Af kjörsókn og kosningafyrirkomulagi

Kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunum er vonbrigði, hvernig sem á það er litið. En hún þarf ekki að koma mjög mikið á óvart - kynningin og umræða var lítil og fyrirkomulagið hentaði ekki vel. Ég hef ekki viljað gagnrýna fyrirkomulagið fyrr en nú þegar kosningum er lokið og gott að gera það einnig áður en niðurstaðan liggur fyrir. Ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á kjósendur og mögulega kjörsókn og gagnrýni mín nú endurspeglar ekki neitt um útkomu mína í þessum kosningum.

Í fyrsta lagi þá var farið mjög seint af stað með kynninguna af hálfu stjórnvalda og stjórnlaganefndar. Ekki virðist hafa verið unnin neinskonar kynningaráætlun og nefndin hafi ekki gengið frá samstarfi við neina fjölmiðla eða séð fyrir sér hvernig kynningin myndi fara fram. Stóru fjölmiðlarnir brugðust og einn þeirra, Morgunblaðið, lagði sig í líma við að hunsa kosningarnar og hæddist óspart af þeim enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vildi veg þessa þings sem minnstan.

Í öðru lagi stafa kynningarvandræðin að hluta til af þeim mikla fjölda frambjóðenda sem gaf kost á sér og jók mjög á flækjustig kosninganna. En fjöldinn þarf heldur ekki að koma á óvart, því þau regin mistök voru gerð að hafa fjölda meðmælenda aðeins 30 fyrir hvern frambjóðenda. Með því að færa hann upp í þótt ekki væri nema 100 meðmælendur, hefði fjöldi frambjóðenda líklega verið talsvert minni, því þá hefði fólk þurft að fá fleiri en nánustu fjölskyldu og vini til að mæla með sér.

Í þriðja lagi þá var verið að kynna til sögunnar nýtt kosningafyrirkomulag sem hentar engan vegin fyrir kosningar af þessu tagi. Það hvarlar að manni sú samsæriskenningarhugun að þetta hafi verið gert til að rústa öllum hugmyndum um bæði persónukjör og það að gera landið allt að einu kjördæmi. Nú geta menn bent á reynsluna af þessum kosningum og sagt: hvernig haldið þið að það verði ef landið verður eitt kjördæmi og við eigum að kjósa 63 þingmenn af 5 flokka listum sem hver um sig væri með 126 frambjóðendur - svo ekki sé nú talað um ef menn gætu boðið sig fram sem einstaklingar. Það mun engum hugnast að endurtaka þennan leik.

Margir kjósendur tóku þessum kosningum eins og þeir væru að velja hóp á stjórnlagaþing og nýttu sér allar 25 línurnar á kjörseðlinum. Reynsla mín af samtölum við umtalsverðan fjölda kjósenda síðustu sólarhringana fyrir kosningar var sú að menn voru að kynna sér frambjóðendur og setja saman lista - ekki að velja bara þá einstaklinga sem þeim leist best á, heldur hóp af fólki til að takast á við ákveðið verkefni. Margir gættu að kynjahlufalli, bakgrunni í menntun og reynslu, jafnvel aldursdreifingu - öllum þeim þáttum sem ábyrgur kjósandi sem er að velja hóp á að gera, en þá og því aðeins að hann sé að velja hóp. Ég held að það hafi verið mikil mistök að hafa þetta ekki hefðbundið fyrirkomulag þar sem kjósendur völdu sér 25 fulltrúa og þeir 25-31 einstaklingur sem flest fengu atkvæðin kæmust inn. Ég hef nefnilega fulla trú á að flest fólk geti myndað sér skynsamlegar skoðanir og taki þátt í kosningum af fullri ábyrgð. Til þess þarf upplýsingar, tíma til umræðu og umhverfi sem hvetur til þátttöku í ferlinu öllu. Allt af því vantaði og þess vegna má vel líta svo á að 37% kosningaþátttaka sé bara vel við unandi. Enda ekki annað að gera en láta lýðræðið hafa sinn gang og nú stjórnlagaþingið glíma við nýja stjórnarskrá.

Að lokum um umboðið: 83.576 kusu sem þýðir að sætistalan svonefnda er 3.215 atkvæði. Þeir sem ná fjölda atkvæða eru öruggir inn. Til að setja það í samhengi, þá er áttundi þingmaður í Norðvesturkjördæmi með 2.703 atkvæði á bak við sig - eða talsvert færri en þeir sem flest atkvæðin fá til stjórnlagaþings. Þeir þingmenn hafa ekki litið á sig sem umboðslausa og geta því ekki heldur litið á stjórnlagaþingið öðrum augum.


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband