Póstkort frá Ameríku

Velkominn til Ameríku! Um leið og maður er kominn upp landganginn þá mætir maður henni í öllu sínu þjóðernisveldi - Ameríku. En nú ber nýrra við og mig eiginlega rekur í rogastans að það fyrsta sem ég sé skuli vera merki um nýja utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Mér mætir á flugvellinum plaggat með íslenska og bandaríska fánanum saman og um leið og ég kem inn á ganginn þar sem landganginum sleppir þá er þar íslenski fáninn, svona eins og til að bjóða mig velkominn. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sýn mætir mér á erlendri grund og hef ég þó lagst í dálítið af ferðalögum um ævina.

Þegar ég geng áfram ganginn sé ég þjóðfána fleiri ríkja þannig að þetta er til marks um nýja stefnu sem einnig hefur heyrst eitthvað af í fjölmiðlum síðustu daga og vikur. Bandaríkjamenn eru nú að átta sig á því að þeir þurfa á samvinnu og stuðningi annarra þjóða að halda. Stuðningi sem þeir hafa verið að glata hröðum skrefum vegna yfirgangs og einstrengingslegrar utanríkisstefnu. Ekki það ég kvarti sem Íslendingur. Það var hið besta mál að þeir skuli hafa „yfirgefið" Miðnesheiðina og misboðið þannig þeim aumkunarverðu íslensku ráðamönnum sem höfðu margsinnis niðurlægt sjálfa sig og þjóðina með tilefnislausum bónferðum til Bandaríkjanna. Ætli það sé ekki dýpsti dalurinn hans Davíðs - þetta sérstaka samband sem hann átti við núverandi Bandaríkjaforseta. Nema ef vera skyldi aðkoma hans að Baugsmálinu sem ég las um í nýju blaði Krónikunni á leiðinni yfir hafið. Þessi nýjasta viðbót við fjölmiðlaflóruna á Íslandi er með áhugaverða kenningu um kveikjuna að þessu máli öllu, ættaða frá lögfræðingi Jóns Ásgeirs, að það sem hafi gert útslagið með að Jón Gerald ýtti málinu öllu af stað hafi verið sú trú hans að Jón Ásgeir hafi reynt við konuna hans. Alveg skal ég trúa að þetta sé rétt (þ.e. að þessi hafi verið trú Jóns Geralds og því hafi hann leitað hefnda) því það væri svo innilega í takt við íslenska sögu og hefð. Hvar konu er skipað til sætis eða hvort maður skýtur kollu getur haft afgerandi áhrif á Íslandssöguna. Því ekki hvort maður reyndi við konu!

Himnakringlan

Ég er kominn í Himnakringluna, hvorki meira né minna. Þegar ég sest inn í hálftóma American Airways vélina og tek mér blað úr sætisvasanum fyrir framan mig á meðan ég bíð eftir því að ferðin þvert yfir Ameríku hefjist, þá held ég á Himnakringlunni (www.skymall.com). Engin smá Kringla sem býður manni að panta ótrúlegt úrval afurða sem ótaldir uppfinningamenn hafa eytt margri andvökunóttinni yfir. Þar sem ég er á leiðinni á ráðstefnu þar sem hittast starfsmenn háskóla í Vesturheimi sem hafa það verkefni að koma tækniþekkingu á framfæri og huga að því að þekking og niðurstöður háskólamanna nýtist sem best á markaði og í samfélaginu almennt, er mér málið skylt og ég fletti með athygli:

Hér er hitavesti sem gengur fyrir rafhlöðum og kæmi sér eflaust vel á köldum veiðidögum og sérhannað box fyrir öll tólf úrin sem flestir eiga. Fyrir gofaranna, þá er lítið  leysergeisla tól sem þjálfar mann í að koma golfkúlunni á réttan stað. Maður bara festir það á hausinn á pútternum og hringar snúruna upp skaftið og stingur í samband og fer svo að æfa sig. Að snúran trufli? Naah

Fyrir þá sem hafa nógan tíma (og kunna ensku) þá er hægt að kupa krossgátu sem er rúmlega fjórir fermetrar með 28.000 vísbendingum sem eiga að duga til að fylla út í alla 91.000 reitina sem eru auðir! Fyrir þá sem ferðast mikið er hægt að kaupa ferðlyftingasett ! Það er úr plasti og maður fær þyngdina sko með því að fylla plastið af vatni þegar maður er mættur upp á hótel. Tja, eða maður bara fer á gymið á hótelinu, nú eða drattast bara með níðþungar töskur til að halda sér í formi. Og svo eitthvað sem ég bara verð að prófa ... ljósrænt lyklaborð. Hvað á maðurinn við? Jú sko, þetta er lítið tæki sem sendir leysigeislamynd af lyklaborði niður á hvaða slétt yfirborð sem er en gerir meira en það því maður getur „snert" þetta lyklaborð og þannig slegið inn þótt hvar sem er með þá stærð af lyklaborði sem hentar aðstæðum og handarstærð hverju sinni.

Ég segi og skrifa ... velkominn til Ameríku : þar sem allt er til. Og svona eins og til að minna mann á hvað Ameríka er stór þá er flugið frá austurströndinni til San Francisco þangað sem ferð minni er heitið lengra en flugið frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Og tungl veður í skýjum þegar við förum í loftið rétt í þann mund sem íslenskri áhugamenn eru að munda sjónauka sína til að fylgjast með tunglmyrkva sem ég missi af í 33.000 fetum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband