Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Hver springur á Sprengidag?

Springur Höskuldur á limminu og lætur undan og samþykkir að hleypa málinu áfram þannig að hægt sé að skipta út yfirstjórn lamaðs Seðlabanka?

Springur Davíð Oddsson í Kastljósi í kvöld - annað hvort úr áframhaldandi yfirgengilegum hroka gagnvart þjóð sinni eða springur hann út sem hreinskilinn stjórnmálamaður og biðst einlæglega afsökunar á því að hafa leitt nýfrjálshyggjuna til hásætis í íslensku samfélagi?

Eða springur Framsóknarflokkurinn á limminu og tilkynnir að hann ætli í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og stjórnin sé því sprungin?

Ég er alveg að springa úr spenningi yfir hver springur fyrst


mbl.is Höskuldur í háskaför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó vakna þú mín Þyrnirós hjá efnahagsbrotadeildinni

Atli var afar góður í Silfri Egils og málefnalegur að vanda. Sé að bloggarar eru efnislega sammála honum þótt einhverjum þyki langt um seilst að tala um útlegðardóma. En í máli hans fellst áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu og þá sérstaklega íslenska dómskerfinu, sem Egill áttaði sig ekki nægilega vel á til að slá því upp sem meginatriðinu í því sem Atli var að segja. Afhverju er ekki búið að hefja rannsókn á a.m.k. þeim fjórum málum sem Atli nefndi? Það getur vart verið önnur skýring á því en sú að embætti ríkissaksóknara sé beinlínis og að beinum eða óbeinum fyrirmælum stjórnvalda að koma sér hjá því að taka upp rannsókn á málum sem blasa við öllum að þurfi rannsókna við - þ.e. öðrum en þeim sem þar eru í forsvari. Við verðum bara að treysta því að nýr dómsmálaráðherra, sem situr m.a. í umboði Vinstri-grænna, fari nú að vekja ríkissaksóknara af þeim Þyrnirósarsvefni sem hann hefur sofið.

Ef það er rétt, að einungis eitt mál sé til rannsóknar þar, á blessaður maðurinn auðvitað að segja af sér - því öll samalögð efnahagsbrot Íslandssögunnar síðasta árþúsundið, eru sem hjóm eitt í samanburði við það sem líklegt er að gerst hafi hér síðustu átta árin. Við þessar aðstæður sem nú eru, ætti alllur mannafli ríkissaksóknara að fara í að rannsaka þá efnahagsglæpi sem framdir voru á síðustu árum og það má að skaðlausu gleyma öllu búðarhnupli og ólöglegri plönturæktun á meðan. Jafnframt ættu skattayfirvöld að geyma allar rannsóknir og allt vsk eftirlit með smáreikningum lítilla rekstraraðila og einhenda sér í að rannsaka skattsvik og umsboðssvik af ýmsu tagi sem líklegt er að hafi átt sér stað og skaðað þóðina meira en öll samanlögð skattasvik frá því landið byggðist - og er þá mikið sagt, því til byggðar var hér upphaflega stofnað af skattsvikurum sem vildu ekki gjalda skatt í Noregi. Það heitir að forgangsraða og er verkefni sem allir stjórnendur, bæði hjá fyrirtækjum og hinu opinbera, þurfa að gera; og í glæpum þá hlýtur forgangsröðunin að vera sú að fyrst beri að rannsaka hina stærri glæpi og alvarlegri og skal þá miðað við þann skaða sem af þeim hlaust. Ef mannskapur og fjárveitingar duga ekki til að komast fyrir að rannsaka allt, þá þarf að forgangsraða, rétt eins og nauðsynlegt mun reynast í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv.


mbl.is Útrásarvíkingana á válista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vinstristjórn boðin velkomin

Ég óska nýrri vinstristjórn velfarnaðar og gæfu til góðra verka á þeim skamma tíma sem hún hefur til starfa. Forsætisráðherrann og utanþingsráðherrarnir báðir komu vel fyrir í Kastljósinu í gærkvöldi og þetta verður líklega starfsstjórn í þeim skilningi að menn einbeita sér að margvíslegum verkefnum og störfum en verða lítið með yfirlýsingar. Ég sé að Jóhann tekur ráðuneyisstjórann með sér úr félagsmálaráðuneytinu, sem bendir til þess að hún ætli virkilega að taka til hendinni - enda fer það orð af henni að hún sé hamhleypa til verka.

Það verður gengið hratt fram en af yfirvegum - eins og sjá má af því að Jóhann byrjar á því að senda bankastjórnum Seðlabankans bréf og bjóða þeim að rýma sæti sín í góðri sátt. Eins og ég var búinn að benda á hér á blogginu tel ég að forsendur séu til að víkja a.m.k. Davíð strax úr embætti og kannski verður látið á það reyna ef hann þverskallast við að segja af sér.

Þetta er svona síðbúnar kveðjur til nýrrar ríkisstjórnar, því það fór fyrir mér eins og kannski fleirum, að þegar loksins var í augsýn ný ríkisstjórn, þá varpaði maður öndinni léttar og snéri sér að húsverkum og löngu tímabæru viðhaldi um helgina og tók bloggfrí í nokkra daga.


mbl.is Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband