Svör við spurningum frá svipan.is til frambjóðenda til stjórnlagaþings

www.svipan.is hefur sent frambjóðendum til stjórnlagaþings nokkrar spurningar og hyggst með þessu fá samskonar upplýsingar frá öllum frambjóðendum sem væntanlega hjálpar kjósendum að gera upp hug sinn. Eftirfarandi eru svör sem ég sendi þeim 16. október 2010.

Nafn: Ágúst Hjörtur Ingþórsson

Fæðingarár:   1961

Starf og/eða menntun: Forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Tæknigarðs hf. og Tækniþróunar hf., en bæði fyrirtækin eru að hluti í eigu Háskóla Íslands. Í starfinu mínu felst einnig að vera annar tveggja forstöðumanna Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB á Íslandi.

Háskólamenntun í heimspeki, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum frá Íslandi, Kanada og Bretlandi. B.A. próf í heimspeki og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1986. M.A. próf í stjórnmálaheimspeki frá Ottawa háskóla í Kanada1988. Heiti meistararigerðar Til varnar lýðræðinu. Doktorsnám við Ottawa háskóla 1988-1990 og Háskóla Íslands frá 2007 í opinberri stjórnsýslu með áherslu á opinbera stefnumótun. Dvaldi haustönnina 2008 við Rannsóknastofnun Sussex háskóla í vísinda- og tæknistefnu. Vinnuheiti væntanlegrar doktorsritgerðar er Vísinda-, tækni- og nýsköpunarstefna á Íslandi: von um nýja stórnarhætti eða enn eitt dæmið um stjórnkerfisbresti?

Hagmunatengsl: Engin sem hafa bein áhrif á afstöðu til álitamála varðandi stjórnarskrá. Sem starfsmaður Háskóla Íslands hef ég hagsmuni af því að efla menntun, vísindi og tækni og jafnvel að festa í stjórnarskrá réttinn til jafns aðgengis að menntun: það varðar hins vegar ekki persónulega hagsmuni nema að því marki sem ég er margra barna faðir.

Tengsl við flokka eða hagsmunasamtök: Er skráður félagi í Samfylkingunni. Hef ekki verið virkur í starfi flokksins né í framboði eða gefið kost á mér í trúnaðarstörf. Tel að þörf sé fyrir stóran og hógværan social-democratískan flokk að norrænni fyrirmynd í íslenskum stjórnmálum.  Er meðlimur í Sterkara Ísland, sem beitir sér fyrir upplýstri og málefnalegri umræðu um aðild að ESB, og Félagi áhugamanna um heimspeki sem beitir sér fyrir umræðu og útgáfu um heimspekileg málefni.

Ertu í einhverjum nefndum, ráðum eða stjórnum?  Fulltrúi Íslands í vísindanefnd COST (European Committee in the field of Scientific and Technical Research) um einstaklinga, samfélag, menningu og heilsu (Individuals, Society, Culture and Health).  Sérfræðingur í yfirstjórnarnefnd (Horizontal Programme Committee) 7. rammaáætlunar ESB um rannsóknir og tækniþróun (7th Framework Programme for Research and Technology Development). Sit í skólanefnd Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem fulltrúi menntamálaráðherra.

Maki: Hulda Anna Arnljótsdóttir.

Starf maka: Framkvæmdastjóri Fræðslusetursins Starfsmenntar.

Hagsmunatengsl maka: Engin.

Annað: Sjá nánari upplýsingar á vefnum: www.facebook.com/agusthjortur og  www.agusthjortur.is 

Hvers vegna viltu á stjórnlagaþing?  Vegna þess að stjórnlagaþing er einstakt tækifæri til að leggja grunn að nýjum samfélagssáttmála sem byggir á réttlæti og sanngirni, tryggir mannréttindi og skýrari verkaskiptingu löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds. Yfirveguð og fagleg vinnubrögð munu skipta sköpum ef það á að nást sátt um heildstæða tillögu að nýrri stjórnarskrá. Þetta tækifæri má ekki fara forgörðum í sundurlyndi og hagsmunaátökum. Á þingið þarf að veljast heiðarlegt og víðsýnt fólk sem getur náð árangri. Ég býð fram starfskrafta mína því tel að ég get lagt mitt að mörkum: ég hef góða heimspeki- og stjórnsýslumenntun sem nýtist í málefnalegri umræðu, víðtæka starfsreynslu í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum í opinbera- og einkageiranum og sem fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi.

Hverjar eru helstu hugmyndir þínar um breytingar á stjórnarskránni?  Mannréttindi þarf að festa í stjórnarská sem og ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum. Kjördæmaskipan þarf að breyta og jafna vægi atkvæða í þingkosningum og auðvelda þarf þjóðaratkvæðagreiðslur sem eiga að taka afstöðu til mikilvægra mála eins og breytinga á stjórnarskrá, hugsanlegrar ESB aðildar og aðskilnaðar ríkis og kirkju. Tryggja þarf þrískipingu valds með skýrri verkaskiptingu milli þings, framkvæmdavalds og dómstóla. Efla þarf þingið sem löggjafa og eftirlitstofnun og draga úr ráðherraræði um leið og efla þarf faglega stjórnsýslu til mikilla muna. 

Hefur þú lesið stjórnarskrá Íslands?  Já ítarlega og ítrekað, fyrst í tengslum við heimspekinám 1986, síðar vegna deilna um forsetaembættið og loks aftur núna til undirbúnings fyrir stjórnlagaþing.

Hefur þú lesið stjórnarskrár annara ríkja?  Já. Ég er alls enginn sérfræðingur í stjórnarskrám, en las bandarísku stjórnarskrána í námi mínu og síðar einnig þýsku og suður-afrísku stjórnarskrárnar sem að mati fræðimanna eru markverðar og gætu verið okkur fyrirmyndir í ákveðnum greinum.

Hefur þú lesið skýrslu rannsóknarnefndar alþingis?  Já nokkra kafla sérstaklega sem tengjast stjórnun, stjórnsýslu og stjórnmálum: 16. kafla (5. bindi) þar sem fjallað er um fjármálaeftirlit almennt, 19. kafla  (6. bindi) um aðgerðir stjórnvalda og 21. kafla (7. bindi) um ábyrgð, mistök og vanrækslu stjórnvalda. Þá las ég viðaukann (8. bindi) sem fjallar um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna af mikilli athygli. Tvennt hefur síðan leitt af þessari rannsóknaskýrslu: Annars vegar skýrsla starfshóps forsætisráðuneytisins um viðbrögð við skýrslu rannsóknanefndar Alþingis. Þar er fjallað um stjórnsýslulega þáttinn og lagðar fram margvíslegar og góðar tillögur að úrbótum. Hins vegar skýrsla þingmannanefndarinnar og sú þingsálytkunartillaga sem samþykkt var samhljóða af Alþingi. Þar er kallað eftir endurskoðun á stjórnarskránni, skýrari valdmörkum löggjafar- og framkvæmdavands og auknu hlutverki þingsins. Stjórnlagaþing þarf að fjalla um og taka afstöðu til tillagna í báðum þessum skýrslum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.