Færsluflokkur: Lífstíll

Af þessum heimi og öðrum

Síðustu þrjá dagana hef ég átt þess kost í annað skiptið að stíga út úr minni venjulegu veröld og inn í raunverulegan sýndarheim EVE-online. Það er merkileg reynsla fyrir alla að kynnast þessum heimi og kannski sérsaklega fyrir fólk eins og mig sem aldrei hef komist upp á lag með að spila tölvuleiki.

Þannig er mál með vexti að CCP fyrirtækið sem skapaði sýndarheiminn EVE, ákvað fyrir hart nær ári að boða til lýðræðislegra kosninga í leiknum, þar sem leikmenn gátu valið sér 9 manna fulltrúaráð, sem heitir því hógværa nafni „Council of Stellar Management" og er alltaf kallað með stuttnafni sínu CSM eins og reyndar flest í þessari veröld. Kjörtímabil hvers ráðs er 6 mánuðir og hver fulltrúi getur bara gefið kost á sér til endurkjörs einu sinni. Helsta verkefni þessa fulltrúaráðs er að taka við ábendingum frá spilurum leiksins um það sem betur má fara eða bæta við leikinn til að gera hann ennþá áhugaverðari. Fulltrúaráðið ræðir þessar ábendingar sín á milli á vikulegum fjarfundum inn í EVE veröldinni og tvisvar á kjörtímabilinu hitta þeir fulltrúa fyrirtækisins; er annar fjarfundur en hinn haldinn á Íslandi.

Ég var beðinn að vera fundarstjóri í júní á síðasta ári þegar fyrsti fundurinn í raunheimum var haldinn hér á landi og svo aftur núna þegar fulltrúaráðið kom til Íslands. Sem heimspekingi fannst mér ómögulegt að segja nei við þessari bón. Það sem ég sá strax var þessi samlíking: Þetta er eins og jarðarbúum gæfist kostur á að velja níu fulltrúa til að fara og hitta guð! Hvað myndum við vilja ræða við guð og hvernig gengi 9 manna hópi að forgangsraða því sem væri tekið á dagskrá?

Þetta hefur gengið mjög vel; skipulagið  er þannig að fulltrúaráðið ræðir þær tillögur sem berast og ef nógu margir í ráðinu eru því sammála, þá er það sett á dagskrá. Þegar síðan dregur að fundi með fulltrúum fyrirtækisins greiða þau atkvæði með því að forgangsraða hvert um sig þeim málum sem þau vilja taka upp og úr því verður til forgangsraðaður listi. Hver atriði fær síðan úthlutað 20 mínútum þótt reyndin sé sú að sumt er rætt lengur og annað gengur hratt fyrir sig. Á þeim þremur fundum sem haldnir hafa verið, hefur fulltrúaráðið komið með yfir 100 atriði sem ræddir hafa verið; allt frá einföldum tæknilegum ábendingum yfir í mjög umfangsmikla umræðu um hvernig orsakalögmálið virkar í þessum sýndarveruleik.

Það sem mér finnst ekki síst áhugavert er að skoða einstaklingana sem þarna veljast.  Breiddin er mikil. Þannig sat ég til borðs með fjórum fulltrúum í kvöldverði og þar var mér á aðra hönd sannkristinn bandaríkjamaður á fertugsaldri, sem fór með sína borðbæn áður en hann tók til matar síns - en er víst býsna lunkinn í að skjóta niður geimskip og slunginn í viðskiptum líka. Á hina hönd sat kona á mínum aldri; hún stýrir rúmlega 100 manna fyrirtæki í EVE en er tölvuráðgjafi í raunheimum og vann eitt sinn hjá Microsoft fyrirtækinu og býr einnig í Bandaríkjunum. Hún er með meira ein 20 karaktera í gangi í leiknum - marga þeirra gerólíka sem genga ólíkum hlutverkum. Ég spurði hana hvort hún ruglaðist aldrei á hverjum og einum en svo var ekki, jafnvel þótt hún verði að gæta sína á ferðum um alheiminn því þegar hún rekst á samspilara sína þá ýmist heilsar hún þeim með virktum eða skýtur á þá allt eftir því hver hennar karaktera er á ferðinni. Á móti mér sat ung hollensk stelpa sem er að klára nám í tölvuleikjahönnun og útskrifast í vor. Hún er alger einfari leiknum og tekur ekki þátt í fyrirtækjarekstri og stórum bandalögum sem þar tíðkast - en var þrátt fyrir það endurkjörin sem fulltrúi þeirra í leiknum. Til að fullkomna breiddina við borðið var þar danskur strákur sem einnig var á síðara kjörtímabili sínu þótt hann sé rétt að verða 18 ára. Hann er mikill iðnjöfur í leiknum og kemur á framfæri sjónarmiðum þeirra sem njóta þess að stunda umfangsmikil viðskipti fremur en standa í miklum bardögum sem er helsta áhugamála annarra.

Æ já, það var fínt að fá smá hvíld frá okkar kalda veruleika og ræða um stund um hvernig orsakalögmálið virkar í sýndarveröld skiptir suma meira máli en hin raunverulega.


Svalar haustsvölur

Fleiri svalar svölurÉg sá svalar haustsvölur að leik í sólsetrinu hér undan Vesturbryggjunni - er loksins búinn að setja inn nokkrar myndir frá Brighton - en svölurnar eru svalastar; svo endilega kíkið á:

http://ahi.blog.is/album/brighton_haustid_2008/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband