Til hamingju Ólafur !

Þetta er kannski svolítið síðbúin afmæliskveðja til Ólafs Ólafssonar, sem hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær þannig að varla fór framhjá nokkrum landsmanni. En það eru fleiri hamingjuóskir við hæfi í tengslum við þetta:

Það er líka hægt að óska Ólafi til hamingju með dýrasta upphitunarnúmer sem flutt hefur verið til landsins. Mikið held ég þeir Bubbi og Bo hafi verið kátir með að láta Elton John hita upp fyrir sig.

Þá er ekki síður hægt að óska afmælisbarninu tilvonandi til hamingju með tilkomumikið PR klúður. Að birtast borinbrattur að morgni dags og tilkynna að maður sé að gefa milljarð til góðra mála - ah ja sko ekki að gefa allan milljarðinn, heldur bara ávöxtunina af honum, því Ólafur og frú halda fullri stjórn yfir því í hverskonar ávöxtun hann er settur í og eflaust munu þau fara með atkvæðisrétt góðgerðarsjóðsins í þeim hlutfélögum þeirra sem fjárfest verður í. Sem sagt og burtséð frá öllum fyrirvörum, það er drjúgt góðverk að morgni að gefa frá sér ávöxtun af heilum milljarði sem verður vel á annað hundrað milljónir á ári ef vel gengur. Það er ekki síður drjúgt að halda partý að kvöldi fyrir sig og sína fyrir sömu upphæð. Seinni athöfnin gerir að engu þá fyrri í augum almennings og gerir hana eiginlega verri en enga.  Sem sagt meiriháttar PR klúður.

Sem leiðir mig að þriðju hamingjuóskunum - til Spaugstofunnar fyrir frábæran þátt sem við landsmenn horfðum á akkúrat á sömu stundu og melódíudrottningin söng fyrir veislugesti Ólafs. Svona veisluhöld eru í okkar þjóðfélagslega samhengi fyrst og fremst kjánaleg. Spaugstofan er oft næm á tilfinningar þjóðar sinnar og ég er alveg viss um að einhverjir veislugesta í gærkvöldi hafa fengið svolítið óbragð í munninn undir söngnum og tilgerðarlegum búningaskiptum sem sagt var frá í fréttum í kvöld. Ef þau hjónin meina eitthvað með því að styrkja afar þarfa uppbyggingu í Afríku, þá hefði fyrir þóknun gleraugnagláms verið hægt að byggja einhverja skóla til viðbótar í Afríku og kaupa glerlistaverk fyrir afganginn og senda til Eltons. Ég er næsta viss um að veislugestum hefði þótt alveg nógu flott að fá bæði Bo og Bubba.

Síðustu hamingjuóskirnar fara síðan aftur til Ólafs - fyrir að hafa pissað lengst í þessari kjánalegu pissukeppni um tilgangslausustu og mest óviðeigandi partýhöld ársins. Við skulum bara vona að Ólafur hafi komið af stað annarskonar og betri pissukeppni meðal nýríkra Íslendinga þar sem menn keppast við að gefa sem mest til góðgerðarmála og samfélagsuppbyggingar innanlands sem utan. Ef það verður niðurstaðan er þetta alveg viðundandi fórnarkostnaður.


mbl.is Elton John á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.