Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Allir vildu evru lofað hafa

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, er ekki búin að gefast upp á þeirri hugmynd sinni að taka upp evruna áður en við göngum í Evrópusambandið. Valgerður hefur hreyft þessari hugmynd áður og ýmsir orðið til að gera efast um að hægt sé að gera slíkt.

Það er hins vegar ljóst að tímans þungi niður er í þá átt að allir vilja nú fá evruna: Útrásarfyrirtækin og Kauphöllin, lántakendur (og þar með líklega meirihluti þjóðarinnar) og erlendir lánveitendur. "Viðskiptalífið lifir sínu lífi", sagði Valgerður í útvarpinu í morgun og vill láta kanna til fulls hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í málinu miklu fyrr en hægt er að ganga í ESB að hennar mati.

Slíkt hefði einnig þau skemmtilegu hliðaráhrif að Seðlabankinn yrði næsta óþarfur og þannig gæti Framsóknarflokkurinn komið í veg fyrir áframhaldandi virka pólitíska þátttökku Davíðs Oddssonar - sem virðist bara ekki geta hætt í pólitík.  

Ég sjálfur hef verið afar hrifinn af evrunni frá því daginn sem hún gekk í gildi. Bjó þá í Brussel borg og það var merkilegur dagur þegar skipt um mynt bara sí svona. En það gekk alveg snuðrulaust fyrir sig. Reyndar hækkaði verðlag á ýmsu smáræði þegar menn rúnnuðu af tölur (og þá alltaf uppávið) og slíkt myndi líka gerast á Íslandi. En bara tilhugsunin um að borga 4.15% í vexti af húsbréfunum - að meðtalinni verðbólgunni - er nóg til að ég sé til í slaginn.  

Það skildi þó aldrei verða að árið yrði virkilega skemmtileg í pólitíkinn og að jólavísareikningurinn að ári yrði í evrum?  


Palladómur um áramótaskaupið 2006

Það er við hæfi að fyrsti palladómurinn sé um skaupið. Mér fannst það frábært. Og ólíkt öðrum bloggara sem tjáði sig um skaupið þá hlóu allir sem voru í kringum mig - rúmlega 10 manns og þar var ég næst elstur.

Það urðu kynslóðaskipti í þessu skaupi. Ný kynslóð húmorista stimplaði sig inn með eftirminnilegum hætti. Þetta er sú tegund af n.k. aulahúmor sem hefur verið áberandi hjá þeim sem hafa verið að höfða til yngra fólksins. En þarna voru á ferðinni atvinnumenn sem byggðu á ríkulegri menningarhefð kvikmynda (sbr. upphafsatriðið sem vísar í Plánetu apanna, þá klassíksu framtíðarhrollvekju, eða Baugsmyndina sem vísar í stjörnustríðið - alger snilld); teiknimynda (sbr. fyrsta söngatriðið "Velkominn til Íslands / Allir kunna að skemmta sér." sem er vísun í Who killed Kenny); auglýsinga (sbr. "Staurauglýsinguna" sem var fullnýtt og frábæran útúrsnúning eða viðsnúning á auglýsingunni "Góð hugmynd frá Íslandi"), svo ekki sé minnst á tónlistarmyndbönd (sbr. frábæra endurgerð af frægasta myndbandi Nylon).

Þessu var svo blandað saman við "hefðbundnara" grín þar sem landsliðsmenn úr Spaugstofunni léku landsfeðurnar á trúverðugan hátt þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um plagg sem enginn má sjá og gæti því allt eins verið árituð ynd af nakinni Hollywood stjörnu. Meðferð þeirra á sveitastjórnarkosningunum var líka góð því þar var blandað inn málefnum aldraðra og innflytjenda. Já það var hressandi að heyra "ekki-íslensku" talaða í skaupinu og sjá fordómafulla fjölmiðlamenn sem vilja ekki tala við nema alvöru Íslendinga. Og það má gera grín að fötluðum. Engin vé eru svo heilög að þau eigi ekki heima í skaupinu - ekki Gísli á Uppsölum og ekki Sigurrós, en túlkun Jóns Gnarr á söngvara Sigurrósar var tær snilld.

Í stuttu máli var hér á ferðinni hópur fagmanna sem þekkir sína menningu og kom gríninu vel til skila. Svo miklir fagmenn voru þetta að þeir slógu vopnin úr höndum gagnrýnenda með innkomu útvarpsstjóra: "Góðir áhorfendur. Skaupið er sniðið að þörfum þeirra sem hafa beittan, en þó mjög vandaðan húmor." Ég tek því undir með Páli í því atriði: "Þetta er frábært skaup."

Sem sagt fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og fyrir þá sem misstu af því, er hægt að horfa á það á vef RUV: Áramótaskaupið 2006.
 


Framtíðarsýn forseta Íslands

Það er mikilvægt að forseti Íslands lesi í þjóðarsálina og sé um leið framsýnn. Þjóðinn sem kaus í vinsældakosningum á Rás 2 í gær taldi umhverfismálin og börnin skipta mestu máli. Um þetta talaði forsetinn í nýársávarpi sínu. Þar varpar hann fram þeirri hugmynd að "Ísland verði miðstöð alþjóðlegs samstarfs og samræðna um hreinan orkubúskap jarðarbúa" og lofar því að beita sér í því máli.

Þessi framtíðarsýn þykir mér skynsamleg og tímabær. Að þessu hefur forsetinn unnið nú um nokkurt skeið, eins og hann rekur í nýársávarpi sínu. Sú vinna byggir aftur á traustum grunni jarðhitavinnu okkar Íslendinga og því sem við höfum reynt að færa fram í vetnismálum. Ég hef fulla trú á því að forsetinn mun geta nýtt krafta og tengsl við áhrifafólk til góðra hluta á þessum vettvangi. Skömmu fyrir jól átti ég þess kost að fylgjast með hringborðumræðum um loftlagsbreytingar við Columbia-háskólann í New York. Þar var forsetinn fremstur meðal jafninga, vísindamanna, fulltrúa fyrirtækja og alþjóðlegs samráð um loftlagsbreytingar. Íslendingar voru hlutfallslega all fjömennir á þessum fundi og þar kom glöggt fram að við höfum ýmislegt fram að færa, enda eigum við mikið í húfi að fá stærri þjóðirnar til samráð og samstarfs og til að standa sig betur í að draga úr skaðlegri mengum andrúmsloftsins.

Forsetinn víkur réttilega að mikilvægi Kína í þessum efnum. Því er spáð að verði ekki veruleg breyting á stefnu og orkunotkun þar, muni Kínverjar losa mest allra út í andrúmsloftið innan tiltölulega fárra ára. Verkefni eins og það sem unnið er að í Xian Yang er þannig ekki bara útrás og viðskipti, heldur líka framlag okkar til að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið. Til lengri tíma litið kann það að skipta okkur meira máli en efnahagslegur ávinningur.

Framtíðarsýn forseta Íslands myndar hér gott mótvægi við þá (ósögðu) framtíðarsýn sem virðist vera hjá núverandi stjórnvöldum að gera Ísland að miðstöð álframleiðslu í heiminum. Vonandi verður sú umhverfisvakning sem við urðum vitni að á Íslandi á síðasta ári meðal almennings, sem forsetinn legst nú einarðlega á sveif með, til þess að stjórnvöld á landsvísu og heima í héraði, hugsi sig þrisvar um áður en landið verður álvætt frekar.


mbl.is Forseti Íslands segir mikilvægt að stytta langan vinnudag og bæta aðstöðu foreldra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.