Stoltur faðir

Eldri dóttirin stendur í stórræðum þessa dagana. Í gær flutti hún lokaerindi á fjölmennri ráðstefnu um Tómstundir barna með sérþarfir, sem Æfingastöð Styrktarfélags lamaðara og fatlaðra stóð fyrir í Rúgbrauðsgerðinni. Þetta er fyrsti opinberi fyrirlesturinn sem hún flytur - með glærum og öllu saman - en örugglega ekki sá síðasti. Hún stóð sig afar vel og fékk salinn vel með sér og var vel fagnað í lokin. Auðvitað var pabbinn afar stoltur.  Erindið hér "Af hverju skipta tómstundir máli?" og þar sagði Emblan frá söngnámi sínu, veru í Skólalúðrasveit Mosfellsbæjar og síðan sundinum sem hún hefur æft núna í 7 ár.

Ég sótti ekki nema síðasta hluta ráðstefnunnar, en þar voru m.a. kynntar ansi sláandi niðurstöður um félagslíf og tómstundastarf barna með sérþarfir; því miður er meirihluti þeirra ekki virkur í félags- og tómstundastarfi og er fyrir vikið talsvert félagslega einangraður. Oft er ástæðan sú að foreldrar hafa ekki tök á að vera með börnum sínum í tómstundunum og ekki er í boði nein liðveisla.

Núna um helgina er síðan Norðulandamót fatlaðra í sundi. Þar eru keppendur frá 7 löndum og mikið fjör. Emblan keppti í 50 m flugsundi í morgun og náði besta tíma sínum á þessu ári, sem er mjög gleðilegt því hún er búin að vera með bakvandamál síðan í lok sumars. Nú vantar bara eitt gott skref framávið því það vantar ennþá herslumuninn á að hún sé búin að ná tilskildu lágmarki til að komast á Ólympíuleika fatlaðra í Kína á næsta ári. Svo það var líka stoltur pabbi á sundmóti í dag - reynar vorum við nokkrir þarna stoltir pabbarnir og alltaf gott að vera í svoleiðis félagsskap.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Embla Ágústsdóttir

Ég þakka falleg orð

Embla Ágústsdóttir, 31.10.2007 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband