi tiltekna auðlind þótt eðlilegt sé að semja við fáa aðila um skynsamlega nýtingu. Sanngjarnt auðlindagjald verði meginregla sem sett verði stjórnarskrá en það verði síðan úrlausnarefni á hverjum tíma að ákveða – með aðstoð sjálfstæðra dómstóla – hvað sanngjarnt gjald er. Ennfremur þarf þarf að setja skýrar skorður við því hvernig þjóðin nýtir sínar auðlindir og tryggja náttúrunni sjálfri ákveðin grundvallarréttindi í stjórnarskránni þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.


mbl.is Vilja að eignarhald á náttúruauðlindum verði skilgreint í stjórnarskrám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5867

Þegar margir eru kallaðir en fáir útvaldir dugar ekkert annað en tilviljanakennt númer - mitt er 5867 og ég vona að sem flestir nái þessu óræða tákni og setji það ofarlega í kosningunum 27. nóvember:

Listinn kallar á nýtt slagorð: Kjósum Ágúst Hjört í Nóvúmer 5867!


mbl.is Nafnalisti frambjóðenda birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefur vegna framboðs til stjórnlagaþings opinn

Ég býð öllum lesendum á blogginu að kíkja í heimsókn á vefsíðu vegna framboðs míns til stjórnlagaþings:  http://agusthjortur.is

Vonast eftir ábendingum og athugasemdum um helstu umræðuefni þingsins.

Kjósum Ágúst í nóvember!

(þakka Guðmundi frænda mínum fyrir þetta slagorð kynningarátaksins : - )


Þetta er áskorun - fyrir frambjóðendur og þjóðina

Það er ógerningur að meirihluti kjósenda kynni sér meirihluta frambjóðenda, vegi og meti kosti þeirra og galla og taki síðan upplýsta afstöðu. Þetter er ein af þverstæðum lýðræðisins.

Niðurstaðan er samt í engu ólýðræðislegri en ef fjöldatakmarkanir hefðu verið viðhafðar eða stjórnmálaflokkar séð um að sía frambjóðendur og velja boðalega framboðslista.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þeir spádómar rætast að þeir sem eru þekktir úr fjölmiðlum komist frekar á stjórnlagaþing. Það er áskorun fyrir okkur sem eru minna þekktir að kynna okkur - og fyrir þjóðina að velja á stjórnlagaþingið fólk sem getur komist að sameiginlegri niðurstöðu um nýja stjórnarskrá.


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband