Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Enn ein rós í hnappagat CCP
Miðvikudagur, 19. janúar 2011
Ég teysti því að einhver starfsmaður CCP hafi það verkefni með höndum að skrá þær viðurkenningar og verðlaun sem EVE Online leikurinn og fyrirtækið hafa fengið ... því ég er búinn að missa tölu á þeim þótt ég fylgist af athygli með fréttaflutningi af þessu skemmtilega fyrirtæki. En þótt fréttir eins og þessi fari bráðum að verða hversdagslegar þá eru þær síður en svo sjálfsagðar því samkeppnin á þessum markaði er mjög hörð. Merkilegt einnig að spilarar hafi valið leikinn sem frumlegasta leikinn - þótt hann sé búinn að vera í gangi í nokkur ár. Það sýnir vel sérstöðu leiksins, þar sem sífellt er verið að kynna til sögunnar nýjungjar og þróa leikinn áfram um leið og byggt er á þeim grunni að það eru í raun spilararnir sjálfir sem ráða ferðinni.
Svo það er full ástæða til að óska CCP til hamingju með þessa tilnefningu og minna á hversu mikil Íslandskynning felst í leiknum þar sem allir nota ISK í sínum viðskiptum og koma síðan stormandi til Íslands í hundraðavís á hverju ári. Það hefur jákvæð áhrif á hina raunverulegu krónu.
EVE Online frumlegasti leikur ársins 2010 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af þessum heimi og öðrum
Sunnudagur, 18. janúar 2009
Þannig er mál með vexti að CCP fyrirtækið sem skapaði sýndarheiminn EVE, ákvað fyrir hart nær ári að boða til lýðræðislegra kosninga í leiknum, þar sem leikmenn gátu valið sér 9 manna fulltrúaráð, sem heitir því hógværa nafni Council of Stellar Management" og er alltaf kallað með stuttnafni sínu CSM eins og reyndar flest í þessari veröld. Kjörtímabil hvers ráðs er 6 mánuðir og hver fulltrúi getur bara gefið kost á sér til endurkjörs einu sinni. Helsta verkefni þessa fulltrúaráðs er að taka við ábendingum frá spilurum leiksins um það sem betur má fara eða bæta við leikinn til að gera hann ennþá áhugaverðari. Fulltrúaráðið ræðir þessar ábendingar sín á milli á vikulegum fjarfundum inn í EVE veröldinni og tvisvar á kjörtímabilinu hitta þeir fulltrúa fyrirtækisins; er annar fjarfundur en hinn haldinn á Íslandi.
Ég var beðinn að vera fundarstjóri í júní á síðasta ári þegar fyrsti fundurinn í raunheimum var haldinn hér á landi og svo aftur núna þegar fulltrúaráðið kom til Íslands. Sem heimspekingi fannst mér ómögulegt að segja nei við þessari bón. Það sem ég sá strax var þessi samlíking: Þetta er eins og jarðarbúum gæfist kostur á að velja níu fulltrúa til að fara og hitta guð! Hvað myndum við vilja ræða við guð og hvernig gengi 9 manna hópi að forgangsraða því sem væri tekið á dagskrá?
Þetta hefur gengið mjög vel; skipulagið er þannig að fulltrúaráðið ræðir þær tillögur sem berast og ef nógu margir í ráðinu eru því sammála, þá er það sett á dagskrá. Þegar síðan dregur að fundi með fulltrúum fyrirtækisins greiða þau atkvæði með því að forgangsraða hvert um sig þeim málum sem þau vilja taka upp og úr því verður til forgangsraðaður listi. Hver atriði fær síðan úthlutað 20 mínútum þótt reyndin sé sú að sumt er rætt lengur og annað gengur hratt fyrir sig. Á þeim þremur fundum sem haldnir hafa verið, hefur fulltrúaráðið komið með yfir 100 atriði sem ræddir hafa verið; allt frá einföldum tæknilegum ábendingum yfir í mjög umfangsmikla umræðu um hvernig orsakalögmálið virkar í þessum sýndarveruleik.
Það sem mér finnst ekki síst áhugavert er að skoða einstaklingana sem þarna veljast. Breiddin er mikil. Þannig sat ég til borðs með fjórum fulltrúum í kvöldverði og þar var mér á aðra hönd sannkristinn bandaríkjamaður á fertugsaldri, sem fór með sína borðbæn áður en hann tók til matar síns - en er víst býsna lunkinn í að skjóta niður geimskip og slunginn í viðskiptum líka. Á hina hönd sat kona á mínum aldri; hún stýrir rúmlega 100 manna fyrirtæki í EVE en er tölvuráðgjafi í raunheimum og vann eitt sinn hjá Microsoft fyrirtækinu og býr einnig í Bandaríkjunum. Hún er með meira ein 20 karaktera í gangi í leiknum - marga þeirra gerólíka sem genga ólíkum hlutverkum. Ég spurði hana hvort hún ruglaðist aldrei á hverjum og einum en svo var ekki, jafnvel þótt hún verði að gæta sína á ferðum um alheiminn því þegar hún rekst á samspilara sína þá ýmist heilsar hún þeim með virktum eða skýtur á þá allt eftir því hver hennar karaktera er á ferðinni. Á móti mér sat ung hollensk stelpa sem er að klára nám í tölvuleikjahönnun og útskrifast í vor. Hún er alger einfari leiknum og tekur ekki þátt í fyrirtækjarekstri og stórum bandalögum sem þar tíðkast - en var þrátt fyrir það endurkjörin sem fulltrúi þeirra í leiknum. Til að fullkomna breiddina við borðið var þar danskur strákur sem einnig var á síðara kjörtímabili sínu þótt hann sé rétt að verða 18 ára. Hann er mikill iðnjöfur í leiknum og kemur á framfæri sjónarmiðum þeirra sem njóta þess að stunda umfangsmikil viðskipti fremur en standa í miklum bardögum sem er helsta áhugamála annarra.
Æ já, það var fínt að fá smá hvíld frá okkar kalda veruleika og ræða um stund um hvernig orsakalögmálið virkar í sýndarveröld skiptir suma meira máli en hin raunverulega.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Uppskeruhátíð
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Við veittum Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í gær. Þetta hefur verið árviss viðburður núna í níu ár og síðustu árin hefur myndast sú góða hefð að rektor afhentir verðlaunin. Að venju voru veitt þrenn verðlaun til bestu verkefnanna og er myndin af verðlaunahöfunum ásamt rektor og formanni dómnefndar. Um þetta má allt lesa nánar á heimsíðu Rannsóknaþjónustunnar og svo var tekið við mig ítarlegt viðtal í síðdegisútvarpi Rásar tvö í gær og er hægt að hlusta á upptöku af því á netinu (er í síðari hluta þáttarins.
Þetta var annasamur en skemmtilegur dagur. Um morguninn vorum við með fund um tækniyfirfærslu þar sem kynnt var samstarfsnet háskólanna í Danmörku um þetta og norrænt samstarfsnet sem verið er að setja af stað. Við verðum að sjálfsögðu aðilar að því, ásamt helstu lykilaðilum hér á landi vona ég. Eftir hádegi var svo fundur í því sem gengur undir nafninu Evrópuhópurinn - sem er óformlegur félagsskapur þeirra sem vinna á þeim skrifstofum sem vinna með beinum eða óbein hætti að framkvæmd á evrópskri samvinnu. Þetta eru svona Evrópuskrifstofur. Hópurinn hefur ekki komið saman lengi, því á þessu ári hafa verið að ganga yfir miklar breytingar á skipulagi og í mannahaldi og því orðið tímabært að hittast. Sumir úr þeim hópi tóku síðan þátt í verðlaunaafhendingunni hjá okkur og móttökunni að henni lokinni.
Móttakan tókst vel og voru nokkrir góðir gestir sem stoppuðu lengi og þurftu margt að ræða. Eftir að móttökunni lauk átti ég síðan langt spjall við samverkamann minn til margra ára um ýmis verkefni og framtíðaráform. Og þegar ég var kominn heim síðla kvölds átti ég langt og gott samtal við góð vin minn um allt önnur viðfangsefni en dagurinn fól í sér. Það má eiginlega segja að ég hafi verið að tala og hlusta frá morgni til miðnættis. Sem sagt góður og gefandi dagur.