Flutningar, afmæli og einsöngur

Það var í nógu að snúast um helgina á heimavígstöðvum. Tengdamóðir mín var að flytja úr "litla húsinu" sem er á bakhluta lóðarinnar - en hún er að koma sér fyrir í glæsilegri íbúð þar sem þjónusta og aðgengi er betra. Mér var skipað að halda mig til hlés í burðinum, því það er nóg af röskum mönnum og konum í fjölskyldunni sem sáu um þann hlutann. Stóð mína plikt í eldhúsinu í staðinn og eldaði flutnings og afmæliskvöldverð - því elsti drengurinn hann Unnar Steinn varð 24 ára á sunnudaginn. Eitthvað rúmlega tíu manns í mat, svo það þurfti talsvert af lambakjöti og helling af meðlæti í þetta. Hvítlauksmettað lambakjöt á fennelbeði skýrði ég uppskriftina, en það fóru tveir stórir hvítlaukar í réttinn! Má-kona mín hún Ásdís dokumenteraði þetta allt saman á myndasíðu sinni, þar sem eru góðar haustlitamyndir úr garðinum hjá okkur.

Ég varð sjálfur að rjúka frá borði rétt eftir að allir voru sestir, því síðast á dagskrá dagsins var æðruleysismessa þar sem Emblan söng einsöng. Ég hef aldrei farið í æðruleysismessu fyrr, svo það var útaf fyrir sig athyglisvert, þótt yngri dóttirin væri ekki sérlega imponeruð. En toppurinn var auðvitað að heyra Emblu engilinn syngja Angel sinn tregafullu röddu. Gott að fara í messu á þessum tíma - á eiginlega betur við mig að syngja á kvöldin en morgnana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband