Færsluflokkur: Sjónvarp
„Við komumst út úr góskunni á þvermóðskunni og þrjóskunni / Lyftum nú skál fyrir Íslandi og öllum kostunum óteljandi“
Þriðjudagur, 4. janúar 2011
Hér kemur síðbúin nýárskveðja til vina og vandamanna og annarra lesenda að þessu bloggi sem verður virkt á nýju ári 2011 fyrir einræður mínar um ýmis áhugamál og stöku athugasemdir um dægurmál. Svo verður bætt jafn óðum í myndasafnið til að krydda þetta aðeins.
Nýárskveðja sú besta í ár finnst mér vera lokalagið og hvatingarsöngurinn í Áramótaskaupi Sjónvarpsins sem flutt var frábæralega af Ágústu a.k. Sylvíu Nótt sem er endurfædd sem mögulega skeleggur talsmaður jákvæðra breytinga.
Gleðilegt nýár
Hey hey
Haldið þið kjafti!
Finnst ykkur alveg eðlilegt
að ropa hérna og röfla
í ræðustólnum eins og af gömlum vana.
Það er ekki allt með felldu
þegar úti brennur eldur
og fyrir innan situr þingmaðurinn
algjörlega geldur.
Væri ekki skynsamlegt
að hætta að berja hver á öðrum
og hleypa lofti úr þessum
pólitísku prumpufýlublöðrum?
Á meðan skattmann, Loki og skrattarnir
skreyta börnin okkar með hlekkjum
út af skuldavanda byggðum
á gömlum reikniskekkjum.
Við viljum ekki heyra um fleiri
afskrftir á lánunum
hjá útvöldum víkinguum,
skrúðkrimmunum kjánunum.
Þessum sjúku aurapúkum með
kúkinn upp á bakinu
sem stungu síðan af og skildu
þig eftir í brakinu.
En æ því miður, enginn friður,
okkur þarf að skera niður.
Ójöfn þessi kaka, alveg svaka.
En við höfum líka hrakist fyrr á klakanum
og komið sterk til baka.
Við sofnuðum á verðinum
en í kvöld skulum við vaka.
Nýár!
Neitum því sem vert er að neita
og byrjum að breyta.
Gleðilegt nýár!
Við skulum varpa því versta
og virkja okkar besta.
Gleðilegt nýár!
Við megum ekki gleyma í þessu annarlega ástandi.
Við erum færri en íbúar einnar götu í einhverju útlandi.
Nokkur þúsund hræður eins og systur öll og bræður.
Kyndum nýtt bál og blásum lífi í gamlar glæður.
Nýtum okkur fámennið og tökum saman höndunum,
það er líka allt í fokki í fullt af hinum löndunum.
Í Portúgal, Bretlandi, Írlandi, Grikklandi
og ameríski draumurinn í dauðateygjum spriklandi.
En hér vil ég vera og beinin mín bera
hér er svo margt gott sem við verðum að gera.
Þessi vísitölukrakki er ekki vandamálapakki
Heldur kynslóðin sem ætlar sér að erfa allt heila klabbið.
Því framtíðin, hún bíður
og framtíðin býður ekki upp á sömu mistök og við gerðum,
ég held nú síður
Skrifum söguna upp á nýtt og snúum baki við bófunum.
Dönsum út á götu og gefum high-five með lófunum.
Nýár!
Kollvörpum og köstum á bálið
fyrir íslenska stálið.
Gleðilegt nýár!
Nú framtíðinni við fögnum
og faðmlögin mögnum.
Gleðilegt nýár!
Hey standið upp úr stólunum
í stífpressuðum kjólunum
hendið slæmum hugsunum
og haldið rassi í buxunum.
Í innhverfum og úthverfum,
í áramótapartýjum,
faðmið allar frænkurnar,
finnið síðan sprengjurnar
og hamrið upp í himininn
ykkar heitustu óskir.
Við komumst út úr góskunni
á þvermóðskunni og þrjóskunni
Og með samvinnu og samtöðu
og samhjálp og bara sam... hvað sem er!
Nýár!
Sérhagsmunaklíkurnar kveðjum
Og kynslóðir gleðjum.
Gleðilegt nýár!
Við skulum takast í hendur
Vinir og féndur!
Gleðilegt nýár!
Lyftum nú skál fyrir Íslandi
og öllum kostunum óteljandi
Því þrátt fyrir allt vil ég vera
Bara ævinlega hér og með ykkur, hér, hér!
Gleðilegt nýár!
Fortíðina fagnandi kveðjum
á framtíð svo veðjum
Gleðilegt nýár!
En ötla vitleysa hetta [hljóma eins og færeyska]
minnumst þá þessa
Gleðilegt nýár!
Höfundarréttur RÚV og handritshöfundar. Hægt er að horfa á Skaupið á vef RÚV: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4569077/2010/12/31/
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Ólafur !
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Þetta er kannski svolítið síðbúin afmæliskveðja til Ólafs Ólafssonar, sem hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær þannig að varla fór framhjá nokkrum landsmanni. En það eru fleiri hamingjuóskir við hæfi í tengslum við þetta:
Það er líka hægt að óska Ólafi til hamingju með dýrasta upphitunarnúmer sem flutt hefur verið til landsins. Mikið held ég þeir Bubbi og Bo hafi verið kátir með að láta Elton John hita upp fyrir sig.
Þá er ekki síður hægt að óska afmælisbarninu tilvonandi til hamingju með tilkomumikið PR klúður. Að birtast borinbrattur að morgni dags og tilkynna að maður sé að gefa milljarð til góðra mála - ah ja sko ekki að gefa allan milljarðinn, heldur bara ávöxtunina af honum, því Ólafur og frú halda fullri stjórn yfir því í hverskonar ávöxtun hann er settur í og eflaust munu þau fara með atkvæðisrétt góðgerðarsjóðsins í þeim hlutfélögum þeirra sem fjárfest verður í. Sem sagt og burtséð frá öllum fyrirvörum, það er drjúgt góðverk að morgni að gefa frá sér ávöxtun af heilum milljarði sem verður vel á annað hundrað milljónir á ári ef vel gengur. Það er ekki síður drjúgt að halda partý að kvöldi fyrir sig og sína fyrir sömu upphæð. Seinni athöfnin gerir að engu þá fyrri í augum almennings og gerir hana eiginlega verri en enga. Sem sagt meiriháttar PR klúður.
Sem leiðir mig að þriðju hamingjuóskunum - til Spaugstofunnar fyrir frábæran þátt sem við landsmenn horfðum á akkúrat á sömu stundu og melódíudrottningin söng fyrir veislugesti Ólafs. Svona veisluhöld eru í okkar þjóðfélagslega samhengi fyrst og fremst kjánaleg. Spaugstofan er oft næm á tilfinningar þjóðar sinnar og ég er alveg viss um að einhverjir veislugesta í gærkvöldi hafa fengið svolítið óbragð í munninn undir söngnum og tilgerðarlegum búningaskiptum sem sagt var frá í fréttum í kvöld. Ef þau hjónin meina eitthvað með því að styrkja afar þarfa uppbyggingu í Afríku, þá hefði fyrir þóknun gleraugnagláms verið hægt að byggja einhverja skóla til viðbótar í Afríku og kaupa glerlistaverk fyrir afganginn og senda til Eltons. Ég er næsta viss um að veislugestum hefði þótt alveg nógu flott að fá bæði Bo og Bubba.
Síðustu hamingjuóskirnar fara síðan aftur til Ólafs - fyrir að hafa pissað lengst í þessari kjánalegu pissukeppni um tilgangslausustu og mest óviðeigandi partýhöld ársins. Við skulum bara vona að Ólafur hafi komið af stað annarskonar og betri pissukeppni meðal nýríkra Íslendinga þar sem menn keppast við að gefa sem mest til góðgerðarmála og samfélagsuppbyggingar innanlands sem utan. Ef það verður niðurstaðan er þetta alveg viðundandi fórnarkostnaður.
Elton John á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Því svona viljum við hafa það!
Sunnudagur, 7. janúar 2007
Skaupið var endursýnt á þrettándanum. Það var ekki síðra við endurskoðun - og ég tek bara undir með lokalaginu þar sem hópurinn syngur: "Því svona viljum við hafa það".
Vek um leið athygli á palladómi mínum um skaupið - smellið hér - væntanlega fyrsta palladóminum af mörgum um íslenskt menningarefni!
Sjónvarp | Breytt 8.1.2007 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Palladómur um áramótaskaupið 2006
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Það er við hæfi að fyrsti palladómurinn sé um skaupið. Mér fannst það frábært. Og ólíkt öðrum bloggara sem tjáði sig um skaupið þá hlóu allir sem voru í kringum mig - rúmlega 10 manns og þar var ég næst elstur.
Það urðu kynslóðaskipti í þessu skaupi. Ný kynslóð húmorista stimplaði sig inn með eftirminnilegum hætti. Þetta er sú tegund af n.k. aulahúmor sem hefur verið áberandi hjá þeim sem hafa verið að höfða til yngra fólksins. En þarna voru á ferðinni atvinnumenn sem byggðu á ríkulegri menningarhefð kvikmynda (sbr. upphafsatriðið sem vísar í Plánetu apanna, þá klassíksu framtíðarhrollvekju, eða Baugsmyndina sem vísar í stjörnustríðið - alger snilld); teiknimynda (sbr. fyrsta söngatriðið "Velkominn til Íslands / Allir kunna að skemmta sér." sem er vísun í Who killed Kenny); auglýsinga (sbr. "Staurauglýsinguna" sem var fullnýtt og frábæran útúrsnúning eða viðsnúning á auglýsingunni "Góð hugmynd frá Íslandi"), svo ekki sé minnst á tónlistarmyndbönd (sbr. frábæra endurgerð af frægasta myndbandi Nylon).
Þessu var svo blandað saman við "hefðbundnara" grín þar sem landsliðsmenn úr Spaugstofunni léku landsfeðurnar á trúverðugan hátt þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um plagg sem enginn má sjá og gæti því allt eins verið árituð ynd af nakinni Hollywood stjörnu. Meðferð þeirra á sveitastjórnarkosningunum var líka góð því þar var blandað inn málefnum aldraðra og innflytjenda. Já það var hressandi að heyra "ekki-íslensku" talaða í skaupinu og sjá fordómafulla fjölmiðlamenn sem vilja ekki tala við nema alvöru Íslendinga. Og það má gera grín að fötluðum. Engin vé eru svo heilög að þau eigi ekki heima í skaupinu - ekki Gísli á Uppsölum og ekki Sigurrós, en túlkun Jóns Gnarr á söngvara Sigurrósar var tær snilld.
Í stuttu máli var hér á ferðinni hópur fagmanna sem þekkir sína menningu og kom gríninu vel til skila. Svo miklir fagmenn voru þetta að þeir slógu vopnin úr höndum gagnrýnenda með innkomu útvarpsstjóra: "Góðir áhorfendur. Skaupið er sniðið að þörfum þeirra sem hafa beittan, en þó mjög vandaðan húmor." Ég tek því undir með Páli í því atriði: "Þetta er frábært skaup."
Sem sagt fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og fyrir þá sem misstu af því, er hægt að horfa á það á vef RUV: Áramótaskaupið 2006.
Sjónvarp | Breytt 16.10.2010 kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)