Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

RÚV er ekki að skilja samfélagslegt hlutverk sitt

Frambjóðendur til stjórnlagaþings hafa margir látið í ljós megna óánægju með að RÚV ákvað að vera ekki með neinar kynningar. Ég tók undir það að setti nafnið mitt á mótmælendalista.

Vonandi hrista þessi mótmæli og fyrirspurnin á Alþingi upp í stofnuninni sem er núna rekin svolítið eins og einkahlutafélag - maður er bara ekki klár á hverjir telja sig vera meiri eigendur en við almenningur.


mbl.is Vill upplýsingar um kynningu RÚV á frambjóðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugra þing og faglegra framkvæmdavald

Stjórnlagaþingi er ætlað samkvæmt lögum um það að fjalla um 8 tilgreind atriði. Hér er það sem mér virðist mikilvægast varðandi skipan löggjafarvaldsins og framkvæmdavalds og valdmörk þeirra.

Meginatriðin eru tvö að mínu mati: Annars vegar þarf að styrkja lýðræðið með því að efla Alþingi miðað við það fyrirkomulag sem hefur þróast á síðustu tveimur áratugum. Það grundvallast á þeirri skoðun minni að Ísland eigi að vera þingræðisríki, þar sem þingið í umboði þjóðarinnar hefur æðsta valdið í samfélaginu. Í því felst bæði að Alþingi á að hafa óskorað löggjafarvald og fjalla sjálfstætt um lagatillögur og sinna eftirliti með framkvæmda- og dómsvaldinu.

Í reynd hefur þingið of oft verið afgreiðslustofnun fyrir frumvörp sem koma frá framkvæmdavaldinu – en mikill meirihluti þeirra frumvarpa sem verða að lögum eru ráðherrafrumvörp og aðkoma þingsins er takmörkuð. Efla þarf þingið hér og sérstaklega hlut þingnefndanna í faglegri yfirferð yfir lagafrumvörp og getu þingmanna til að vinna eigin frumvörp.

Hinn anginn í því að efla þingið er lýtur að eftirlitshlutverki þess með framkvæmdavaldinu. Það er til staðar í dag í gegnum Ríkisendurskoðun og Umboðsmann Alþingis og hafa báðar þessir aðilar veitt framkvæmdavaldinu mikilvægt aðhald. En betur má ef duga skal. Sú hugmynd að styrkja sjálfstæði þingnefnda þannig að þær geti kvatt ráðherra og aðra embættismenn á sinn fund þar þingnefndirnar hafi vald til að knýja fram svör er góð hugmynd sem þarf að útfæra í nýrri stjórnarskrá.

Til að tryggja að þingið sé fært um að starfa á öflugi þátt en nú er ætti samhliða að grípa til þriggja ráða:
• Fækka á þingmönnum um að minnsta kosti þriðjung
• Ráðherrar eiga ekki að eiga sæti á þingi
• Efla þarf stuðning við þingmenn þannig að þeir njóti fullnægjandi sérfræðiaðstoðar

Hitt meginatriðið er að tryggja að framkvæmdavaldið vinni sem ein heild með því að auka sameiginlega ábyrgð ríkisstjórna og draga úr ráðherraræði. Til þess þarf að breyta stjórnarskránni því í dag fara ráðherrar einir með allt vald til ákvarðana og því er ekki í reynd um neinar sameiginlegar ákvarðanir ríkisstjórna að ræða þótt oft sé komist svo að orði um pólitískt samkomulag sem næst við ríkisstjórnarborðið. Nokkrar leiðir eru færar hér sem stjórnlagaþing þarf að taka afstöðu til. Einn liður í því er að efla formleg völd forsætisráðherra þannig að hann geti í reynd verkstýrt ríkisstjórninni og komið i veg fyrir að einstakir ráðherrar séu að taka ákvarðanir sem jafnvel stangast á. Íhuga þarf hvort ekki sé rétt að breyta fyrirkomulaginu þannig að einstakir ráðherrar geti ekki einir og án samþykkis tekið bindandi ákvarðanir – heldur þurfi samþykki t.d forsætisráðherra eða jafnvel embættismanna til að þær öðlist gildi. Stjórnlagaþing þarf að ræða þá mögulegar fyrirmyndir um hvernig er hægt að breyta hlutunum, því eitt af því sem kom skýrt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis er að fyrirkomulagi ráðherraeinræðis verður að breyta.

Til viðbótar við breytingar á ráðherraræði þarf að efla fagmennsku í stjórnsýslu og skýra betur boðvald og tengsl stjórnmálamanna og embættismanna. Fagmennska verður ekki tryggð í stjórnarskrá heldur bara í framkvæmd, en með því að setja ákvæði í stjórnarskrá um að við ráðingar í opinberar stöður skuli eingöngu horft til faglegra sjónarmiða er hægt að setja skorður við pólitískum ráðningum því þá er hægt að kæra ráðningar til dómstóls sem getur úrskurðað þær ógildar ef faglegum sjónarmiðum hefur ekki verið framfylgt. Jafnframt þarf að styrkja stöðu embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum og leggja þeim ríkari upplýsinga- og frumkvæðisskylur á herðar.


Veitir ekki af jákvæðum fréttum

Þessari þjóð veitir ekki af góðum fréttum; þótt kvótinn sé ekki eins mikil og stundum áður þá er þetta þó í áttina og kannski verður hægt að bæta við kvótann í lok janúar. Sjávarútvegurinn er svo sannarlega að leggja sitt af mörkum í að koma okkur í gegnum þessa efnahagslægð.
mbl.is Loðnukvóti verði 200 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæga samninga á að vanda til en ekki hraðsjóða

Öllum má ljóst vera að Ögmundur Jónasson er á móti aðild að ESB. Gildir þá líkast til einu hver niðurstaðan í samningum verður um þau álitamál sem hann nefnir í fréttinni. Ögmundi liggur á að komast í þann slag að sannfæra þjóðina um að við eigum ekki erindi inn í ESB og því rekur hann þá pólitík að rétt sé að hraða ferlinu eins og hægt er.

Við ættum að hafa lært það af hrunadansi undanfarinna missera að hrana ekki að mjög mikilvægum ákvörðunum sem hafa munu áhrif á gervallt samfélagið til langs tíma. Þess vegna er þessi málflutningur ráðherrans óábyrgur gagnvart þjóðinni þótt hann þjóni pólitískum hagsmunum ráðherranns sjálfsagt ágætlega. 

Það er afar mikilvægt að við vöndum okkur við þessa samningsgerð alla og að þjóðin kynni sér vel hvað felst í hugsanlegri aðild. Slíkt kallar á tíma og það mun kosta einhverja fjármuni enda er um framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að tefla. Álita- og hagsmunamálin eru miklu fleiri en Ögmundur lætur í veðri vaka. Engin ábyrg stjórnvöld geta lagt til að þjóðin taki afstöðu til þess hvort Ísland eigi að ganga í ESB á grundvelli einungis þriggja atriða og Evrópusambandsríkin sem eru viðsemjendur okkar munu ekki samþykkja slíka nálgun. Þetta er því óábyrgt pólitískt púðurskot hjá Ögmundi. 


mbl.is Vill fá niðurstöðu strax í skýr mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Get ekki sagt ég sakni þess

... að George W. Bush sé ekki lengur æðsti yfirmaður Bandaríkjahers. Verð eiginlega að viðurkenna að ég er dálítið feginn.
mbl.is Saknar dekursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verk að vinna í kynningarmálum

Jákvæðu fréttirnar eru þær að meira en helmingur kjósenda er þegar búinn að ákveða að kjósa og aðeins 11% er ákveðnir í að kjósa ekki. Það er því talsvert verk fyrir höndum hjá frambjóðendum og yfirvöldum í kynningarmálum næstu tvær vikurnar.

Í fyrsta lagi þurfa allir að leggjast á eitt með að fá sem flesta af þeim sem eru óákveðnir að mæta á kjörstað; trúverðugleiki stjórnlagaþings verður því meiri sem kosningaþátttakan er meiri. 70-75% þátttaka í svona kosningu væri mjög góð.

Í öðru lagi þurfum við frambjóðendurnir að kynna okkur ... svo ég bendi á agusthjortur.is ... og leggja ríkt að fólki að velja sem flesta frambjóðendur þannig að atkvæði þeirra nýtist örugglega.


mbl.is Rúmur helmingur ætlar að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegar breytingar - en í framhaldinu á að leggja landsdóm niður

Allar hljóma þessar breytingatillögur skynsamlega og til þess fallnar að færa fyrirkomulag nær því sem er með almenna dómsstóla. Það er hins vegar skoðun mín að sérstakur landsdómur sé ónauðsynlegur og óheppilegur. Réttast er að ráðherrar séu ákærðir og um mál þeirra fjallað af almennum dómstólum - eins og þeim verður fyrir komið samkvæmt nýrri stjórnarskrá. Þar þarf sérstaklega að huga að því hvernig er farið með mál þegar ráðherrar eru sakaðir um að hafa brotið gegn ákvæðum eða anda stjórnarskrárinnar. Finnst mér vel koma til álita að hafa sérstakan stjórnlagadómstól til að fjalla um álitamál og beinum málarekstri sem tengjast ákvæðum nýrrar stjórnarskrá og túlkun á henni.
mbl.is Breyta lögum um landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju HR

Það er rétt að óska Háskólanum í Reykjavík til hamingju með þennan áfanga og hornsteininn gamla sem vonandi vísar til þess að skólinn eigi lengi að standa. Þetta er hin glæsilegasta bygging og þrátt fyrir tímabundna erfiðleika félagsins sem á bygginguna þá megum við ekki gleyma því að háskólar eru ekki skammtímafyrirbæri og hafa sjaldan verið eins nauðsynlegir eins og nú.

Svona prívat og persónulega hefði ég fengið geimveruna Gnarr til að leggja hornsteininn - en það er nú aukaatriði.


mbl.is Hornsteinn lagður að nýbyggingu HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar æskilegar

Hér eru svör mín við spurningum þjóðkrikjunnar:

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
Já, ég er fylgjandi því að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að stjórnarskráin tryggi fullt trúfrelsi en feli ekki í sér ákvæði um sérstaka þjóðkirkju sem njóti stuðnings ríkisins. Það segir reyndar í núgildandi stjórnarskrá að þessu fyrirkomulagi megi breyta með lögum þannig að það er þegar í reynd á valdi alþingis að breyta þessu - þótt heppilegra sé að það gerist að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í ljósi þess sem ég hef sett fram sem leiðarljós í mínu framboði- réttlæti, sanngirni og sátt - þarf að haga þessum breytingum þannig að um þær ríki friður. Það tekur tíma að ná nauðsynlegri sátt um hvernig þessar breytingar geta gengið fyrir sig og hvernig samfélagslegum hlutverkum Þjóðkirkjunnar verður fyrir komin í framtíðinni. Hugsanlega kann að vera sanngirnismál að um þetta verði kosið sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að skýr þjóðarvilji búi að baki. Niðurstaða þjóðfundar bendir til að meirihluti fólks telji að tímabært sé að breyta sambandi ríkis og kirkju.

2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Íslenska þjóðkirkjan hefur gengt mikilvægu samfélagslegu hlutverki og mun gera það áfram þótt hún verði ekki ríkiskirkja eins og verið hefur. Það sama gildir um félagslíf og menningarstarf sem tengist kirkjum landsins. Mikil þátttaka almennings í þessu starfi sem og langar hefðir munu ekki breytast þótt formlegum tengslum verði breytt. Ég held einnig að í breytingum felist tækifæri fyrir kirkjuna til að blása lífi í trúarstarf og endurskoða hvernig því er sinnt.


mbl.is Frambjóðendur spurðir um samband ríkis og þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veru-leikur og skáldskapur

Það er auðvitað ekkert til að gantast með þegar fólk lendir í svikahröppum - hvort sem það nú eru íslenskir hrappar eða annarra þjóða. En manni leyfist að brosa ögn út í annað þegar söguþráðurinn er jafn farsakenndur og virðist vera í þessu tilviki.

Sem dyggum lesanda bóka Dan Browns þykir mér athyglisvert hvernig skáldskapurinn og verkuleikinn tvinnast saman hér til að gera veruleikann jafn lýgilegan og skáldskapinn - eða öfugt?

Nú er bara að sjá hvort hvort einhver íslenskur höfundur gerir sér ekki mat úr þessum efnivið um hvernig er hægt er að nýta sér umhverfi sem elur á allra handa vænisýki og samsæriskenningum sem óvandað fólk getur gert sér mat úr.

Að lokum: Í fréttinni er fjallað um handtöku á grundvelli ásakana, ekki dóms sem er fallinn. Munum því eftir einni mikilvægri grundvallarreglu réttarríkisins: Saklaus þar til sekt er sönnuð.


mbl.is Íslensk kona grunuð um stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.