Færsluflokkur: Matur og drykkur

Afmæli, verðlaunaveiting og fiskisúpa

Ég gerði stutta en góða ferð til Íslands, sem gæti heitið frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Á föstudaginn héldum við upp á 20 ára afmælli Tæknigarðs og veittum einnig Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í tíunda sinn. Það var góð mæting og góð stemming, enda komu um 150 manns til okkar. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi rektor rifjaði upp það umhverfi sem var þegar hugmyndum um Tæknigarð var ýtt úr vör og við gáfum út Afmælisrit um Tæknigarð þennan dag, þar sem eru 77 örsögur af fyrirtækjum í Tæknigarði sem hann Hjörtur sonur minn vann í sumar. Er ekki enn komið á netið - en ég skelli inn hlekk þegar það verður sett þangað. Rögnvaldur Ólafsson fyrsti framkvæmdastjóri Tæknigarðs fllutti einnig tölu og í lokin sagði Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor nokkur vel valin orð við okkur öll.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2008Hópur verðlauna-hafa var óvenju stór eins og sést á mynd-inni, þar sem auk verðlauna-hafa og mín eru formaður dómnefndar og háskólarektor. Enda fengu sex manns fyrstu verðlaunin fyrir verkefni sem kallað er gönguhermirinn og ef vel gengur mun nýtast til gönguþjálfunar fatlaðra einstaklinga. Það voru kennarar og nemendur úr verkfærði og sjúkraþjálfun sem fengu verðlaun og ein þeirra er vinkona Emblu minnar frá því í Reykjadal og því gaman að Embla mætti í afmælið. Í öðru sæti var verkefni um skráningu gagna úr sjúkraþjálfun - sem ekki eru skráð með skipulegum hætti í dag eins og margar aðrar heilsufarsupplýsingar. Í þriðja sæti var síðan sagnfræðilegt verkefni um Spánverjavígin 1615 - sem sagt ramm vestfirskt! Sjá nánar um þetta á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar.

Á laugardeginum var síðan tími fyrir hluta af stórfjölskyldunni en þá bauð ég mömmu og heilsystrum mínum ásamt þeirra fjölskyldum í fiskisúpu. Í henni var meðal annars þorskur sem ég veiddi fyrir vestan í sumar. Næsta sumar ætla ég að reyna að elda fiski- og kræklingasúpu eins og þessa aftur, nema bara helst eingöngu úr hráefnum sem ég hef veitt og ræktað sjálfur. Maður verður að setja sér skynsamleg markmið í kreppunni.

Sunnudagurinn var síðan helgaður kjarnafjölskyldunni. Ég fór með krúttin í sund og mikið agalega var gott að komast í heitan pott þótt vindurinn af Esjunni væri ansi hreint kaldur. Svo var farið í bíó og loks borðuð pizza þannig það var sannkallað barnaprógramme. Og nú taka við síðustu þrjár vikurnar hér í Brighton sem enda með lokaprófi þann 12. desember.


Morgunmatur í Ameríku

Breakfast in AmericaÞegar ég var yngri var vinsælt lag með Supertramp sem hét Breakfast in America. Mér verður stundum hugsað til þess hér í Ameríku því við njótum þess stundum að borða almennilega morgunmat. Byrjuðum reyndar á því fyrsta daginn að fara á alvöru diner og fá okkur ríflega morgunmat og eftir að við komum okkur fyrir hér í Villa Foster þá erum við dugleg að búa til allan pakkann - beikon, egg og amerískar pönnukökur með helling af hlynsýrópi. Fyrst reyndum við að baka pönnukökurnar en duttum svo í amerískan neysluheim og kaupum þær bara frosnar og hitum. Svo kaupum við líka beikon með minna salti og borðum með þessu mikið af ávöxtum - þannig að þegar öllu er á botninn hvolft, þá er þetta auðvitað bara bráðhollur matur - eða þannig.  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.