Bjartsýnn því ég hef trú á íslenskri þjóð

Nú á síðasta degi fyrir kosningar til sjórnlagaþings ætla ég að vera bjartsýnn og segja: treystum íslensku þjóðinni til að velja gott fólk á stjórnlagaþing og almennt til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í sem þjóð.

Afhverju svona bjartsýni? Jú í gær átti ég þess kost að tala við fullt af fólki. Við hjá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB voru með afmælisveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur og veittum verðlaun nokkrum fyrirmyndarverkefnum. Þau sem tilnefnd voru sýndu sinn afrakstur og kynntu starfsemi sína og ég talaði við aðstandendur þeirra. Allir eiga það sameiginlegt að vera fullir af áhuga á því sem þeir eru að gera, hafa trú á sjálfum sér og sjá tækifæri til nýrra og góðra verka í hverju horni. Allt eru þetta verkefni í evrópsku samstarfi en um leið með sjálfstraust fyrir Íslands hönd um að hægt sé að gera betur.

Ég nefni fjögur dæmi um verkefni – til að styðja þetta bjartsýnistal:

Stórátak í trjárækt á Íslandi: Fyrsta takmark er að framleitt verði nóg á Íslandi til flestra innanlandsþarfa þannig að ekki þurfi að flytja inn tugi þúsunda jólatrjáa á hverju ári, eða tugi þúsunda tonna af kurli til starfa í járnblendiverksmiðju, svo tvö dæmi séu tekin. Hér er allt til staðar, nóg landsvæði og fólk með verkvit og vilja til að ráðast í stórverkefni. Hér skortir skipulagningu og sýn á þetta sem langtíma fjárfestingu í Íslenskum innviðum.

Samstarf leikskóla og eldri borgara – sem getur verið gefandi í báðar átti; eldra fólk í sjálfboðavinnu getur létt undir með starfi leikskólanna, aukið við reynslu og þroska barnanna og síðan færir það því sjálfu lífsfyllingu. Hér áhugi til staðar, nóg af góðum leikskólum og hressum eldriborgurum fjölgar nú ört. Það þarf ekki mikið nýtt fjármagn, heldur skortir bara að brjóta niður stofnanamúra og vinna form á svona fyrirkomulag.

Framleiðsla á íslenskum leir – þetta er gamall draumur og hafa verið gerðar tilraunir til að vinna nægilegt magn af íslenskum leir fyrir bæði iðnað og listframleiðslu. En það vantar meiri rannsókna- og þróunarvinnu og aðkomu fjárfesta sem vilja fara inn í langtímaverkefni með hógværri ávöxtunarkröfu.

Bændur og ferðaþjónustan – þar sem nýttir eru staðbundnir landkostir bæði til að laða að ferðafólk sem vill skoða og njóta umhverfis og náttúru en einnig til að framleiða matvælin fyrir ferðamennina. Hér eru víða komin af stað átaksverkefni undir kjörorðinu „beint frá býli“ sem endilega þarf að þróa áfram fyrir okkur höfuborgarbúa, svo við höfum nú tilfinningu fyrir því hvaðan maturinn okkar er að koma. En það þarf líka að tengja betur saman ferðaþjónustuna og þessa framleiðslu.

Sem sagt: Á Íslandi skortir hvorki góðar og þjóðlegar hugmyndir né fólk sem hefur áhuga á að framkvæma þær. Þess vegna er ég bjartsýnn og treysti þjóðinni.


mbl.is Ætlar fólk að kjósa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nú almennt bjartsýnn en get sagt að ég ætla ekki að taka þátt í þessum skrípaleik.

Af hverju kalla ég þetta skrípaleik: jú vegna þess að lögin um þessar kostningar eru þannig að ekki er tryggt að atkvæði mitt nýtist þeim aðila sem ég kýs og að reglurnar eru þannig að embættismenn eða tölvukerfi getur tekið atkvæði mitt og sett það á annan aðila en ég kýs, eða jafnvel fellt það niður dautt með það að setja inn aðila sem er með færri atkvæði en sá sem ég kaus bara af því að hann er ekki af réttu kyni.

Ég meina hvers konar vitleysa er þetta að það skuli vera kynjakvóti á stjórnlagaþinginu? Af hverju ekki kvóti fyrir hárlit, eða sköllótta, öryrkja, o.s.frv.

Það skiptir mig engu að minn maður eða kona gæti komist inn á þingið þótt viðkomandi hefði færri atkvæði en sá eða þeir sem þurfa að víkja vegna kyns. Ef sá aðili sem ég kýs fær ekki nægjanlegt atkvæðamagn þá á hann eða hún ekki skilið að ná inn á þingið.

Þar fyrir utan er þetta allt eitt rosalega dýrt lýðskrum. Niðurstaða þessa stjórnlagaþings er ekki bindandi heldur fer fyrir Alþingi, sem er einu aðilinn sem getur breytt stjórnarskránni. Alþingi getur síðan gert allar þær breytingar á þessum tillögum sem þeim þóknast. Þess vegna segi ég það: við erum búin að vera með þjóðfund og hann hefur skilað af sér góðum áherslupunktum. Það ætti að vera nóg að þeir punktar fari fyrir stjórnlaganefnd Alþingis og síðan semji þeir breytingar á stjórnarskránni út frá þeim punktum. Þannig myndum við spara okkur hundruði milljóna sem við gætum t.d. nýtt til að borga niður lán landsmanna, reka spítalana eða í önnum miklu mun þarfari mál.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 11:56

2 Smámynd: Ágúst Hjörtur

Sæll Sigurður,

Ég er auðvitað ekki sammála þér um að þetta sé skrípaleikur - þá hefði ég ekki gefið kost á á mér. Ég held reyndar að það séu amk tvær góðar ástæður fyrir afhverju er skynsamlegt að breyta stjórnarskránni núna - eins og ég skrifaði um í pistli á stjórnlagaþingsvef DV.

En kosningarnar og þingið eru staðreynd og þá skiptir öllu máli að á þingið veljist gott fólk sem getur komist að sameiginlegri og skynsamlegri niðurstöðu og þá verður Alþingi í mjög þröngri stöðu til að breyta þeirri tillögu. Ég hvet þig því til að endurskoða þá afstöðu að ætla ekki að taka þátt - og hafa áfhrif á niðurstöðuna fremur en sitja hjá.

Það er bara ein staðreyndarvilla í því sem þú segir: atkvæði þitt verður aldrei fært á neina aðra frambjóðendur en þú setur á listann þinn. Ef efsti maður á lista hjá þér (til dæmis frambjóðandi 5867) kemst ekki inn, þá færist atkvæðið þitt í konuna í öðru sæti og þannig koll af kolli. Ef enginn af þeim sem þú velur á möguleika á að komast inn þá nýtist atkvæðið þitt ekki - en það fer aldrei til einhvers sem þú merktir ekki við.

Ágúst Hjörtur , 26.11.2010 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband