Næst síðasti dagur ársins 2008

Á næst síðasta degi ársins sest ég stundum niður og lít yfir farinn veg. Maður er gjarnan of upptekinn á sjálfan gamlársdag til þess. Þetta er jafnframt svona afmælisfærsla, því ég bloggaði fyrst þennan dag fyrir tveimur árum. Hér kemur matið á árinu 2008 og fyrst er það sem mestu skiptir börnin sjálf.

Sá elsti, Unnar Steinn, plummar sig vel í starfi hjá CCP. Hann er núna búinn að vera þar í tvö ár og er ánægður með starfið og ber þar ábyrgð á gagnagrunni leiksins sem afkoma fyrirtækisins hvílir á - svo við höfum ekki miklar áhyggjur af því að hann haldi ekki vinnunni. Sá næst elsti, þótt litlu muni, Hjörtur, heldur sínu striki í náminu og stefnir á að ljúka prófi í nútímafræðum frá Háskólanum á Akureyri næsta vor. Hann er í góðum málum og búinn að dvelja síðan síðla sumars í Mexíkó og taka þar eina önn við fínan tækniháskóla sem metin er að fullu sem hluti af náminu fyrir norðan. Hann eyðir áramótunum með kærustunni í Suður Ameríku svo það væsir ekki um hann.

Elsta dóttirin hún Embla lifir viðburðarríku lífi sem aldrei fyrr. Það voru henni vonbrigði að komast ekki á Ólympíuleikana í Peking í sumar - en það var ekki við hana að sakast; hún gerði sitt besta og er efst á heimslistanum í eini grein og í top tíu í tveimur öðrum. Málið er bara að það eru svo fáar konur sem keppa í þessum fötlunarflokk að það var ekki blásið til keppni nema í einni grein - sem vill svo til að er hennar lakasta. En í stað þess að láta þetta á sig fá hefur hún snúið sér að öðrum áhugamálum og flutti á árinu fyrirlestra við helstu háskóla landsins um þá áskorun sem fötlun er og einnig um kynjafræði og fötlun. Það má eiginlega segja að hún sé orðin fastur fyrirlesara bæði fyrir norðan og við Háskóla Íslands. Ekki slæmt hjá 18 ára stelpu sem enn er í framhaldsskóla.

Þau yngstu tvö eru líka á góðu róli á sinni þroskagöngu. Ásdís Sól þroskast hratt og gekk bara vel á sínum fyrstu samræmdu prófum og stóð sig frábærlega í íslensku. Hún les, hannar, teiknar og skapar alla daga og dreymir nú um að verða í senn fræg leikkona og rithöfundur. Sá yngsti Óðinn-sen er hins vegar ákveðinn í því að verða vísindamaður og fer ekkert í grafgötur með það að stæðrfræði og þess háttar sé nú lítið mál fyrir hann. Hann var valinn í skólalið Ísaksskóla í skák og keppti á sínu fyrsta skákmóti á árinu og fékk líka gula beltið í karate undir lok ársins. Ekki slæmt hjá 7 ára gutta.

Öll eru því börnin upptekin hvert á sinn heilbrigða hátt og öll í góðum málum. Er það mikil gæfa fyrir okkur foreldrana sem að þeim stöndum. Eftir því þarf maður að muna þegar vonbrigði og reiði ríkja innra vegna ástandsins í þjóðlífinu og með frammistöðu stjórnmálamanna sem maður trúði á. Börnin hafa svo sannarlega ekki brugðist, heldur þvert á móti eru gleðigjafar sem við erum stolt af.

Af okkur sjálfum segir kannski mest af vinnu - enda er það nú svo með fólk á miðjum aldri með börn á öllum aldri og í krefjandi störum að þetta er tvennt er svotil allt lífið. Huldan heldur áfram á góðu róli sem framkvæmdastjóri hjá Starfsmennt, sem hélt áfram að vaxa og dafna undir hennar stjórn. Hjá henni ber líklega hæst á þeim vettvangi að hafa fengið Starfsmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir ávallt. Árið gekk líka vel hjá Rannsóknaþjónustunni og þeim verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Svo vel að allt var í stakasta lagi þegar ég kom til baka úr 10 vikna námsleyfi til Bretlands. Ég get lítið kredit tekið fyrir það annað en að hafa valið gott fólk með mér og verið heppinn í starfsmannahaldi.

Persónulega stendur námsleyfið uppúr fyrir margra hluta sakir. Það voru mikil forréttindi að fá að kúpla sig út úr daglegu lífi að mestu í 10 vikur og lifa lífi námsmanns og geta einbeitt sér að því að læra það sem mig skorti uppá fræðilegan grunn. Um leið voru þetta harla óvenjulegir tímar til að vera fjarri fjölskyldu og starfi svo lengi - en þó ekki svo fjarri með alla miðla aðgengilega á neti og netsíma sem kostar lítið sem ekkert og hefur gerbreytt öllum samskiptum milli landa. Ég hef ekki í annan tíma legið svona mikið á netinu! Það gat líka verið óþægileg reynsla að vera íslendingur í Bretlandi - eins og þegar aðstoðarrektor Sussex háskóla kom sérstaklega til mín því hann vissi þjóðerni mitt frá fyrri fundi okkar til að segja mér að háskólinn ætti 3,5 milljónir punda inná Icesave reikningi. Hvað gat maður annað gert en orðið óskaup vandræðalegur og reynt að tafsa einhverjar afsakanir.

Þrátt fyrir þessar annarlegu aðstæður þá gekk námið samkvæmt áætlun og nú í árslok er ég búinn að halda þá áætlun sem ég gerði fyrir tveimur árum þegar ég var samþykktur sem doktorsnemi við Háskóla Íslands. Nú er ég búinn að ljúka öllum formkröfum sem gerðar voru og fól m.a. í sér að ljúka 45 gömlum einingum eða einu og háflu ári í fullu námi. Fyrir utan námsleyfi í haust hef ég gert þetta samhliða fullu starfi - svo ég er sáttur. Nú er „bara" doktorsritgerðin sjálf eftir - en ég áforma að vera kominn með heildaruppkast í lok næsta árs.

En lífið er ekki eintóm vinna; við höfum líka haft tök á að fara í frí og skemmta okkur. Ber þar hæst tvær ferðir. Önnur til Danmerkur þar sem við dvöldum bæði í Kaupmannahöfn og hjá Molbúunum og líkaði það vel. Því miður gleymdist myndavélin í þeirri ferð en sú varð ekki raunin þegar við gerðum mikla og góða reisu á Vestfirðina sem skörtuðu sínu fegursta fyrir okkur. Fengum við slíka blíðu að elstu menn muna vart annað eins á Patreksfirði. Er þessu gerð skil í sérstöku myndaalbúmi hér á blogginu.

Á heildina litið var þetta gott ár fyrir mig og mína nærfjölskyldu. Vel gekk í vinnu hjá okkur sambýlingunum og börnin döfnuðu öll og þroskuðust vel. Við lentum ekki í neinum hremmingum sem orð er á gerandi við bankahrunið. Góðærið ærði okkur ekkert og fór eiginlega að mestu framhjá okkur því við keyptum hvorki hús, bíla né hjólhýsi og ekki einu sinni flatskjá og tókum fyrir vikið hvorki verðtryggð lán né í evrum. Við erum því að vona að kreppan fari jafn hljóðlaust hjá garði eins og góðærið gerði.

... ég enda á þessum jákvæðum nótum. Ég ákvað rétt fyrir jólin að haga mér eins og strúturinn um hátíðarnar og stinga höfðinu í sandinn um stund og útiloka öll þau óskaup og ósvinnu sem eru í gangi allt í kringum okkur. Það verkefni bíður næsta árs að opna almennilega augun og ákveða hvað maður getur gert í því. Þangað til 2009 gengur í garð ætla ég að njóta þess um stund að þetta var gott ár fyrir mig og mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband