Færsluflokkur: Stjórnlagaþing

Af kjörsókn og kosningafyrirkomulagi

Kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunum er vonbrigði, hvernig sem á það er litið. En hún þarf ekki að koma mjög mikið á óvart - kynningin og umræða var lítil og fyrirkomulagið hentaði ekki vel. Ég hef ekki viljað gagnrýna fyrirkomulagið fyrr en nú þegar kosningum er lokið og gott að gera það einnig áður en niðurstaðan liggur fyrir. Ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á kjósendur og mögulega kjörsókn og gagnrýni mín nú endurspeglar ekki neitt um útkomu mína í þessum kosningum.

Í fyrsta lagi þá var farið mjög seint af stað með kynninguna af hálfu stjórnvalda og stjórnlaganefndar. Ekki virðist hafa verið unnin neinskonar kynningaráætlun og nefndin hafi ekki gengið frá samstarfi við neina fjölmiðla eða séð fyrir sér hvernig kynningin myndi fara fram. Stóru fjölmiðlarnir brugðust og einn þeirra, Morgunblaðið, lagði sig í líma við að hunsa kosningarnar og hæddist óspart af þeim enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vildi veg þessa þings sem minnstan.

Í öðru lagi stafa kynningarvandræðin að hluta til af þeim mikla fjölda frambjóðenda sem gaf kost á sér og jók mjög á flækjustig kosninganna. En fjöldinn þarf heldur ekki að koma á óvart, því þau regin mistök voru gerð að hafa fjölda meðmælenda aðeins 30 fyrir hvern frambjóðenda. Með því að færa hann upp í þótt ekki væri nema 100 meðmælendur, hefði fjöldi frambjóðenda líklega verið talsvert minni, því þá hefði fólk þurft að fá fleiri en nánustu fjölskyldu og vini til að mæla með sér.

Í þriðja lagi þá var verið að kynna til sögunnar nýtt kosningafyrirkomulag sem hentar engan vegin fyrir kosningar af þessu tagi. Það hvarlar að manni sú samsæriskenningarhugun að þetta hafi verið gert til að rústa öllum hugmyndum um bæði persónukjör og það að gera landið allt að einu kjördæmi. Nú geta menn bent á reynsluna af þessum kosningum og sagt: hvernig haldið þið að það verði ef landið verður eitt kjördæmi og við eigum að kjósa 63 þingmenn af 5 flokka listum sem hver um sig væri með 126 frambjóðendur - svo ekki sé nú talað um ef menn gætu boðið sig fram sem einstaklingar. Það mun engum hugnast að endurtaka þennan leik.

Margir kjósendur tóku þessum kosningum eins og þeir væru að velja hóp á stjórnlagaþing og nýttu sér allar 25 línurnar á kjörseðlinum. Reynsla mín af samtölum við umtalsverðan fjölda kjósenda síðustu sólarhringana fyrir kosningar var sú að menn voru að kynna sér frambjóðendur og setja saman lista - ekki að velja bara þá einstaklinga sem þeim leist best á, heldur hóp af fólki til að takast á við ákveðið verkefni. Margir gættu að kynjahlufalli, bakgrunni í menntun og reynslu, jafnvel aldursdreifingu - öllum þeim þáttum sem ábyrgur kjósandi sem er að velja hóp á að gera, en þá og því aðeins að hann sé að velja hóp. Ég held að það hafi verið mikil mistök að hafa þetta ekki hefðbundið fyrirkomulag þar sem kjósendur völdu sér 25 fulltrúa og þeir 25-31 einstaklingur sem flest fengu atkvæðin kæmust inn. Ég hef nefnilega fulla trú á að flest fólk geti myndað sér skynsamlegar skoðanir og taki þátt í kosningum af fullri ábyrgð. Til þess þarf upplýsingar, tíma til umræðu og umhverfi sem hvetur til þátttöku í ferlinu öllu. Allt af því vantaði og þess vegna má vel líta svo á að 37% kosningaþátttaka sé bara vel við unandi. Enda ekki annað að gera en láta lýðræðið hafa sinn gang og nú stjórnlagaþingið glíma við nýja stjórnarskrá.

Að lokum um umboðið: 83.576 kusu sem þýðir að sætistalan svonefnda er 3.215 atkvæði. Þeir sem ná fjölda atkvæða eru öruggir inn. Til að setja það í samhengi, þá er áttundi þingmaður í Norðvesturkjördæmi með 2.703 atkvæði á bak við sig - eða talsvert færri en þeir sem flest atkvæðin fá til stjórnlagaþings. Þeir þingmenn hafa ekki litið á sig sem umboðslausa og geta því ekki heldur litið á stjórnlagaþingið öðrum augum.


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið líf í kosningar utan kjörfundar

Gott mál að kosning utan kjörfundar sé loks farin að taka við sér. Megin áhyggjur margra frambjóðenda eru að kosningaþátttaka verði léleg og það dragi úr trúverðuleika og áhrifum stjórnlagaþingins. Ég vona samt að sem flestir taki þátt og hvet alla til að kjósa - ekki síður þá sem finnst þetta ekki bráðnauðsynlegt: kosningarnar eru staðreynd og því best að standa eins vel að þeim og hægt er - og velja ábyrgt fólk á þingið sem getur komist að einni sameiginlegri niðurstöðu sem sátt verður um meðal þjóðarinnar.

Nota tækifærið og bendi á agusthjortur.is  - heimasíða frambjóðanda 5867


mbl.is Um 5.500 kosið utan kjörfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég styð afdráttarlaust náttúruverndarákvæði í nýrri stjórnarskrá

Félag umhverfisfræðinga hefur sent eftirfarandi spurningu til frambjóðenda til stjórnlagaþings: „Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings?“

Svar mitt er stutt og fylgir hér:

„Ég styð það mjög afdráttarlaust að í stjórnarskránni verði sérstakur náttúrubálkur þar sem verði að finna ákvæði sem:

  • tryggja eignarrétt þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum (og að þessu sé ekki hægt að breyta með lögum)
  • koma í veg fyrir framsal á hagnýtingarrétti
  • setja upp auðlindasjóð sem verður skilgreindur sem eign komandi kynslóða og nýttur til að byggja upp land og náttúru þeim til hagsbóta
  • setji nýtingu náttúruauðlinda ramma sem tryggir sjálfbæra nýtingu sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða til sömu náttúrugæða og við njótum.“

RÚV breytir stefnu og stendur sig í stykkinu

Það er ánægjulegt að geta hrósað Ríkisútvarpinu - útvarpi allra landsmanna (eftir að hafa kvartað yfir því áður hér í boggi) fyrir að hafa breytt um stefnu og ákveða að gera það sem stofnun ein og RÚV getur ein gert - taka viðtöl við 500 manns!

Var sjálfur í viðtali í morgun og þetta var hin ánægjulegasta reynsla. Var í fimm manna holli þar sem við áttum fátt sameiginlegt nema að vera frambjóðendur og nöfnin okkar byrjuðu á Á. Frekar fyndið.

Þetta verða líklega um tveir sólarhringar af útvarpsefni, en ég er að vona að það myndist svolítil stemming í kringum þetta, kannski ekki ósvipuð og þegar jólakveðjurnar eru lesnar á Gömlu Gufunni og allir komast í hátíðarskap. Það má kannski segja að við séum að fara halda jólahátíð til heiðurs lýðræðinu þann 27. nóvember.

Hvet alla lesendur til að taka þátt í kosningunum - og auðvitað vona ég að sem flestir setji 5867 í 1. sætið.


mbl.is Frambjóðendur kynna sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV er ekki að skilja samfélagslegt hlutverk sitt

Frambjóðendur til stjórnlagaþings hafa margir látið í ljós megna óánægju með að RÚV ákvað að vera ekki með neinar kynningar. Ég tók undir það að setti nafnið mitt á mótmælendalista.

Vonandi hrista þessi mótmæli og fyrirspurnin á Alþingi upp í stofnuninni sem er núna rekin svolítið eins og einkahlutafélag - maður er bara ekki klár á hverjir telja sig vera meiri eigendur en við almenningur.


mbl.is Vill upplýsingar um kynningu RÚV á frambjóðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugra þing og faglegra framkvæmdavald

Stjórnlagaþingi er ætlað samkvæmt lögum um það að fjalla um 8 tilgreind atriði. Hér er það sem mér virðist mikilvægast varðandi skipan löggjafarvaldsins og framkvæmdavalds og valdmörk þeirra.

Meginatriðin eru tvö að mínu mati: Annars vegar þarf að styrkja lýðræðið með því að efla Alþingi miðað við það fyrirkomulag sem hefur þróast á síðustu tveimur áratugum. Það grundvallast á þeirri skoðun minni að Ísland eigi að vera þingræðisríki, þar sem þingið í umboði þjóðarinnar hefur æðsta valdið í samfélaginu. Í því felst bæði að Alþingi á að hafa óskorað löggjafarvald og fjalla sjálfstætt um lagatillögur og sinna eftirliti með framkvæmda- og dómsvaldinu.

Í reynd hefur þingið of oft verið afgreiðslustofnun fyrir frumvörp sem koma frá framkvæmdavaldinu – en mikill meirihluti þeirra frumvarpa sem verða að lögum eru ráðherrafrumvörp og aðkoma þingsins er takmörkuð. Efla þarf þingið hér og sérstaklega hlut þingnefndanna í faglegri yfirferð yfir lagafrumvörp og getu þingmanna til að vinna eigin frumvörp.

Hinn anginn í því að efla þingið er lýtur að eftirlitshlutverki þess með framkvæmdavaldinu. Það er til staðar í dag í gegnum Ríkisendurskoðun og Umboðsmann Alþingis og hafa báðar þessir aðilar veitt framkvæmdavaldinu mikilvægt aðhald. En betur má ef duga skal. Sú hugmynd að styrkja sjálfstæði þingnefnda þannig að þær geti kvatt ráðherra og aðra embættismenn á sinn fund þar þingnefndirnar hafi vald til að knýja fram svör er góð hugmynd sem þarf að útfæra í nýrri stjórnarskrá.

Til að tryggja að þingið sé fært um að starfa á öflugi þátt en nú er ætti samhliða að grípa til þriggja ráða:
• Fækka á þingmönnum um að minnsta kosti þriðjung
• Ráðherrar eiga ekki að eiga sæti á þingi
• Efla þarf stuðning við þingmenn þannig að þeir njóti fullnægjandi sérfræðiaðstoðar

Hitt meginatriðið er að tryggja að framkvæmdavaldið vinni sem ein heild með því að auka sameiginlega ábyrgð ríkisstjórna og draga úr ráðherraræði. Til þess þarf að breyta stjórnarskránni því í dag fara ráðherrar einir með allt vald til ákvarðana og því er ekki í reynd um neinar sameiginlegar ákvarðanir ríkisstjórna að ræða þótt oft sé komist svo að orði um pólitískt samkomulag sem næst við ríkisstjórnarborðið. Nokkrar leiðir eru færar hér sem stjórnlagaþing þarf að taka afstöðu til. Einn liður í því er að efla formleg völd forsætisráðherra þannig að hann geti í reynd verkstýrt ríkisstjórninni og komið i veg fyrir að einstakir ráðherrar séu að taka ákvarðanir sem jafnvel stangast á. Íhuga þarf hvort ekki sé rétt að breyta fyrirkomulaginu þannig að einstakir ráðherrar geti ekki einir og án samþykkis tekið bindandi ákvarðanir – heldur þurfi samþykki t.d forsætisráðherra eða jafnvel embættismanna til að þær öðlist gildi. Stjórnlagaþing þarf að ræða þá mögulegar fyrirmyndir um hvernig er hægt að breyta hlutunum, því eitt af því sem kom skýrt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis er að fyrirkomulagi ráðherraeinræðis verður að breyta.

Til viðbótar við breytingar á ráðherraræði þarf að efla fagmennsku í stjórnsýslu og skýra betur boðvald og tengsl stjórnmálamanna og embættismanna. Fagmennska verður ekki tryggð í stjórnarskrá heldur bara í framkvæmd, en með því að setja ákvæði í stjórnarskrá um að við ráðingar í opinberar stöður skuli eingöngu horft til faglegra sjónarmiða er hægt að setja skorður við pólitískum ráðningum því þá er hægt að kæra ráðningar til dómstóls sem getur úrskurðað þær ógildar ef faglegum sjónarmiðum hefur ekki verið framfylgt. Jafnframt þarf að styrkja stöðu embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum og leggja þeim ríkari upplýsinga- og frumkvæðisskylur á herðar.


Verk að vinna í kynningarmálum

Jákvæðu fréttirnar eru þær að meira en helmingur kjósenda er þegar búinn að ákveða að kjósa og aðeins 11% er ákveðnir í að kjósa ekki. Það er því talsvert verk fyrir höndum hjá frambjóðendum og yfirvöldum í kynningarmálum næstu tvær vikurnar.

Í fyrsta lagi þurfa allir að leggjast á eitt með að fá sem flesta af þeim sem eru óákveðnir að mæta á kjörstað; trúverðugleiki stjórnlagaþings verður því meiri sem kosningaþátttakan er meiri. 70-75% þátttaka í svona kosningu væri mjög góð.

Í öðru lagi þurfum við frambjóðendurnir að kynna okkur ... svo ég bendi á agusthjortur.is ... og leggja ríkt að fólki að velja sem flesta frambjóðendur þannig að atkvæði þeirra nýtist örugglega.


mbl.is Rúmur helmingur ætlar að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur þjóðfundur gefur góðan tón fyrir stjórnlagaþing

Glæsilegur þjóðfundur gaf jákvæðan og góðan tón fyrir vinnu fyrir störf stjórnlagaþings. Nokkur grunngildi eru skýr og þau á stjórnlagaþing skilyrðislaust að hafa að leiðarljósi - en það er síðan verkefni þingsins að fjalla um hvernig er best að tryggja að þau séu skýr í stjórnaskrá og verði í heiðri höfð í allri stjórnskipun landsins. Það er flókið verkefni en þjóðfundurinn setur ramma sem auðveldar það.

Eitt meginatriði er vert að benda strax á sem er að niðurstöðurnar gefa ótvírætt til kynna að skynsamlegast sé að semja nýja sjórnarskrá frá grunni í stað þess að reyna að breyta og beturumbæta þá gömlu. Núgildandi stjórnarskrá er ekki skipulögð eða skrifuð þannig að hægt sé að kynna hana og kenna í öllum grunnskólum og gera þannig að grunnlögum sem öll þjóðin þekkir og virðir - en það á að vera markmiðið með nýrri stjórnarskrá.


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5867

Þegar margir eru kallaðir en fáir útvaldir dugar ekkert annað en tilviljanakennt númer - mitt er 5867 og ég vona að sem flestir nái þessu óræða tákni og setji það ofarlega í kosningunum 27. nóvember:

Listinn kallar á nýtt slagorð: Kjósum Ágúst Hjört í Nóvúmer 5867!


mbl.is Nafnalisti frambjóðenda birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefur vegna framboðs til stjórnlagaþings opinn

Ég býð öllum lesendum á blogginu að kíkja í heimsókn á vefsíðu vegna framboðs míns til stjórnlagaþings:  http://agusthjortur.is

Vonast eftir ábendingum og athugasemdum um helstu umræðuefni þingsins.

Kjósum Ágúst í nóvember!

(þakka Guðmundi frænda mínum fyrir þetta slagorð kynningarátaksins : - )


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband