Nú geta jólin komið

Þá er námsdvöl í Bretlandi lokið og fyrstu dagarnir á Íslandi voru svo snarpir að ekki var tími til að setjast niður og blogga fyrr en nú þegar allt er orðið tilbúið fyrir jólin. Nú mega þau ganga í garð velkomin sem þau eru nú alltaf.

Það var gott að koma í vinnuna aftur af því að þar hafði verið haldið vel á öllum spilum og spöðum þann tíma sem ég var í leyfi. En það var vitaskuld fjölmargt sem beið mín m.a. fundur í stjórn Rannsóknaþjónustunnar og einnig í Hugverkanefnd - sem er merkilegt fyrirbæri. Jólafundurinn með stjórn og starfsfólki var góður - en við höfum haft þann háttinn á nú nokkur síðustu ár að hittast saman og fara yfir þau markmið sem sett eru í starfsáætlun í upphafi árs og meta hvernig hefur til tekist. Árangurinn í ár er góður - þau verkefni þar sem árangur ræðst fyrst og fremst af frammistöðu okkar gengu vel, en það sem ekki tókst var oft háð ytri aðstæðum.  

Það líka gott að koma í venjulegt heimilislíf aftur eftir einveruna í Brighton og fjölskyldan tók vel á móti mér. Reyndar gerði konan sér ferð til Brighton að sækja mig og hjálpa mér með farangurinn heim - og það kom sér vel því mörg reyndust kílóin vera þegar við tékkuðum okkur inn og var þó handfarangur minn sá þyngsti sem ég hef nokkurntíma tekið með mér. En við áttum tvo góða daga saman eftir lokaprófið mitt áður en haldið var heim og nutum þess að vera í ró og næði.

Nú er allt frágengið sem nauðsynlega þarf að gera í vinnunni: áramótafærslur, tilkynningar og bréf allt farið út og á heimilinu er búið að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim flestum inn og setja upp og skreyta jólatréð - svo þetta getur ekki verið betra hvað undirbúninginn varðar. Svo ég er að hugsa um að taka mér jólafrí að mestu leyti frá blessaðri kreppunni og tjá mig ekki um fjárlagafrumvarpið og annað sem á mér brennur að sinni. Ég finn ekki nógu helbláan lit í litapalletu moggabloggsins til að tjá mig. Ég geri mér líka betur grein fyrir því nú þegar ég hef getað tekið púlsinn á þjóðinni með beinni hætti en hægt er í fjarlægð að það eru næstum allir ósáttir. Ég velti því fyrir mér í hvaða farveg þessi "frústrasion" fer þegar hátíðarnar eru að baki. Eitt er víst - að við munum fá að lifa áhugaverða tíma í íslenskum stjórnmálum á næstu misserum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband