Upprisinn - en ekki á fullum krafti

Eftir tíu daga pillukúr er talsvert farið að réttast úr mér og ég get staðið uppréttur án þess að vera með sérstakt belti um mig miðjan. Get þó ekki sagt að þetta hafi gert mér neitt gott. Fullur dagskammtur af parkódíni gerir mann sljóan, framtakslausan og dapran. Vonandi er þetta að rjátlast af mér - er allavega mættur í vinnuna og byrjaður að ráðasta á það sem þarf að klára áður en seinni hálfleikur í sumarfríi tekur við.

Það er líka rólegt á þjóðlífsvígstöðvunum og því hefur ekki verið mikil ástæða til að vera að kommentera á málefni líðandi stundar. Má þó til með að nefna tvö mál.

Annað er verð á áfengi. Kannski er þetta bara populismi hjá stjórnmálamönnum sem vita að fólk er þessa dagana að bölsóttast yfir verðinu á guðaveigunum með grillmatnum - en vonandi kemur eitthvað út úr þessu og verðlag verður samræmt því sem það er annars staðar á N-Evrópusvæðinu. Neyslustýring gegnum verð virkar ekki nema þá helst í vitlausa átt. Þá er bara að minna viðskiptaráðherra og annað gott fólk á þetta þegar kemur að þingstörfum í haust; það væri ekki amarleg jólagjöf að lækka áfengisgjaldið svolítið í byrjun desember.

Hitt er utanríkisráðherrann okkar. Nú strax er það byrjað að gerast sem mörg okkar óttuðust og er kannski algerlega óumflýjanlegt. Þegar fólk fer í þetta embætti fær það tækifærifæri til að kynnast heiminum á annan og nánari hátt en flest okkar. Og allar venjulegar manneskjur sjá að þessu stóru geopólitísku mál eru miklu stærri og alvarlegri en okkar vandamál og menn fyllast áhuga og eldmóði að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið. Maður þarf eiginlega að vera eitthvað skrýtinn til að þetta gerist ekki. Og nú hefur Ingibjörg Sólrún fengið að kynnast af eigin raun einu af þessum stóru málum sem hafa áhrif á svo margt í stórríkjapólitíkinni og þá mun hún sjá viðfangsefni og vandamál hér á Íslandi í nýju ljósi. Hún er líka nýkomin frá Afríku þar sem vandamálin og viðfangsefnin virðast næstum óleysanleg. Vangaveltur um hátt áfengis- eða matvælaverð verða óskaup hjáróma gagnvart hungri og alvöru eymd. Kröfur um einstaklingsherbergi á elliheimilum hljóma ekki mjög brýnar þegar maður er nýkominn frá landi þar sem fæstir ná því að komast á elliár og elliheimili eru nær óþekkt fyrirbæri. Svo það er bara mannlegt að sjónarhornið og áherslurnar breytist. Við verðum bara að vona að Ingibjörg Sólrún gleymi ekki sínu sögulega hlutverki í íslenskri pólitík, þótt að veraldarsviðið sé vissulega bæði stærra og meira spennandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Láttu þér batna karlinn.  Erfitt að koma frá Flórída og detta beint í skurð-gröft.  Ég hef þá kenningu að maður taki líkamlega á eftir minni, ekki núverandi getu.  Þegar þú varst 20-25 þá gastu mokað og mokað og það mannstu!!

 kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 23.7.2007 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband