Færsluflokkur: Bloggar

Ár Andra, Ómars og umhverfisins

Þjóðin hefur talað í sinni árlegu kosningu á Rás 2: Ómar Ragnarsson maður ársins og ekki langt á eftir kom Andri Snær. Þessir tveir menn hafa átt ríkan þátt í að breyta umræðunni um umhverfismál á Íslandi og færa nær þjóðinni. Og þjóðin og ég höfum lesið, hlustað og lært eitthvað. M.a.s. forsætisráðherrann hefur numið tóninn í þjóðinni og lofar að ekki verði reist annað eins stórvirki og Kárahnjúkavirkjum. Gott hjá Geir, en það væri nú líka erfitt að finna aðstæður á Íslandi þar sem hægt væri að toppa Kárahnjúka. Það er góð tilfinning að fara inn í áramótin að vera sammála þjóðarsálinni - nú er nóg komið í virkjunum og í framtíðinni förum við að gera eitthvað allt annað.

Hvað það verður veit nú enginn, því eftir að hafa hlustað á stjórnmálaleiðtogaspjall í útvarpinu veit maður ekki annað en það verður líkast lífleg kosningabarátta í vor. Sú hugmynd kom upp í spjalli á Rás 2 að Steingrímur Joð og Guðni Ágústsson stofnuðu íslenskuskóla fyrir innflytjendur og kenndu þeim kjarnyrt og gott mál, gott ef ekki nor(ð)lensku í kaupbæti. Fannst það besta hugmyndin í spjallinu. Það er kominn tími á endurnýjum bæði í stjórn og stjórnarandstöðu: Afhverju setjum við ekki hámark á það hvað menn geta verið lengi á þingi og lengi ráðherrar. Gætum haft þetta rausnarlegt - segjum 12 ár eða jafnvel 16 ár - en það á enginn að gera þjóðinni sinni það að vera sífellt að segja henni hvað henni sé fyrir bestu. Jafnvel þótt með sé mælskir og skemmtilegir eins og þeir Steingrímur og Guðni.

Þegar rökkrið færist yfir á þessum síðasta degi ársins óska ég þjóðinni til hamingju með nýja umhverfisvitun. Kannski góða veðrið - sem við vitum í hjarta okkar að er ekki "eðlilegt" þótt við gleðjumst öll yfir hlýindunum - minni okkur á að við þurfum að taka okkur sjálf á í umhverfismálum en ekki síður að láta rödd okkar heyrast með kröftugum hætti á alþjóðlegum vettvangi. Annars verður enginn ís eftir á Íslandi í lok þessarar aldar.

Gleðilegt ár.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1244569


Næstsíðasti dagur ársins

Það er við hæfi að enda árið með því að byrja á einhverju nýju. Það hefur lengi staðið til að opna bæði eigin vefsíðu þar sem varanlegra efni er sýnt og geymt en um leið að taka þátt í blogginu - ekki seinna vænna vilji maður telja sig meðal manna ársins að mati Time tímaritsins. Svo hér fer bloggsíðan í loftið, auðvitað á mbl.is, sem um langt skeið hefur verið mín megin fréttaveita.

Í anda þessa kemur hér hvað stendur uppúr á árinu ...

... á fjölskylduvígstöðvunum gerðist það kannski markverðast að á árinu lauk mikilli útskriftarhrinu og verða ekki haldnar fleiri útskriftarveislur næstu 2-3 árin. Það má heita nokkuð einstæður árangur hjá okkur að útskrifa af öllum stigum: Sá yngsti útskrifaðist úr leikskóla og hóf nám í Ísaksskóla, sú í miðið útskrifaðist úr grunnskóla og hóf nám í Borgarholtsskóla og báðir eldri drengirnir útskrifuðust; annar úr FB og hóf nám í Háskólanum á Akureyri og hinn útskrifaðist úr Háskóla Íslands og er núna kominn í draumastarfið hjá CCP í árslok. Ekki amarleg uppskera það hjá fölskyldunni.  

... af sömu vígstöðum má telja fréttnæmt að við skyldum loksins komast hringinn í kringum Hálslón - mbl.is/RAXlandið okkar. Hófst sú vegferð í hefðbundnum verslunarmanna-helgarsudda á suðvesturlandi en lauk í miklu sólskini á einni dagstund alla leiðina frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Við sáum það land sem nú er komið undir Hálslón og lásum bókina hans Andra Snæs og eins og flestum öðrum Íslendingum finnst mér nú nóg komið. Alla þá orku sem við þurfum í framtíðinni - vonandi til umhverfisvænni nota en í álver - getum við sótt í hitann í iðrum jarðar. En nú þarf eitthvert góðskáldið að taka sig til og enduryrkja frægt ljóð: "Sjáðu lónið, þarna gekk ég"

... af innlendum vettvangi stjórnmálanna ættu kannski sveitarstjórnarkosningarnar að standa uppúr - en þær gera það ekki. Þar kom fátt á óvart. Merkilegasta málið ársins er mikil fjölgun Íslendinga á árinu, nýrra Íslendinga sem hafa kosið að koma til landsins í leit að atvinnu og betra lífi. Þetta hefur gerst finnst mörgum nánast eins og af sjálfu sér. En auðvitað gerist ekkert af sjálfu sér. Það var meðvituð ákvörðun að nýta ekki frest sem stækkunarsamningar ESB fólu í sér. Ég held það hafi verið rétt ákvörðun.

Í árslok er 9% vinnuafls á Íslandi "erlent" í einhverjum skilningi. Meðan atvinnuástand er eins og það er, þá mun enn fjölga þessum innflytjendum sem margir eiga eftir að setjast hér að. Mörgum óar við þessu og nýleg fylgisaukning Frjálslynda flokksins sýnir að við munum þurfa fara í gegnum sömu orðræðu og átök og aðrar þjóðir. Þar sem ég er fylgjandi fjölgun og fjölbreyttara íslensku samfélagi, verð ég um leið að láta í ljósi þá von og ósk að okkur takist betur til en mörgun nágrannaþjóðum okkar að aðlaga okkur að innflytjendum og þá að okkar samfélagi. Þar ættum við kannski að leita fyrirmynda í Kanada fremur en í Evrópu.

... af erlendum vettvangi stjórnmálanna standa Bandaríkjamenn uppúr. Ekki í þeim skilningi að mér finnist þeir skara frammúr nú um stundir. Þvert á móti þá þarf líklega að fara aftur um áratugi til að finna tímabil þar sem þeir hafa notið eins lítils álits um víða veröld eins og er nú um stundir. Þetta er engin einkaskoðun mín, heldur virðist um fátt vera meiri samstaða í veröldinni en að þeir séu nú í tómu tjóni. Reyndar verð ég nú að viðurkenna að mér fannst það giska flott hjá þeim að hringja bara í forsætisráðherrann og segja bæ bæ. Og sá lét eins og hann væri hissa! Trúi því nú rétt mátulega. Það verður ekki lítið verkefni fyrir nýja forseta Bandaríkjanna árið 2008 að fara út um allan heim og taka afsakandi í höndina á hverjum þjóðarleiðtoganum á fætur öðrum. Það hlýtur að verða að minnsta kosti klukkutímastopp á Keflavíkurflugvelli og vonandi verður það kokraust og kát sendinefnd sem tekur þar á móti nýjum forseta og segir: "Blessaður vertu, það var ekkert mál að finna ný og betri not fyrir aðstöðuna sem þið skilduð eftir ykkur. Og þar sem þið eruð nú búnir að draga ykkur út úr Írak og farnir að miðla málum í Mið-Austurlöndum, í stað þess að kynda ófriðarbál, þá fyrirgefum við ykkur líka að hafa platað okkur inn á lista hinna viljugu þjóða." ... en frá því segir nánar árið 2008!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.