Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Frægðarsól

Nú geta allir orðið frægir ... tja a.m.k. komið sér á framfæri í netheimum. Mér rennur blóðið til skyldunnar að koma skólarokkhljómsveitin Rock Off - sem er skipuð kennurum og nemendum við Fjölbrautaskólanum í Breiðholti - á framfæri. Þeir héldu í vor útitónleika sem báru yfirskriftina Skyggni ágætt (skýrir sig sjálft) og nú er stutt sýnishorn komið á You tube.

Rock Off - gerið þið svo vel:

http://youtube.com/watch?v=kuLHYRXlZYE


Upprisinn - en ekki á fullum krafti

Eftir tíu daga pillukúr er talsvert farið að réttast úr mér og ég get staðið uppréttur án þess að vera með sérstakt belti um mig miðjan. Get þó ekki sagt að þetta hafi gert mér neitt gott. Fullur dagskammtur af parkódíni gerir mann sljóan, framtakslausan og dapran. Vonandi er þetta að rjátlast af mér - er allavega mættur í vinnuna og byrjaður að ráðasta á það sem þarf að klára áður en seinni hálfleikur í sumarfríi tekur við.

Það er líka rólegt á þjóðlífsvígstöðvunum og því hefur ekki verið mikil ástæða til að vera að kommentera á málefni líðandi stundar. Má þó til með að nefna tvö mál.

Annað er verð á áfengi. Kannski er þetta bara populismi hjá stjórnmálamönnum sem vita að fólk er þessa dagana að bölsóttast yfir verðinu á guðaveigunum með grillmatnum - en vonandi kemur eitthvað út úr þessu og verðlag verður samræmt því sem það er annars staðar á N-Evrópusvæðinu. Neyslustýring gegnum verð virkar ekki nema þá helst í vitlausa átt. Þá er bara að minna viðskiptaráðherra og annað gott fólk á þetta þegar kemur að þingstörfum í haust; það væri ekki amarleg jólagjöf að lækka áfengisgjaldið svolítið í byrjun desember.

Hitt er utanríkisráðherrann okkar. Nú strax er það byrjað að gerast sem mörg okkar óttuðust og er kannski algerlega óumflýjanlegt. Þegar fólk fer í þetta embætti fær það tækifærifæri til að kynnast heiminum á annan og nánari hátt en flest okkar. Og allar venjulegar manneskjur sjá að þessu stóru geopólitísku mál eru miklu stærri og alvarlegri en okkar vandamál og menn fyllast áhuga og eldmóði að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið. Maður þarf eiginlega að vera eitthvað skrýtinn til að þetta gerist ekki. Og nú hefur Ingibjörg Sólrún fengið að kynnast af eigin raun einu af þessum stóru málum sem hafa áhrif á svo margt í stórríkjapólitíkinni og þá mun hún sjá viðfangsefni og vandamál hér á Íslandi í nýju ljósi. Hún er líka nýkomin frá Afríku þar sem vandamálin og viðfangsefnin virðast næstum óleysanleg. Vangaveltur um hátt áfengis- eða matvælaverð verða óskaup hjáróma gagnvart hungri og alvöru eymd. Kröfur um einstaklingsherbergi á elliheimilum hljóma ekki mjög brýnar þegar maður er nýkominn frá landi þar sem fæstir ná því að komast á elliár og elliheimili eru nær óþekkt fyrirbæri. Svo það er bara mannlegt að sjónarhornið og áherslurnar breytist. Við verðum bara að vona að Ingibjörg Sólrún gleymi ekki sínu sögulega hlutverki í íslenskri pólitík, þótt að veraldarsviðið sé vissulega bæði stærra og meira spennandi.


Póstkort úr bælinu

Þegar lífið slær mann út um stundarsakir þarf maður að fara í allt annan hrynjanda en maður er vanur. Þegar maður liggur í rúminu og getur sig eiginlega ekki hrært þá fer maður í annan gír og hlustar á umhverfishljóðin, öskukallana, börnin sem ganga framhjá og umferðarnið í fjarska, stundum sírenur en mestu þó fjarlægur niður og svo hlustar maður á Gufuna - gömlu góðu Gufuna sem er alltaf þarna fyrir mann þegar á þarf að halda.

Ég er búinn að liggja flatur í fjóra sólahringa eftir að hafa tognað illa í baki og mitt í verkjartöflumókinu hef ég hlustað á sögu af finnskum dreng og á gamlan upplestur Nóberlsskáldsins, óþolandi nútímatónlist og yndislegan jazz og svo óteljandi stutta fréttatíma að ekki sé nú minnst á veðurfréttir og dánartilkynningar frá upphafi til enda. Ég held ekki að þetta séu ellimerki - þegar maður er ekki alveg í fjórða gírnum þá vill maður ekki hlusta á það tempó sem er á flestum hinum útvarpsstöðvunum; maður er ekkert rosalega hress og fílar fátt í botn - allra síst ýkta og ofurhressa útvarpsþuli. Neib þá hentar Gufan. Kannski eru þeir bara nokkuð margir sem hentar betur hrynjandinn í Gufunni en í síbyljunni svo ég vona að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu haldist sá hrynjandi.

Það var annars svolítið hlálegt að fá sér far í sjúkrabíl í sólskininu upp á bráðamóttöku fyrr í vikunni. Konan linnti ekki látum fyrr en ég samþykkti að hitta lækni og þar sem ég gat engan vegin verið nema í hnipri útafliggjandi varð það að ráði að fá sjúkrabíl. Hef ekki þurft að nýta mér þá þjónustu í hart nær fjörutíu ár - en þá var líka sól í minningunni. Eins gott svosem að ég var drifinn uppá spítala því auðvitað var mín eigin sjúkdómsgreining röng. Þetta var sem betur fer ekkert innvortis heldur bara slæmt tilfelli af tognun í baki sem getur farið illa með skrifstofublækur sem leggjast í skurðargröft um helgar. Lækningin sú ein að éta verkjalyf og vöðvaslakandi og reyna svo að hreyfa sig innan sársaukamarka - sem eins og allir vita eru fremur lág hjá karlpeningi.

Allavega á fjórða degi er ég farinn að ganga ögn um, en boginn eins og nírætt gamalmenni. Heil vinnuvika farin í þetta hugsa ég bölvandi og er orðinn ansi óþreyjufullur eftir að komast í minn venjulega gír. Ætli það séu ekki nokkuð skýr merki þess að ég sé að hressast.  


Er eggið farið að kenna hænunni (að reikna)?

Ég heyrði ekki betur en Árni væri að segja Davíð að setjast nú niður að reikna þetta allt uppá nýtt og væri m.a.s. að gefa honum nýja formúlu til að reikna eftir: Minni tekjur af sjávarútvegi = minni þensla = minni þörf fyrir (afar) háa stýrivexti. Sem sagt skilaboðin frá unganum sem eitt sinn var í egginu sem Davíð lá á voru þessu: Hættu nú þessari þrjósku Davíð og lækkaðu vextina!
mbl.is Árni M. Mathiesen: „Enginn verðmiði á mótvægisaðgerðum ríkisins"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers dags líf

Þá er sumarfíi í Flórída lokið og við tekur hversdagslífið sem er ekki alltof heitt og felur ekki í sér neinar sundlaugar, svo dags daglega. Það er dálítið erfitt að stilla sig aftur inn á hrynjandi hversdagslífsins og sitja við skrifborðið allan daginn. Stóðst ekki mátið og svindlaði aðeins í gær og dreif mig í golf en náði hvorki því markmiði að sigra félaga minn né lækka í forgjöf. Pouty Þetta má líklega skrifa á þá staðreynd að ég lét bátsferðir og sundlaugasull ganga fyrir því að spila golf í Ameríku. Það er líka tæplega hægt að spila þegar hitinn er kominn vel yfir 30 gráður.

Það er annars merkilegt hvað maður getur vanið sig af fréttum ... a.m.k. yfir sumarmánuðina. Ég saknaði þess lítt að sjá ekki fjölmiðla í þrjár vikur og hef ekki haft mikla þörf fyrir að lesa blaðabunkann sem beið þegar heim kom. Ég hugsa að hann fari ólesinn af minni hálfu í endurvinnslu. Af þessu leiðir líka mun minn þörf fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar. Kannski hefur svona lítið verið að gerast eða kannski er manni bara nokk sama. En kannski er þetta líka til margs um maður hafi meira en nóg að gera í vinnu og einkalífi og hafi ekki tíma til að básúna neitt opinberlega.

En ég bætti við nýjum blogg-vin í dag þótt ég sé ekki mikið í því: Evrópusamtökin eru sem sé tekin að blogga og er það hið besta mál. Hvet alla til að kíkja í heimsókn þangað.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.