Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Kondu fagnandi 1. júní

Mikið sem bæði ég og mig hlakka til þessa reykingabanns. Nú verður loksins hægt fyrir okkur meirihlutann sem ekki reykjum að fara á kaffihús og bari aftur án þess að koma heim lyktandi eins og öskubakkar.

Var á Írlandi fyrir nokkrum dögum, sem bannaði reykingar fyrir all nokkur. Þar hafa sumar krár byggt yfir reykingamennina úti - þannig að þeir eru inni þótt þeir séu úti. Slíkt myndi henta bæði íslensku veðri og íslenskri reglugerðarfælni. Þannig mætti eflaust byggja lítinn glerskála við Ölstofuna hjá Kormáki og þar gætu menn reykt nægju sína. Bara að vera hugmyndaríkur í að bjarga sér - þá lifa menn þetta allt saman af og gætu jafnvel grætt meira á okkur þessum reyklausu. Við verðum bara að vera dugleg að mæta á barinn í sumar!

ES ... reykingar verða eftir sem áður leyfðar í garðstofunni heima hjá mér á góðum gestakvöldum, því hún fellur ekki undir opinbera stofnun og er auk þess með góða loftræstingu.


mbl.is Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Póstkort úr Borgarfirðinum

Átti ekki von á góðu þegar ég lenti seint á föstudagskvöldi á Íslandi og hitastigið var tvær gráður! Á laugardegi tók á móti okkur brumið í Munaðarnesi - rétt við það að springa út, eins og vorið væri rétt að hefja innreið sína. Allt þrem vikum seinna á ferðinni en á höfuðborgarsvæðinu - svo ekki sé nú minnst á restina af Evrópu.

Á hvítasunnudag lágum við í potti og sólbaði! Láum öll fjölskyldan eins og kös á teppi í grasi í skjóli fyrir norðan næðingnum sem stundum laumar sér niður Norðurárdalinn. Og brunnum - a.m.k. sum okkar. Svo eftirtekja Hvítasunnuhelgarinnar er brunninn belgur og beyglaður skalli, því dyrakarmar í sumarhúsum í Munaðarnesi eru ekki gerðir fyrir fullvaxið fólk.

Ég held ég þori núna að segja :  Gleðilegt sumar!


Póstkort frá Írlandi

Sinn er siður í landi hverju. Maður lærir það alltaf betur og betur. Sit ráðstefnu hér í Ennis á Írlandi um svæðisbundna nýsköpun og rannsóknasamstarf, sem tengist verkefni sem við höfum verið að stýra og felur í sér aðstoð við Pólland og Lettland. Í gærkvöldi að lokinni formlegri dagskrá ætlaði ég að koma mér fyrir á hótelbarnum og fylgjast með kosningasjónvarpi - því í gær voru haldnar þingkostningar á Írlandi. En viti menn, ekkert kosningasjónvarp! Enginn spenningur, ekki einu sinni útgönguspár.

Írar eru pollrólegir þegar kemur að kosningum. Þeir safna saman kjörgögnum og byrja svo að telja þau í rólegheitunum daginn eftir. Og talningin er allt annað mál. Ég var rétt í þessu að koma frá því að horfa á sjálfa talninguna. Nei ekki í sjónvarpi, heldur sjálfa talninguna í þessu kjördæmi, því hún fer fram hér á hótelinu. Hér eru fleiri tugir manna að fylgjast með talningunni, sem fer fram í stórum sal með góðu svæði fyrir eftirlitsmenn flokkanna og fyrir almenning. Fyrstu töllur er væntanlegar innan skamms, en í morgun birtu írskir fjölmiðlar útgönguspár. Þær gera ekki ráð fyrir mikilum breytingum. Stærsti flokkur forsætisráðherrans Fianna Fáil virðist ætla að halda sínu fylgi og þótt fylgi samstarfsflokks hans í ríkistjórn hafi minnkað, jafnvel verulega, gera útgönguspár ráð fyrir að ríkisstjórnin haldi velli með 3% mun. En kannski verður meirihlutinn of lítill og Bertie Ahern þarf að finna nýjan samstarfsflokk.

Í öllu falli búast menn ekki við miklum breytingum og vilja kannski ekki miklar breytingar. Írar hafa það gott og hafa kannski aldrei haft það betra. Fólk frá nýju aðildarríkjunum flykkist hingað til að vinna þannig að af er það sem áður var þegar írar fóru út um allar jarðir til að finna einhverja vinnu. Maður finnur það líka á fólkinu hér, það er uppsveifla í gangi, fólk er almennt jákvætt og í góðum málum. Ég hitti reyndar einn íra á barnum í gærkvöldi sem var hræddur um að mikill fjöldi iðnaðarmanna yrði til þess að laun írskra iðnaðarmanna muni fara lækkandi. Kunnuglegt áhyggjuefni. Það er býsna margt sameiginlegt finnst mér með þessum eyjum tveim - enda finnst mér ég aldrei vera í framandi landi þegar ég er hér. Ég vona að írum finnist þeir líka vera á heimavelli þegar þeir koma til Íslands.


Ríkisstjórn í fremstu röð?

Þá liggur stefnuyfirlýsing Þingvallastjórnarinnar fyrir og sjálfsagt að hver lesi hana með sínum gleraugum. Hér er minn sjálfhverfi yfirlestur á þessari 2.410 orða yfirlýsingu:

Þetta er ríkisstjórn sem hefur metnað og talar af talsverðu sjálfstrausti. Kraftmikið efnahagslíf á að vera undirstaðan undir samfélag sem býr við „menntakerfi í fremstu röð", „heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða" og er „í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum." Þetta er gott. Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sér og metnað til að gera enn betur er ekki líklegur til afreka.

Ég er mikill áhugamaður um frekari framþróun þekkingarsamfélagsins - sem ég trúi að geti eitt orðið sá grunnur sem velferðarsamfélagið hvílir á - og því las ég þá hluta með sérstakri athygli sem snerta þann málaflokk. Strax í öðru kafla yfirlýsingarinnar segir: „Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. Samstarf atvinnulífsins og íslensku háskólanna er lykill að bættum árangri og nýsköpun í atvinnurekstri." Þetta gleður mitt háskólahjarta. Atvinnulífið og háskólarnir eru í sameiningu lykilinn að framtíðinni. Gæti ekki verið meira sammála. Framhald þessa kafla er rökrétt afleiðing þessa skilnings á því hvert stefnir: „á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs."

Hér er því strax komið eitthvað kjöt á beinin; haldið verður áfram að efla samkeppnissjóðina og farið í frekari aðgerðir til að styðja við hátækniiðnaðinn og sprotafyrirtækin, en fram til þess hefur verið mun meiri áhersla á stóriðju og hefðbundnari atvinnugreinar. Í því samhengi er rétt að skoða endurskipulagningu ráðuneyta, þar sem ferðamálin eru færð yfir í iðnaðarráðuneytið með öðrum atvinnugreinum. Sjávarútvegur og landbúnaður eru að vísu ennþá sér, en það er þó búið að sameina þau í eitt ráðuneyti, þannig að ætla megi ekki segja að ríflega hálfur sigur sé unninn. Svo yfirlýsingin og uppstokkunin gefur tilefni til bjartsýni með að þessi ríkisstjórn muni taka atvinnumálin frískari tökum en fyrri ríkisstjórnir. Svo er ekki verra að hafa sem opinber gögn þær tillögur sem Samfylkingin lagði fram á Sprotaþingi í febrúar s.l. og hlutu mestan stuðning þingfulltrúa af öllum þeim tillögum sem lagðar voru fram. Ég treysti því að varaformaður og framkvæmdastjóri flokksins nesti nýjan iðnaðarráðherra vel með þeim tillögum þegar hann fer að taka til hendinni í því ráðuneyti.

Þá er komið að því sem í minni orðabók heitir undirstöðuatvinnuvegur framtíðarinnar, menntamálunum, sem sett eru fram undir fyrirsögninni „Menntakerfi í fremstu röð":  „Ríkisstjórnin setur sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum. Framfarir og hagvöxtur komandi ára verða knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar.  ... Efla skal list- og verkmenntun á öllum skólastigum og auka náms og starfsráðgjöf." Allt er þetta sem tónlist í mínum eyrum og get ég raunar skrifað undir öll markmiðin sem sett eru fram í kaflanum. En þar segir fátt um hvernig verið staðið að breytingum, enda kannski eðli slíkra yfirlýsinga að vera almennar. Þannig hefur efling á verkmenntun verið markmið um árabil og Sjálfstæðismenn, sem fara nú inn í sitt fimmta kjör­tíma­bil í ráðuneytinu, verða bara að fara að sýna einhvern árangur á því sviði. Það kom reyndar talsvert á óvart að Sjálfstæðismenn héldu áfram að fara með það ráðuneyti eftir svo langa setu. Það hefði ekki komið á óvart að Samfylkingin hefði sótt fast að fá menntamálin og ekki heldur ef Sjálfstæðismenn hefðu viljað losna við málaflokkinn, því eitt helsta vandamálið við alla breytingastjórnun þar undanfarin misseri hefur tengst málefnum kennara og kannski kennaraforystunnar. En það varð ekki. Undir stjórn Sjálfstæðismanna hefur háskólastigið stórlega eflst á síðustu árum og þátttaka í námi á framhaldsskólastigi hefur einnig aukist, en eftirlegu­kindurnar eru brottfallið og verknámið. Hvor tveggja vandamálið er viðurkennt í  yfirlýsingunni og gefur það tilefni til að vona að góðar tillögur sem fyrir liggja um verulegar breytingar á framhaldsskólastignu og starfsnámi verði að veruleika á kjörtímabilinu. Gangi það eftir, mun brottfall minnka og verkmenntun eflast.

Að lokum vil ég minnast á einn mikilvægan kafla - sem ég held reyndar að sé mun mikilvægari en samgöngumálin - og það eru fjarskiptin. Í kafla um að landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði segir: „Ríkisstjórnin vill tryggja öryggi í gagnaflutningum til og frá landinu með nýjum sæstreng og sömuleiðis að flutningshraði gagna aukist í takt við þá þróun sem á sér stað. Góð gagna­samskipti auka mjög aðgengi að menntun og þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu, og fela auk þess í sér tækifæri til nýsköpunar." Ég vona að menn standi við þetta og leyfi mér að fullyrða að það er miklu mikilvægara á næstu fjórum árum að tryggja gagnasamskiptin en samgöngurnar; allt tal um Ísland í fremstu röð er marklaust ef landið er sambandslaust, jafnvel þótt það sé talið í nokkrum klukkustundum. Það land er hins vegar ekki til í heiminum þar sem ekki eru samgönguvandræði og menn komast ekki eins hratt leiðar sinnar og þeir helst vilja, þar er þessi fámenna þjóð enginn eftirbátur annarra. Svo ef menn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá verða menn að spyrja grundvallarspurningarinnar; hvað skiptir máli fyrir framtíð landsins alls? Svar síðustu ríkisstjórnar sem ákvað að setja fleiri milljarða í göng fyrir norðan sem mjög fáir munu nota en láta gagnastreng sem allir munu nota sitja á hakanum, var klárlega rangt. Ég treysti því að þessi ríkisstjórn muni ekki vera með samkonar forgangsröðun.

Ég læt öðrum eftir að kommentera á velferðar- og heilbrigðismálin svo ekki sé minnst á umhverfismálin eða Evrópumálin. Þar eru yfirlýsingar afar hófstilltar og bera þess merki að menn eiga eftir að tala sig betur saman. Mér sýnist reyndar yfirlýsingin og orðaval frammámanna Sjálfstæðisflokksins bera þess merki að flokkurinn sé að undirbúa stefnubreytingu í Evrópumálum sem verður orðin skýr eftir hálft annað ár. Þá geta menn sagt með góðri samvisku að forsendur séu breyttar og kalt mat á hagsmunum sé að skynsamlegt sé að sækja um aðild að ESB. Samfylkingin hefur greinilega fallist á að gefa Sjálfstæðisflokkum þann tíma sem hann þarf til að breyta um kúrs. Það er skynsamlegt.

Samandregið er þetta nokkuð góð stefnuyfirlýsing. Hér er lagður grunnur að frjálslyndri umbótastjórn, eins og hún kýs að kalla sig. Ef hún stendur við meginatriðin í stefnuyfirlýsingunni á hún góða möguleika á að vera ríksstjórn í fremstu röð.


mbl.is Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar undirrituð á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blanda af heilbrigðri skynsemi, hugleysi og kemur svo hálfleikur?

Uppstokkunin sem gerð verður á stjórnarráðinu er athyglisverð og hið besta mál. Það er gott mál að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og hálfur áfangi á þeirri leið að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þá er ekki síður jákvætt að færa ferðamálin yfir í iðnaðarráðuneytið og verður það vonandi til þess að þau fá hærri sess og aukinn stuðning. Þá er það skynsamlegt að hafa viðskiptaráðuneytið sjálfstætt - en það verður þó til að byrja með minnsta ráðuneyti sem sögur fara af með bara 5 starfsmenn! En þar undir er allur fjármálageirinn, samkeppnismál og svo margt fleira sem verðskuldar mun meiri athygli heldur en það hefur fengið fram til þessa. Og velferðarráðuneyti er auðvitað ráðuneytið sem Samfylkingin átti að koma á laggirnar og fá lyklavöldin að.

En við val á ráðherraefnum beggja flokka sýnist mér að báðir formenn hafið blandað saman slatta af heilbrigðri skynsemi við svolítið hugleysi og kannski samningum á bak við tjöldin að það verði hálfleikur eftir tvö ár og þá verði hluta liðinu skipt út.

Ráðherralisti Samfylkingarinnar ber merki kynjafléttu og landsbyggðar og borgarfléttu. Ég er eflaust ekki einn um þá skoðun að tími Jóhönnu Sigurðar sé bæði kominn og farinn, en formaðurinn hefur ekki teyst sé til að ganga fram hjá þeim tveimur sem hafa raunverulega ráðherrareynslu. En kannski verður Jóhönnu gert kleyft að hætta með stæl á miðju kjörtímabili, sem ráðherra velferðarmála. Það vekur líka athygli að þriðji maður á lista í Kraganum verði ráðherra og þannig sé gengið fram hjá þeim sem ofar eru. Ég sé á bloggsíðum í kvöld að menn eru komnir með nýtt uppnefni á nafna minn Ágúst Greyið Ágústsson, en það er að ósekju; bæði hefði verið ótækt að hafa fjóra ráðherra úr Reykjavík og svo er hann bæði ungur og með ögn vafasama fortíð eins og ungum mönnum sæmir.

Ráðherralisti Sjálfstæðisflokksins kom meira á óvart - en ég þekki ekki Geir og kannski átti hann ekkert að koma á óvart. Þetta er ráðherralisti Davíðs Oddssonar, nema nú er Guðlaugur kominn nýr inn og smá breyting önnur hefður orðið. Var það ekki örugglega Illugi sem sást á Þingvöllum en ekki Davíð sjálfur? Ég hef litla trú á að þetta sé óskaráðherralisti Geirs eða flokksins; en þetta var kannski eini listinn sem hægt var að ná sátt um. Bara ein kona og bara einn ráðherra sem hættir! Þess vegna læðist að manni grunurinn um hálfleikinn - kannski Björn Bjarnason finni það upp hjá sjálfum sér að hætta á kjörtímabilinu og e.t.v. Einar sem nú verður talsmaður íslenska hestsins ekki síður en þosksins.

En á heildina litið verður þetta öflug ríkisstjórn með hæfilegri blöndu af reynsluboltum og nýliðum, körlum og konum, landsbyggðarfulltrúm og reykvíkingum og ungum og ekki-svo-ungum. Sem sagt - gangi ykkur vel!


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar

Nú þegar ljóst er að það hefur tekist hjá Geir og Ingibjörgu að ná saman um málefnin, er bara eftir að manna skútuna. Það er væntanlega viðfangsefni funda með þingmönnum - að kynna þeim málefnasamninginn og ræða hugmyndir um hver eigi að sitja hvar. Svo hér er minn spádómur ... úr talsverðri fjarlægð og ber sjálfsagt einhvern keim af því að vera óskalisti um breytingar og jafnvægi kynjanna og endurnýjum í sem flestum ráðuneytum:

Sjálfstæðisflokkur:
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 
Árni Matthíassen, landbúnaðarráðherra
Björn Bjarnason, dóms- og krikjumálaráðherra
Arnbjörg Sveinsdóttir, sjávarútvegráðherra
Guðfinna Bjarnadóttir, samgönguráðherra

Samfylking - endurskoðuð útgönguspá eftir fjölda áskorana:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fjármálaráðherra
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra
Kristján L. Möller, umhverfisráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, menntamálaráðherra


mbl.is Formenn ræða við þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggsyndugur

Bloggsyndugir eru þeir menn sem sem brjóta bloggorðin tíu. Eitt þeirra er á þá leið mönnum beri að blogga reglulega, helst daglega. Svo um leið og ég legg þetta nýyrði fram - játa ég bloggsyndir mínar. Annir eru ávalt góð afsökun og undanfarna daga hef ég verið upptekinn með einn áhugaverðan færeying í heimsókn sem kann margt fyrir sér í tækniyfirfærslu því að gera samninga um þekkingu sem þróuð er innan háskóla.

En kannski er það líka þannig að maður heldur bara niðri í sér andanum vegna stjórnarmyndunarviðræðan og treystir því að þær fari á allra besta veg. Ég heyri ekki betur en stuðningurinn við þessa stjórn verði mikill og fannst reyndar skondin sú kenning Fréttablaðsins að eina stjórnarandstaðan sem eitthvað mætti sín væri í Sjálfstæðisflokknum. Ég treysti því að hvað sem einstaklingum innan flokkanna líði þá verði þetta sterk og frjálslynd stjórn sem mun opna enn frekar íslenskt samfélag og ráðast í stórsókn á lykilsviðum framtíðarsamfélagsins. Svo meðan leiðtogarnir ræðast við ... gerum við hin fátt annað en krossa fingur og bíða og vona að fæðing Þingvallarstjórnarinnar gangi vel.


Góðar fréttir

Ég er sammála niðurstöðu formannanna að ekki sé grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna. Nú er tími til að breyta. Nú er tími fyrir Þjóðarstjórn um þekkingarsamfélag, eins og ég sagði í síðasta bloggi. Ég treysti því að Geir og Ingibjörg Sólrún nái saman um meginatriðin á skömmum tíma. Nú reynir á Samfylkingarfólk að standa einhuga að baki sínum formanni og á þingflokkinn að veita formanninum fullt umboð til viðræðna. Nú er tækifæri fyrir þingflokkinn að ávinna sér traust sem kann að hafa skort, með því að ganga samstilltir inn í þessar viðræður.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarstjórn um þekkingarsamfélag

Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn vilji raunverulega fara í stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn, þar sem skoðanir eru mjög skiptar um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það eina sem gæti komið út úr því gott fyrir þjóðina og Sjálfstæðisflokkinn, er að Framsókn þurkaðist alveg út í næstu kosningum. Af sömu ástæðu trúi ég því ekki heldur að alvöru Framsóknarmenn vilji raunverulega í stjórn í þetta skiptið; þeir þurfa andrými til að bjarga flokknum.

Þess vegna kem ég því ákalli á framfæri við bæði Sjálfstæðismenn og Samfylkingarfólk að þeir taki höndum saman. Nú er kjörið tækifæri til að mynda öfluga stjórn sem getur tekist á við stór mál og erfið verkefni. Nú er þörf á stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar og hefur þingstyrk sem er meiri en svo að sérhver þingmaður hafi í reynd neitunarvald um öll mál. Fyrir íslenska þjóð er bara einn skynsamlegur kostur í þeirri stöðu sem komin er upp eftir kosningarnar: Það er stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Til samans eru flokkarnir með vel yfir 60% fylgi og hafa þá burði sem þarf til að breyta því sem þarf. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða þá ríkisstjórn en Samfylkingin á að sækjast eftir utanríkisráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Sú ríkisstjórn ætti að ráðast í fjögur stór verkefni:

  1. Sækja um aðilda að Evrópusambandinu og bera síðan niðurstöðuna undir þjóðina þegar hún fæst;  
  2. Ráðast í efnahagsumbætur sem felast í því að róa hagkerfið með tímabundnu stóriðjustoppi og öðrum aðgerðum sem lækka vexti og þar með fármagnstekjukostnað;
  3. Stokka upp í skattkerfi og félagslegu bótakerfi til að draga úr þeim ójöfnuði í kjörum sem vaxið hefur undanfarin ár;
  4. Efla þekkingarsamfélagið með umbótum í menntakerfinu og stórsókn í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpunarmálum - þannig að renna megi stoðum undir enn fjölþættara atvinnulíf þekkingarsamfélagsins til framtíðar.

Mikill hluti þjóðarinnar styður öll þessi verkefni: Sjálfstæðisflokkurinn getur haldið áfram að vera í þykjustuleik - þótt allir viti að meirihluti Sjálfstæðismanna séu jákvæðir gagnvart ESB og evrunni - og látið Samfylkinguna bera hitann og þungann af aðildarviðræðum. Ef illa fer og þjóðin hafnar samningi, þá getur hann þvegið hendur sínar. Samfylkingin getur vel látið af hendi forsætis- og fjármálaráðuneyti, ef Sjálfstæðismenn fallast á aðildarviðræður og skattkerfisbreytingar sem auka jöfnuð á ný, sér í lagi með verulegri hækkun persónuafsláttar. Og báðir flokkarnir eru sammála um að nauðsynlegt sé að fjárfesta í framtíðinni sem felst menntun, rannsóknum og hagnýtingu þekkingar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt þeim málaflokk með einu hléi í meira en tuttugu ár og því er mál að aðrir fái að spreyta sig.

Þjóðin þarf ekki meira af því sama heldur kalla tímarnir á stjórn breytinga. Sjálfstæðismenn og sósiademókratar hafa oft borið gæfu til góðra verka og hafa staðið fyrir farsælum breytingum á íslensku samfélagi. Nú er þörf á þjóðarstjórn um þekkingarsamfélag framtíðarinnar og einungis Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa burði til þess að standa að því nú.  

Svo það eru bara hvatningaroð í lokin. "Koma nú Geir ... þetta er þitt tækifæri til að fara heim af ballinu með sætustu stelpunni!"


mbl.is Biðstaða í viðræðum stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ensemble - breytingar frammundan í Frakklandi

nicolas-sarkozySaman ... það var kjörorð Sarkozy í kosningabaráttunni og saman þeir kusu hann með nokkuð naumum meirihluta í kvöld - en meirihluta þó. Frakkland hefur valið sér nýja forseta sem telur að breytinga sé þörf.

"Það er bara eitt Frakkland" segir Sarkozy í fyrstu ræðu sinni eftir að hafa lýst yfir sigri. "Við verðum að sýna ímynd sameinaðs Frakklands. Ég mun verða forseti alls Frakklands - sameinaðs Frakklands. Allir verða að njóta viðriðingar. Í kvöld er blaði flett í sögu Frakklands, hér á torgi sigursins; ég mun ekki svíkja - ég hef lofað fullri atvinnu og ég mun reyna af fremsta megni að uppfylla það loforð. Frakkland hefur gefið mér allt - núna fæ ég tækifæri til að gefa til baka."

Sarkozy er meðvitaður um vandamálin sem Frakkland stendur frammi fyrir. Hann var innanríkisráðherra í látunum sem voru í úthverfum Parísar fyrir nokkrum misserum. Og hann hefur sagt að þörf sé á Nýju Frakklandi ... og við sem fyrir utan stöndum en höfum átt í samskiptum við Frakkland lengi getum ekki verið annað en sammála. Stóra spurningin er hvort frakkar sem völdu Sarkozy kannski af illri nauðsýn því þeir vissu að róttækra breytinga er þörf, geta sætt sig við hann.  Ef breytingar eiga að verða, þá þurfa Frakkar að breytast. Ekki bara forsetinn, heldur líka hinn almenni Frakki sem verður að samþykkja breytingar á ósveigjanleika hins franska kerfis og reglugerðarverks fransks atvinnulífs.

Bon voyage ... er við hæfi til frönsku þjóðarinnar sem þarf nú að leggja í ferðalag á vit nýrra tíma.  


mbl.is Sarkozy lýsir yfir sigri í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband