Matarverð er málið - kannski kosningamálið ?
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Það er aldeilis að lítil frétt á mbl.is sem var ættuð frá dönsku Hagstofunni hefur undið uppá sig. Morgunblaðið skrifar leiðara um málið í dag og helstu stjórnmálaleiðtogar eru spurðir álits. Hagstofa Íslands hefur svarað kalli mínu og veitir greinargóðar upplýsingar í Morgunblaðinu í dag - auðvitað á stofnunin að vera virk í svona umræðu.
Morgunblaðið er á því að matarverðið eigi að vera kosningamál í ár og bendir kjósendum á að nú líði senn að því að þeir fái tækifæri til "að minna stjórmálamenn á að neytendur, skattgreiðendur og kjósendur eru sama fólkið." hummm hvern á ég þá að kjósa spyr maður kannski sjálfan sig, og Mogginn er hjálpsamur að vanda og ræðir við stjórnmálaleiðtogana.
Byrjum á framsóknarmönnunum tveimur: "Þarna er um hlutfallslegan samanburð á algerlega ósambærilegum löndum að ræða" segir formaður Framsóknarflokksins, sem getur ekki hætt að kenna og segja okkur hvað er rétt og rangt. Og hinn framsóknarmaðurinn er einnig á þeirri skoðun að þetta sé hálfgerður dónaskapur í Mogganum að vera að fjalla um málið og til óþurftar hjá evrópskum hagstofum að stunda þennan óraunhæfa samanburð: ""Ég er þeirrar skoðunar að allar viðmiðanir við meðalverð [í Evrópuríkjunum] séu óraunhæfar, enda sjáum við t.d. að Danir eru langt fyrir ofan það" sagði Steingrímur J. Sigfússon." Sem sagt við eigum bara að sætta okkur við þetta. Ekki hugnast mér það.
Sjálfstæðisráðherrann notar tækifærið til að minna kaupmenn landsins á að standa nú með flokknum sínum í stóru barbabrellunni korteri fyrir kosningar: "Þessi niðurstaða undirstrikar hversu mikilvægt það er að fyrirætlanir okkar um lækkun matvælaverð ... takist vel til segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra." Ég vona að það gangi vel hjá þeim og matarreikningur minn og allra hinna lækki raunverulega - en afhverju var þetta ekki hægt fyrr en tveimur mánuðum og nokkrum dögum fyrir kosningar. Þið afsakið þótt ég sé svolítið tortrygginn.
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Ingibjörg Sólrún - sem fór mikinn í minkapels í matvörubúðum í ljósvakamiðlum í gær - leggur áherslu á að lækka tollana: "Það er ekki hægt að líta fram hjá því, að innflutningstollar eru mjög stór þáttur í okkar haá matarverði." Það er skemmtileg ekki-tilviljun að Mogginn vekji athygli á þessari tilvitnun í hana, því þarna er blaðið sammála: "Það er engin tilviljun að hæsta matvælaverðið í Evrópu [sé] á Íslandi, í Noregi og Sviss, sem eru þau lönd sem leggja mestar hömlur á viðskipti með landbúnaðarvörur. Það mun lækka verð að draga úr þeim hömlum."
Humm er Mogginn nokkuð í framboði? Ég sé ekki betur og gæti bara sem best hugsað mér að kjósa Styrmi sem er farinn að berjast fyrir lækkun matarverðs og alls þess aukakostnaðar sem á okkur auma landsmenn leggst vegna þess að við erum að burðast með okkar eigin gjaldmiðil. En meira um evruna síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2007 kl. 00:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.