Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Glæsileg verðlaunaathöfn
Föstudagur, 19. nóvember 2010
Afhending Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands var vegleg að vanda. Veitt voru þrenn verðlaun á ólíkum sviðum hagnýtingar þeirrar þekkingar sem starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands fást við að afla og miðla. Lýsing á öllum verðlaunahugmyndinum er að finna í frétt á vef skólans.
Í ávarpi sínu sagði háskólarektor m.a.: "Nýsköpun eða hagnýting þekkingar verður sífellt mikilvægari þáttur í starfi háskóla. Háskóli Íslands hefur að undanförnu lagt mikið kapp á nýsköpun í starfi sínu. Leitað hefur verið skipulega að hagnýtanlegum verkefnum, m.a. í gegnum þessa samkeppni. Undanfarin ár hafa hátt í tvö hundruð verkefni verið metin sérstaklega í þessu skyni. Fjölmörg þeirra hafa getið af sér efnisleg verðmæti og fundið sér farveg í öflugum sprotafyrirtækjum." Það er ekki leiðinlegt að hafa tekið virkan þátt í þessari þróun.
Handrit.is hlýtur Hagnýtingarverðlaun HÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Líf og fjör í athafnaviku
Fimmtudagur, 18. nóvember 2010
Til hamingju með þetta bæði þeir sem hlutu verðlaun og ekki síuðr Marel sem stendur að þessari samkeppni meðal framhaldsskólanema. Þær hafa það hlutverk þessar samkeppnir að hvetja markhópana áfram til að sinna nýsköpun og svo verðlauna þá sem koma með snjallar hugmyndir.
Á morgun veitir Háskóli Íslands einmitt sín Hagnýtingarverðlaun á Nýsköpunarmessu á Háskólatorgi. Allir velkomnir þangað, bæði á kynningar og ekki síður þegar verðlaunin verða afhent.
Snilldarlausnin var pappakassi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnlagaþing
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Ég hef lengi verið áhugamaður um gagngera endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og tel að stjórnlagaþing sem skipað er fólki sem kosið er persónubundinni kosningu til þess verks sérstaklega sé best treystandi fyrir því. Þess vegna styð ég eindregið undirskriftasöfnunina Nýtt lýðveldi:
http://www.nyttlydveldi.is.
Sendum áskorun um utanþingsstjórn og stjórnlagaþing! Stöndum saman um nýtt upphaf - nýjar leikreglur - sanngjarnari leikreglur.
Hvet alla þá sem eru þessari nálgun sammála að skrá nafn sitt þarna.
Afmæli, verðlaunaveiting og fiskisúpa
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Ég gerði stutta en góða ferð til Íslands, sem gæti heitið frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Á föstudaginn héldum við upp á 20 ára afmælli Tæknigarðs og veittum einnig Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í tíunda sinn. Það var góð mæting og góð stemming, enda komu um 150 manns til okkar. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi rektor rifjaði upp það umhverfi sem var þegar hugmyndum um Tæknigarð var ýtt úr vör og við gáfum út Afmælisrit um Tæknigarð þennan dag, þar sem eru 77 örsögur af fyrirtækjum í Tæknigarði sem hann Hjörtur sonur minn vann í sumar. Er ekki enn komið á netið - en ég skelli inn hlekk þegar það verður sett þangað. Rögnvaldur Ólafsson fyrsti framkvæmdastjóri Tæknigarðs fllutti einnig tölu og í lokin sagði Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor nokkur vel valin orð við okkur öll.
Hópur verðlauna-hafa var óvenju stór eins og sést á mynd-inni, þar sem auk verðlauna-hafa og mín eru formaður dómnefndar og háskólarektor. Enda fengu sex manns fyrstu verðlaunin fyrir verkefni sem kallað er gönguhermirinn og ef vel gengur mun nýtast til gönguþjálfunar fatlaðra einstaklinga. Það voru kennarar og nemendur úr verkfærði og sjúkraþjálfun sem fengu verðlaun og ein þeirra er vinkona Emblu minnar frá því í Reykjadal og því gaman að Embla mætti í afmælið. Í öðru sæti var verkefni um skráningu gagna úr sjúkraþjálfun - sem ekki eru skráð með skipulegum hætti í dag eins og margar aðrar heilsufarsupplýsingar. Í þriðja sæti var síðan sagnfræðilegt verkefni um Spánverjavígin 1615 - sem sagt ramm vestfirskt! Sjá nánar um þetta á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar.
Á laugardeginum var síðan tími fyrir hluta af stórfjölskyldunni en þá bauð ég mömmu og heilsystrum mínum ásamt þeirra fjölskyldum í fiskisúpu. Í henni var meðal annars þorskur sem ég veiddi fyrir vestan í sumar. Næsta sumar ætla ég að reyna að elda fiski- og kræklingasúpu eins og þessa aftur, nema bara helst eingöngu úr hráefnum sem ég hef veitt og ræktað sjálfur. Maður verður að setja sér skynsamleg markmið í kreppunni.
Sunnudagurinn var síðan helgaður kjarnafjölskyldunni. Ég fór með krúttin í sund og mikið agalega var gott að komast í heitan pott þótt vindurinn af Esjunni væri ansi hreint kaldur. Svo var farið í bíó og loks borðuð pizza þannig það var sannkallað barnaprógramme. Og nú taka við síðustu þrjár vikurnar hér í Brighton sem enda með lokaprófi þann 12. desember.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Uppskeruhátíð
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Við veittum Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í gær. Þetta hefur verið árviss viðburður núna í níu ár og síðustu árin hefur myndast sú góða hefð að rektor afhentir verðlaunin. Að venju voru veitt þrenn verðlaun til bestu verkefnanna og er myndin af verðlaunahöfunum ásamt rektor og formanni dómnefndar. Um þetta má allt lesa nánar á heimsíðu Rannsóknaþjónustunnar og svo var tekið við mig ítarlegt viðtal í síðdegisútvarpi Rásar tvö í gær og er hægt að hlusta á upptöku af því á netinu (er í síðari hluta þáttarins.
Þetta var annasamur en skemmtilegur dagur. Um morguninn vorum við með fund um tækniyfirfærslu þar sem kynnt var samstarfsnet háskólanna í Danmörku um þetta og norrænt samstarfsnet sem verið er að setja af stað. Við verðum að sjálfsögðu aðilar að því, ásamt helstu lykilaðilum hér á landi vona ég. Eftir hádegi var svo fundur í því sem gengur undir nafninu Evrópuhópurinn - sem er óformlegur félagsskapur þeirra sem vinna á þeim skrifstofum sem vinna með beinum eða óbein hætti að framkvæmd á evrópskri samvinnu. Þetta eru svona Evrópuskrifstofur. Hópurinn hefur ekki komið saman lengi, því á þessu ári hafa verið að ganga yfir miklar breytingar á skipulagi og í mannahaldi og því orðið tímabært að hittast. Sumir úr þeim hópi tóku síðan þátt í verðlaunaafhendingunni hjá okkur og móttökunni að henni lokinni.
Móttakan tókst vel og voru nokkrir góðir gestir sem stoppuðu lengi og þurftu margt að ræða. Eftir að móttökunni lauk átti ég síðan langt spjall við samverkamann minn til margra ára um ýmis verkefni og framtíðaráform. Og þegar ég var kominn heim síðla kvölds átti ég langt og gott samtal við góð vin minn um allt önnur viðfangsefni en dagurinn fól í sér. Það má eiginlega segja að ég hafi verið að tala og hlusta frá morgni til miðnættis. Sem sagt góður og gefandi dagur.
Háskóli Íslands stefnir hátt
Laugardagur, 13. janúar 2007
Talsverð umfjöllun hefur orðið um samning menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands í fjölmiðum og á vefsíðum landsins. Fjallað var um menntamálin almennt í pólitíkin á Stöð 2, föstudagskvöldið 12. janúar og sérstaklega um samning Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins. Jafnframt var fjallað um möguleika skólans á að komast í fremstu röð í fréttum Stöðvar 2. Í báðum þáttum var vitnað í blogghöfund og því rétt að vekja athygli á þessum þáttum og ekki síður ítarlegra viðtali sem birtist á visir.is undir fyrirsögninni Háskólinn stefnir hátt.
Vitnað hefur verið í viðbrögð starfsmanna bæði Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík sem hafa lýst vonbriðgum með þennan samning. Þau viðbrögð eru um margt skiljanleg, en þó er vert að halda til haga að fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri stafar af því að hann fór um skeið fram úr fjárheimildum. Ég get verið sammála því að fjárveitingar til kennslu voru of litlar - bæði til Háskólans á Akureyri og til Háskóla Íslands - en sá síðarnefndi fór samt ekki framúr. Með Háskólann í Reykjavík hefur ítrekað verið á það bent að hann fái í senn sömu fjárveitingu per nemenda og ríkisháskólarnir en innheimti um leið skólagjöld.
Þessu til viðbótar má svo benda á að Háskóli Íslands hefur dregið vagninn í íslensku háskólastarfi og þeir samningar sem við hann eru gerðir um kennslu og rannsóknir hafa verið viðmið hinna háskólanna. Því er ekki ólíklegt að þessi samningur muni til lengri tíma skila sé í auknum fjárveitingum til hinna háskólanna einnig. Á síðustu árum hefur fjármagn til samkeppnissjóða verið aukið og mun sú aukning vonandi halda áfram á næstu árum. Við sem erum bjartsýn á framtíðina getum því litið svo á að framundan sé áframhaldandi uppbygging og vöxtur í ærði menntun, rannsóknum og nýsköpun - sem ég trúi að muni skipta mestu um framtíð okkar á þessari þekkingaröld.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)