Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Næst síðasti dagur ársins 2008

Á næst síðasta degi ársins sest ég stundum niður og lít yfir farinn veg. Maður er gjarnan of upptekinn á sjálfan gamlársdag til þess. Þetta er jafnframt svona afmælisfærsla, því ég bloggaði fyrst þennan dag fyrir tveimur árum. Hér kemur matið á árinu 2008 og fyrst er það sem mestu skiptir börnin sjálf.

Sá elsti, Unnar Steinn, plummar sig vel í starfi hjá CCP. Hann er núna búinn að vera þar í tvö ár og er ánægður með starfið og ber þar ábyrgð á gagnagrunni leiksins sem afkoma fyrirtækisins hvílir á - svo við höfum ekki miklar áhyggjur af því að hann haldi ekki vinnunni. Sá næst elsti, þótt litlu muni, Hjörtur, heldur sínu striki í náminu og stefnir á að ljúka prófi í nútímafræðum frá Háskólanum á Akureyri næsta vor. Hann er í góðum málum og búinn að dvelja síðan síðla sumars í Mexíkó og taka þar eina önn við fínan tækniháskóla sem metin er að fullu sem hluti af náminu fyrir norðan. Hann eyðir áramótunum með kærustunni í Suður Ameríku svo það væsir ekki um hann.

Elsta dóttirin hún Embla lifir viðburðarríku lífi sem aldrei fyrr. Það voru henni vonbrigði að komast ekki á Ólympíuleikana í Peking í sumar - en það var ekki við hana að sakast; hún gerði sitt besta og er efst á heimslistanum í eini grein og í top tíu í tveimur öðrum. Málið er bara að það eru svo fáar konur sem keppa í þessum fötlunarflokk að það var ekki blásið til keppni nema í einni grein - sem vill svo til að er hennar lakasta. En í stað þess að láta þetta á sig fá hefur hún snúið sér að öðrum áhugamálum og flutti á árinu fyrirlestra við helstu háskóla landsins um þá áskorun sem fötlun er og einnig um kynjafræði og fötlun. Það má eiginlega segja að hún sé orðin fastur fyrirlesara bæði fyrir norðan og við Háskóla Íslands. Ekki slæmt hjá 18 ára stelpu sem enn er í framhaldsskóla.

Þau yngstu tvö eru líka á góðu róli á sinni þroskagöngu. Ásdís Sól þroskast hratt og gekk bara vel á sínum fyrstu samræmdu prófum og stóð sig frábærlega í íslensku. Hún les, hannar, teiknar og skapar alla daga og dreymir nú um að verða í senn fræg leikkona og rithöfundur. Sá yngsti Óðinn-sen er hins vegar ákveðinn í því að verða vísindamaður og fer ekkert í grafgötur með það að stæðrfræði og þess háttar sé nú lítið mál fyrir hann. Hann var valinn í skólalið Ísaksskóla í skák og keppti á sínu fyrsta skákmóti á árinu og fékk líka gula beltið í karate undir lok ársins. Ekki slæmt hjá 7 ára gutta.

Öll eru því börnin upptekin hvert á sinn heilbrigða hátt og öll í góðum málum. Er það mikil gæfa fyrir okkur foreldrana sem að þeim stöndum. Eftir því þarf maður að muna þegar vonbrigði og reiði ríkja innra vegna ástandsins í þjóðlífinu og með frammistöðu stjórnmálamanna sem maður trúði á. Börnin hafa svo sannarlega ekki brugðist, heldur þvert á móti eru gleðigjafar sem við erum stolt af.

Af okkur sjálfum segir kannski mest af vinnu - enda er það nú svo með fólk á miðjum aldri með börn á öllum aldri og í krefjandi störum að þetta er tvennt er svotil allt lífið. Huldan heldur áfram á góðu róli sem framkvæmdastjóri hjá Starfsmennt, sem hélt áfram að vaxa og dafna undir hennar stjórn. Hjá henni ber líklega hæst á þeim vettvangi að hafa fengið Starfsmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir ávallt. Árið gekk líka vel hjá Rannsóknaþjónustunni og þeim verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Svo vel að allt var í stakasta lagi þegar ég kom til baka úr 10 vikna námsleyfi til Bretlands. Ég get lítið kredit tekið fyrir það annað en að hafa valið gott fólk með mér og verið heppinn í starfsmannahaldi.

Persónulega stendur námsleyfið uppúr fyrir margra hluta sakir. Það voru mikil forréttindi að fá að kúpla sig út úr daglegu lífi að mestu í 10 vikur og lifa lífi námsmanns og geta einbeitt sér að því að læra það sem mig skorti uppá fræðilegan grunn. Um leið voru þetta harla óvenjulegir tímar til að vera fjarri fjölskyldu og starfi svo lengi - en þó ekki svo fjarri með alla miðla aðgengilega á neti og netsíma sem kostar lítið sem ekkert og hefur gerbreytt öllum samskiptum milli landa. Ég hef ekki í annan tíma legið svona mikið á netinu! Það gat líka verið óþægileg reynsla að vera íslendingur í Bretlandi - eins og þegar aðstoðarrektor Sussex háskóla kom sérstaklega til mín því hann vissi þjóðerni mitt frá fyrri fundi okkar til að segja mér að háskólinn ætti 3,5 milljónir punda inná Icesave reikningi. Hvað gat maður annað gert en orðið óskaup vandræðalegur og reynt að tafsa einhverjar afsakanir.

Þrátt fyrir þessar annarlegu aðstæður þá gekk námið samkvæmt áætlun og nú í árslok er ég búinn að halda þá áætlun sem ég gerði fyrir tveimur árum þegar ég var samþykktur sem doktorsnemi við Háskóla Íslands. Nú er ég búinn að ljúka öllum formkröfum sem gerðar voru og fól m.a. í sér að ljúka 45 gömlum einingum eða einu og háflu ári í fullu námi. Fyrir utan námsleyfi í haust hef ég gert þetta samhliða fullu starfi - svo ég er sáttur. Nú er „bara" doktorsritgerðin sjálf eftir - en ég áforma að vera kominn með heildaruppkast í lok næsta árs.

En lífið er ekki eintóm vinna; við höfum líka haft tök á að fara í frí og skemmta okkur. Ber þar hæst tvær ferðir. Önnur til Danmerkur þar sem við dvöldum bæði í Kaupmannahöfn og hjá Molbúunum og líkaði það vel. Því miður gleymdist myndavélin í þeirri ferð en sú varð ekki raunin þegar við gerðum mikla og góða reisu á Vestfirðina sem skörtuðu sínu fegursta fyrir okkur. Fengum við slíka blíðu að elstu menn muna vart annað eins á Patreksfirði. Er þessu gerð skil í sérstöku myndaalbúmi hér á blogginu.

Á heildina litið var þetta gott ár fyrir mig og mína nærfjölskyldu. Vel gekk í vinnu hjá okkur sambýlingunum og börnin döfnuðu öll og þroskuðust vel. Við lentum ekki í neinum hremmingum sem orð er á gerandi við bankahrunið. Góðærið ærði okkur ekkert og fór eiginlega að mestu framhjá okkur því við keyptum hvorki hús, bíla né hjólhýsi og ekki einu sinni flatskjá og tókum fyrir vikið hvorki verðtryggð lán né í evrum. Við erum því að vona að kreppan fari jafn hljóðlaust hjá garði eins og góðærið gerði.

... ég enda á þessum jákvæðum nótum. Ég ákvað rétt fyrir jólin að haga mér eins og strúturinn um hátíðarnar og stinga höfðinu í sandinn um stund og útiloka öll þau óskaup og ósvinnu sem eru í gangi allt í kringum okkur. Það verkefni bíður næsta árs að opna almennilega augun og ákveða hvað maður getur gert í því. Þangað til 2009 gengur í garð ætla ég að njóta þess um stund að þetta var gott ár fyrir mig og mína.


Nú geta jólin komið

Þá er námsdvöl í Bretlandi lokið og fyrstu dagarnir á Íslandi voru svo snarpir að ekki var tími til að setjast niður og blogga fyrr en nú þegar allt er orðið tilbúið fyrir jólin. Nú mega þau ganga í garð velkomin sem þau eru nú alltaf.

Það var gott að koma í vinnuna aftur af því að þar hafði verið haldið vel á öllum spilum og spöðum þann tíma sem ég var í leyfi. En það var vitaskuld fjölmargt sem beið mín m.a. fundur í stjórn Rannsóknaþjónustunnar og einnig í Hugverkanefnd - sem er merkilegt fyrirbæri. Jólafundurinn með stjórn og starfsfólki var góður - en við höfum haft þann háttinn á nú nokkur síðustu ár að hittast saman og fara yfir þau markmið sem sett eru í starfsáætlun í upphafi árs og meta hvernig hefur til tekist. Árangurinn í ár er góður - þau verkefni þar sem árangur ræðst fyrst og fremst af frammistöðu okkar gengu vel, en það sem ekki tókst var oft háð ytri aðstæðum.  

Það líka gott að koma í venjulegt heimilislíf aftur eftir einveruna í Brighton og fjölskyldan tók vel á móti mér. Reyndar gerði konan sér ferð til Brighton að sækja mig og hjálpa mér með farangurinn heim - og það kom sér vel því mörg reyndust kílóin vera þegar við tékkuðum okkur inn og var þó handfarangur minn sá þyngsti sem ég hef nokkurntíma tekið með mér. En við áttum tvo góða daga saman eftir lokaprófið mitt áður en haldið var heim og nutum þess að vera í ró og næði.

Nú er allt frágengið sem nauðsynlega þarf að gera í vinnunni: áramótafærslur, tilkynningar og bréf allt farið út og á heimilinu er búið að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim flestum inn og setja upp og skreyta jólatréð - svo þetta getur ekki verið betra hvað undirbúninginn varðar. Svo ég er að hugsa um að taka mér jólafrí að mestu leyti frá blessaðri kreppunni og tjá mig ekki um fjárlagafrumvarpið og annað sem á mér brennur að sinni. Ég finn ekki nógu helbláan lit í litapalletu moggabloggsins til að tjá mig. Ég geri mér líka betur grein fyrir því nú þegar ég hef getað tekið púlsinn á þjóðinni með beinni hætti en hægt er í fjarlægð að það eru næstum allir ósáttir. Ég velti því fyrir mér í hvaða farveg þessi "frústrasion" fer þegar hátíðarnar eru að baki. Eitt er víst - að við munum fá að lifa áhugaverða tíma í íslenskum stjórnmálum á næstu misserum.


Hamingjuóskir til verðlaunahafa

Sendi þessum fríða hópi verðlaunahafa hjartanlegar hamingjuóskir úr fjarska. Þau eru öll vel að þessu komin., Það gera sér líklega ekki allir grein fyrir hvað felst í því að taka virkan þátt í evrópsku samstarfí með árangursríkum hætti eins og þau hafa gert. Þetta er allt fólk sem hefur staðið sig frammúrskarandi vel.

485445ANú voru einnig veitt verðlaun fyrir tilraunaverkefni. Þeir sem þau hlutu hafa verið í forystu í stórum evrópskum þróunarverkefnum og þurft að takast á við margar áskoranir til að ná að ljúka þeim, en gert það með miklum sóma og eiga þakkir skilið fyrir. Ég hefði auðvitað viljað vera þarna í dag til að samgleðjast með fólkinu en eins og myndin ber með sér var starfsfólk Landskrifstofu Menntaáætlunarinnar ekki í neinum vandræðum með glæsilega framkvæmd án mín.

Verðlaunahafarnir í dag eru ástæðan fyrir því að vel hefur gengið með þátttöku Íslands í evrópsku samstarfi á sviði menntunar og starfsþjálfunar frá því það hófst snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessu samstarfi og bæði notið góðs af því og haft burði til að leggja margt með sér og til málanna. Það gefur tilefni til bjartsýni verði sú niðurstaðan að Ísland taka hugsanlega enn virkari þátt í evrópsku samstarfi á næstu árum.


mbl.is Starfsmenntaverðlaun Leonardó veitt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartanlega til hamingju Eyþór og Sonja

Þetta er búið að vera mikið og merkilegt ár hjá ykkur og þið stóðuð ykkur vel í Pekíng. Verst að við Emblan skyldum ekki vera þarna úti með ykkur. En þið eruð vel að þessum heiðri komin - og Eyþór: þar sem þú ert 'loksins kominn með áhuga á sundi' þá hvet ég þig eindregið til að halda áfram og stefna ótrauður á London 2012.
mbl.is Áttu hvorugt von á nafnbótinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlæti sem sannleikur

Ég var að eignast nýjan bloggvin Vefritið og þar er að finna þessa grein um BA ritgerða Björgvins G. Hafði ekki hugmynd um að Björgvin G. væri heimspekimenntaður og hefði þar að auki skrifað um réttlætiskenningar Rawls og vitnað þar með velþóknun í Þorstein Gylfason.

Fyrir margt löngu skrifaði ég grein um um réttlætiskenningu Rawls í rit tileinkað Þorsteini Gylfasyni og þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þakka Þorsteini með þessu hætti að hafa kynnt mig fyrir stjórnmálaheimspekinni. Svo nú er vert að halda réttlætiskenningu Þorsteins Gylfasonar á lofti - en í einni setningu er hún á þá leið að réttlæti er það að sannleikurinn um mann fái að koma fram, helst allur sannleikurinn. Þetta ætti bankamálaráðherrann að hafa í heiðri þessa dagana - um sjálfan sig og ekki síður um aðra sem í kringum hann eru:

Réttlæti er það að sannleikurinn um mann fái að koma fram, helst allur sannleikurinn! Þetta held ég séu einkunnarorð við hæfi á þessum tímum og sérhver sá stjórnmálamaður sem vinnur í anda þeirra er maður að meiri. Fram til þessa hefur ekki einn einasti ráðherra eða ráðamaður í viðskiptum eða stjórnsýslu haft þetta í heiðri.


Hvaða Sjálfstæðismaður er að ljúga?

Er Árni að ljúga að hann hafi ekki vitað um tilboðið? Er Björgóflur að ljúga um að það hafi verið gert tilboð? Annar hvor þessara dyggu Sjálfstæðismanna er að ljúga. Og veit Davíð svarið?

Ef það væri til svo sem eins og einn alvöru fjölmiðill á Íslandi þá lægi svarið fyrir núna, því eflaust er hægt að fá greið svör hér í Bretlandi um það. Og ef það var tilboð á borðinu, hvernig gat Árni ekki vitað um það? Ef það var sannarlega tilboð um yfirfærsluna og því var ekki sinnt - þá er borðleggjandi að þetta var dýrasta símtal Íslandssögunnar (og sá grunur læddist að manni strax þegar þetta kom fram 23. október). Sé það rétt - getur forsætisráðherrann ekki annað en krafist afsgnar Árna; ef að embættisafglöpin eru farin að hlaupa á hundurðum milljarða þá er mönnum ekki sætt í embætti.  


mbl.is Skilur að Bretar efist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur þessi fáfræði engan enda?

Uppfærsla eftir 10 fréttir RÚV: Ég stend við fyrirsögnina, því ef Björgvin fékk að vita að KPMG hefði verið ráðið fyrir tveimur mánuðum, þá átti næsta spurning hjá honum að vera; og er það í lagi? Voru þeir með einhver þau tengsl sem gætu skaðað trúverðugleika þeirra? Ef hann spurði ekki að þvi, tja þá er ég hræddur um að það sýni ekki mikinn skilning á þeim vanda sem við var og er að etja. Það er ekki skrítið að ekki hafi náðst í yfirmann KPMG á Íslandi. Þeir eru í vondum málum og vita það. Það átti bankamálaráðherrann (eða starfsfólk hans) að skynja og skilja þegar á fyrsta degi bankahrunsins. Þeir endurskoðendur sem skrifuðu án athugasemda uppá uppgjör þar sem voru eins vafasöm lán upp á tugi milljarða og í ljós hefur komið með Gamla Glitni eru í vondum málum ... og þótt fjölmiðlar geti ekki náð tali af þeim, þá er ég illa svikinn ef bankamálaráðherrann grípur líka í tómt. Hann var greinilega ekki hress í 10 fréttunum - en það erum við hin ekki heldur.

Nú er bara að sýna svolítinn myndarskap Björgvin og hreinsa almennilega til á morgun. Þar með talið að taka KPMG alveg úr umferð í allri umfjöllun og athugun á þessari bankaendaleysu. Þvert á móti væri rétt að taka Atla á orðinu og fyrirskipta rannsókn á því hvort KPMG hafi bortið verklagsreglur alþjóðlegra endurskoðenda með því að skrifa uppá FL Group og fleiri vafasöm uppgjör.  

En hér er upprunalega færslan óbreytt:

Ég veit ekki hvort er verra að hafa ekki vitað af þessu eða segja frá því - nema ef vera skyldi sú niðurstaða að nú verða endurskoðendurnir endurskoðaðir af öðrum endurskoðendum en hætta samt ekki að endurskoða það sem þeir áttu ekkert með að endurskoða til að byrja með!

Það að bankamálaráðherrann virðist ekki vita hvaða rannsóknir eru í gangi né hverjir eru að vinna þær er útaf fyrir sig tilefni til þess að hann segi af sér. Það er nefnilega á ábyrgð hans sem ráðherra að vera upplýstur og ef embættismennirnir sem vinna fyrir hann hafa ekki verið að upplýsa hann, þá á hann að láta þá fjúka. Eða ef Sjálfstæðismenn hafa komið í veg fyrir að hann fái upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu og ef það er verið að halda honum utan við atburðarásina, eins og umfangsmikil og endurtekin fáfræði hans bendir til, þá ætti hann að hafa þau pólitísku bein í nefinu að segja af sér til að mótmæla slíku. Það er miklu karlmannlegra að segja af sér við þessar aðstæður og mótmæla kröftulega en sitja áfram fávís og áhrifalaus um það sem er að gerast.


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bongóblíða í Brighton

Á sjóðskíðum á aðventunniNú dregur að lokum þessarar dvalar minnar hér í Brighton. Eftir veikindi og innveru síðustu daga brast á með bogóblíðu miðað við árstíma hér í Brighton í dag og ég fór út að hjóla og síðan í sólsetursgöngutúr niður á strönd þar sem ég settist og fékk með kaffisopa úti þótt andkalt væri. En það var ekki öllum kalt - ekki þeim sem skellti sér á sjóðskíði og ekki heldur kallinum sem skellti sér á sundskýlu í sjóinn (jú honum hlýtur nú að hafa verið svolítið kalt). Skellti inn nokkrum myndum í Brighton albúmið - því ég uppgötvaði loks leyndarmálið um tilgang hins svala svöluflugs og náði nokkrum myndum af þeim þar sem þær undirbúa sig undir svalan nætursvefninn á Vesturbryggjunni hér í Brighton.

Foyrsta Samfylkingarinnar þarf að hlusta

... þegar fylgi meðal flokksmanna í Samfylkingunni er komið niður í 52%. Könnunin er nógu stór til þess að vera mjög marktæk. Forystan verður að fara að sýna einhverja forystu en ekki þennan doða og háflkák sem verið hefur undanfarnar vikur. Ekkert gerst með uppstokkunum í Seðlabankanum, engin rannsókn komin í gang, enginn búinn að viðurkenna fyrir hönd flokksins þá ábyrgð sem hann hlýtur að bera fyrir síðusta hálft annað ár. Við erum mörg búin að kalla eftir afdráttarlausari aðgerðum. Vonandi stuðlar þessi könnun að því að einhverjir fari að hlusta og sýna hvortveggja meiri auðmýkt og meiri ákveðni.

Ég ítreka það sem ég skrifaði fyrir bráðum mánuði síðan Nú þarf pólitíska forystu Samfylkingarinnar.


mbl.is Vilja nýja stjórnmálaflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll átti að krefjast afsagnar Davíðs

Þetta er að verða alveg skelfilegt uppá að horfa hvernig Samfylkingin virðist ekki hafa nokkur bein í nefinu þegar kemur að Seðlabankastjóra. Ingibjörg Sólrún búin að segja að hún vilji að Davíð hætti, en ekkert gerist. Svo mætir kallinn á fund og neitar að segja neitt nýtt og er bara með útúrsnúninga og hótanir um að koma aftur í pólitík. Árni Páll sem formaður nefndarinn átti að krefast afsagnar hans, nú eða leggja fram tillögu í þinginu sem beint er til forsætisráðherra að skipta um bankastjórn. Samfylkingin tapar ekki á því þótt Davíð snúi aftur í pólitík sem ég sé ekki betur en þegar sé orðið - hann mun bara kljúfa Sjálfstæðisflokkinn í herðar niður.


mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.