Dagur vonar

Í dag tók nýr forseti við í Bandaríkjunum sem kjörinn var til að gera breytingar og við hvern miklar vonir eru bundnar, bæði þar innanlands og ekki síður um veröld alla. Sjaldan hafa verið jafn miklar vonir bundnar við embættistöku nokkurs manns. Þennan sama dag, 20. janúar 2009, var einnig dagur vonar á Íslandi þótt undarlegt kunni að virðast. Það felst von í þeim viðbrögðum sem almenningur sýndi með því að mæta með potta og pönnur og láta Alþingismenn heyra hug sinn. Almenningur krefst þess að fá að kjósa - að fá að tjá reiði sína með einu lýðræðislegu leiðinni sem til er. Þau mótmæli standa enn núna nærri tólf tímum seinna.

Það setti jafnframt svartan blett á daginn hvernig lögreglan stóð að málum við Alþingishúsið og handtók á þriðja tug manna og virðist hafa gengið harðar fram en nauðsynlegt var og beitti kylfum í fyrsta sinn um langa hríð. En líklega hefur það fyrst og fremst þau áhrif að herða enn á mótmælunum. Það var a.m.k. hvötin til þess að ég fór niður á Austurvöll eftir 10 fréttir í kvöld; ég vildi sjá með mínum eigin augum íslenska óeirðalögreglu. Það var engin gleðisjón og ég er mjög hugsi yfir því að sjá röð lögregluþjóna í tvöfaldri röð verja inngang að nýrri hluta Alþingishúsins. Hér er þjóð í miklum vanda og ljóst að leiðtogar okkar eru ekki að valda þeim vanda.

En það var ekki hnýpin þjóð sem var að mótmæla. Það var glaðvært ungt fólk sem barði bumbur, dósir og dollur og bætti á bálið sem logaði glatt. Sumt missti sig í kæti og dansaði kringum bálið og gleðin hún spratt af því að geta tjáð sig og því að finna fjörkrafta lífsins bærast í brjóstinu og að taka virkan þátt í götulýðræði. En kringum unga fólkin var stór og þéttur hringur af fólki á mínum aldri sem tók hógværlegar undir, en kyrjaði þó: „Vanhæf ríkisstjórn". Hún er líka óhæf, sem sést á því hvernig hún hefur höndlað þau óskaup sem hafa gengið á.

Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar kemur fram í áramótaávarpi og segir „hafi mér orðið á mistök, þá þykir mér það leitt" ... þá er eitthvað alvarlegt að: Geir, ekki bara öll þjóðin að þér undanskildum, heldur umtalsverður fjöldi fólks í öðrum löndum, veit sitthvað og eiginlega heilan helling um þín mistök. Á gamálskvöld var þinn síðasti möguleiki til að biðja þjóðina afsökunar undanbragðalaust og tilkynna svo einhverja þá tiltekt og aðgerðir sem hefðu vakið okkur tiltrú á að þú skyldir vandann og værir fær um að takast á við hann.

3213346053_3ec5708c04Þegar hinn forystumaður ríkisstjórnarinnar fer að þræta við þjóðina um að hún sé ekki þjóðin, þótt hún standi frammi fyrir 1% kosningabærra manna - tja þá horfi maður nú á einhvert skeliflegasta pólitíska sjálfsmorð sem ég hef séð. Ég studdi þessa konu eindregið í embætti formanns greiddi henni atkvæði. Framganga hennar á þeim borgarafundi var forkastanleg og síðan hefur hún ítrekað þessi hrokafullu viðhorf. En hún átti einnig möguleika á að biðjast afsökunar á þessu og þeim sofendahætti sem einkenndi Samfylkinguna mánuðina fyrir efnahagshrunið. En hún kaus að gera það ekki og þar með stimplaði hún sig út úr íslenskri pólitík.

Þau eru svo mörg ef-in að ég verð óskaup dapur að hugsa um þetta; ef Geir og Ingibjörg hefðu nú borið gæfu til þess að koma fram saman í lok október og tilkynna uppstokkun í ríkisstjórninni þar sem fjármalaráðherra og viðskiptaráðherra væri vikið úr stjórninni, uppstokkun í stjórn Seðlabanka og Fjármalaeftirliti, ásamt því að sett hefði verið saman nefnd alþjóðlegra hagfræðinga og annara sérfræðinga til að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis - og jafnframt að Geir myndi leggja til við flokksþing Sjálfstæðisflokksins að farið yrði í aðildarviðræður við ESB, og hefði ég og eflaust hálf þjóðin gefið þeim tækifæri fram á vorið að minnsta kosti. Nú er þetta orðið of seint; jafnvel þótt þau tilkynni þessar aðgerðir á morgun, þá er það orðið of seint. Í stjórnmálum skipta tímasetningar lykilmáli og þeirra tími er liðinn. Ég spái því að bæði verði horfin úr stjórnmálum innan skamms.


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Tekið af visi.is

"Mótmælum við Alþingishúsið lauk ekki fyrr en á fjórða tímanum í nótt og höfðu þá tveir mótmælendur verið teknir úr umferð. Annar er að sofa úr sér ölvímu en hinum var sleppt undir morgun"

Svo talar hér einn um að faðir hans hafi verið handleggsbrotinn af lögreglumanni?  Persónulega dreg ég það stórlega í efa, án þess að geta fullyrt enda eru þetta orð gegn orði þartil handbærar sannanir fást. Talaði við kunningja minn í lögreglunni og tek orð þeirra marktækari.  Ef til vill datt þessi ágæti maður í öllu þessu chaosi sem var í gangi? Hver veit?  Lögreglan var tilneydd til þess að verja sig og eignir.  Ég vil sjá slökkvilið sprauta köldu vatni yfir fólk sem ekki hagar sér.

Vona að fólk láti af þessum skrílslátum og leyfi lögreglunni að vinna sína vinnu í friði.

Lög & regla (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.