Færsluflokkur: Tónlist

Jólasöngur Bagglúts kominn út.

Þeir hafa haft þennan sið drengirnir í Baggalút að hressa okkur upp með lagi um jólin. Endilega hlustið á Jólalagið 2008 - og ekki gleyma textanum sem ég afrita hér því þetta eru mikil skáld:

ÞAÐ KOMA VONANDI JÓL

Allflestar útgönguspár
eru á eina lund;
þetta var skelfilegt ár.
Hér út við heimskautsins baug
hnípin þjóð – þráðbeint á höfuðið flaug.

Allt þetta útrásarpakk
át á sig gat
svo loftbólan sprakk.
Nú eru lífskjörin skert, mannorðið svert,
Hvað hafið þið gert?

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við skellum könnu upp á stól
og Sollu í kjól.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir verðbólguskot
– þjóðargjaldþrot.

Við áttum íbúð og bens
og orlofshús.
Allt meikaði sens.
Góðgerðir gáfum og blóð
greiddum í – dulítinn séreignasjóð.

En nú er allt þetta breytt og eftir er
nákvæmlega ekki neitt.
Já nú er útlitið dökkt
ljósið er slökkt
og við erum fökkt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Þó vanti möndlu í graut
og amerískt skraut.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir háðung og smán
– myntkörfulán.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat
af innlendan mat.
Og þrátt fyrir allt
misnotum sykur og salt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við krössum afmælið hans
– heimslausnarans.
Því að þrátt fyrir allt
drekkum við mysu í malt.


Beauty need only be a whisper

Katie MeluaÞað kom loksins að einhverju félagslífi öðru en fyrirlestrasókn. Fór á tónleika með Katie Melua sem var afar skemmtilegt hér í Brighton Centre ásamt 2-3000 öðrum gestum. Þetta voru síðustu tónleikarnir hennar í tónleikaröð sem hefur staðið yfir frá því í mars og nær yfir þær þrjár plötur sem hún hefur gert í samstarfi við Mike Batt, sem er á aldri við mig en hún var ekki nema 18 þegar þau byrjuðu að vinna saman. En nú er þetta líka orðið gott, segir hún í sýningarskránni og hún ætlar að halda áfram ein og finna sinn tón.

Tónleikarnir komu mér á óvart. Ég hef spilað tvær af þessum þremur plötum mikið og átti því von á henni eiginlega bara með kassagítarinn. Þannig byrjaði hún líka og tók tvö lög ein og óstudd og skellti sér svo á bak við píanóið og tók rólegt lag á georgísku.

En þá breyttust tónleikarnir og sex manna band birtist á tjöldum sem síðan var lyft upp og úr varð mjög skemmtilega útfærð sýning; á hálf gegnsæu tjaldi með sum lögin myndskreytt og lýsingu sem var frábær.

Katie Melua á sviði

Katie Melua; Thank you StarsAðalmálið var auðvitað Katie. Ég hef aldrei heyrt svona mikla rödd í svona lítilli konu. Hún er örugglega minni en Brynhildur Guðjónsdóttir sem söng Edith Piaf hér um árið. En röddin, frá lægsta hvísli og upp í feikilegan kraft sem maður skynjar miklu betur á tónleikum en þegar maður hlustar á plötur. Sem sagt bara gaman, eins og Emblan segir, sem ég hefði auðvitað gjarnan vilja hafa með mér í kvöld. Hún tók þrjú aukalög, enda vel fagnað; Eitt sem kemur út á 'single' á næstunni og eitt sem ég hef ekki heyrt og minnti mig mikið á Janis Joplin og þar sem ég hef ekki hundsvit á tónlist - þá ætla ég að spá því að hún muni finna sig í einhverstaðar þeirri áttinni - rokkaðri en samt aldrei fjarri kassagítarnum.

Fyrir lokalagið hvarf bandið á braut og Katie stóð ein á sviðinu með gítarinn; ég verð að viðurkenna að þannig finnst mér hún áhrifaríkust. Hún tók lagið I Cried for You, sem endar á orðunum: "Beauty need only be a whisper" Það var einhverveginn alveg fullkomið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband