Öflugra þing og faglegra framkvæmdavald
Fimmtudagur, 18. nóvember 2010
Stjórnlagaþingi er ætlað samkvæmt lögum um það að fjalla um 8 tilgreind atriði. Hér er það sem mér virðist mikilvægast varðandi skipan löggjafarvaldsins og framkvæmdavalds og valdmörk þeirra.
Meginatriðin eru tvö að mínu mati: Annars vegar þarf að styrkja lýðræðið með því að efla Alþingi miðað við það fyrirkomulag sem hefur þróast á síðustu tveimur áratugum. Það grundvallast á þeirri skoðun minni að Ísland eigi að vera þingræðisríki, þar sem þingið í umboði þjóðarinnar hefur æðsta valdið í samfélaginu. Í því felst bæði að Alþingi á að hafa óskorað löggjafarvald og fjalla sjálfstætt um lagatillögur og sinna eftirliti með framkvæmda- og dómsvaldinu.
Í reynd hefur þingið of oft verið afgreiðslustofnun fyrir frumvörp sem koma frá framkvæmdavaldinu en mikill meirihluti þeirra frumvarpa sem verða að lögum eru ráðherrafrumvörp og aðkoma þingsins er takmörkuð. Efla þarf þingið hér og sérstaklega hlut þingnefndanna í faglegri yfirferð yfir lagafrumvörp og getu þingmanna til að vinna eigin frumvörp.
Hinn anginn í því að efla þingið er lýtur að eftirlitshlutverki þess með framkvæmdavaldinu. Það er til staðar í dag í gegnum Ríkisendurskoðun og Umboðsmann Alþingis og hafa báðar þessir aðilar veitt framkvæmdavaldinu mikilvægt aðhald. En betur má ef duga skal. Sú hugmynd að styrkja sjálfstæði þingnefnda þannig að þær geti kvatt ráðherra og aðra embættismenn á sinn fund þar þingnefndirnar hafi vald til að knýja fram svör er góð hugmynd sem þarf að útfæra í nýrri stjórnarskrá.
Til að tryggja að þingið sé fært um að starfa á öflugi þátt en nú er ætti samhliða að grípa til þriggja ráða:
Fækka á þingmönnum um að minnsta kosti þriðjung
Ráðherrar eiga ekki að eiga sæti á þingi
Efla þarf stuðning við þingmenn þannig að þeir njóti fullnægjandi sérfræðiaðstoðar
Hitt meginatriðið er að tryggja að framkvæmdavaldið vinni sem ein heild með því að auka sameiginlega ábyrgð ríkisstjórna og draga úr ráðherraræði. Til þess þarf að breyta stjórnarskránni því í dag fara ráðherrar einir með allt vald til ákvarðana og því er ekki í reynd um neinar sameiginlegar ákvarðanir ríkisstjórna að ræða þótt oft sé komist svo að orði um pólitískt samkomulag sem næst við ríkisstjórnarborðið. Nokkrar leiðir eru færar hér sem stjórnlagaþing þarf að taka afstöðu til. Einn liður í því er að efla formleg völd forsætisráðherra þannig að hann geti í reynd verkstýrt ríkisstjórninni og komið i veg fyrir að einstakir ráðherrar séu að taka ákvarðanir sem jafnvel stangast á. Íhuga þarf hvort ekki sé rétt að breyta fyrirkomulaginu þannig að einstakir ráðherrar geti ekki einir og án samþykkis tekið bindandi ákvarðanir heldur þurfi samþykki t.d forsætisráðherra eða jafnvel embættismanna til að þær öðlist gildi. Stjórnlagaþing þarf að ræða þá mögulegar fyrirmyndir um hvernig er hægt að breyta hlutunum, því eitt af því sem kom skýrt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis er að fyrirkomulagi ráðherraeinræðis verður að breyta.
Til viðbótar við breytingar á ráðherraræði þarf að efla fagmennsku í stjórnsýslu og skýra betur boðvald og tengsl stjórnmálamanna og embættismanna. Fagmennska verður ekki tryggð í stjórnarskrá heldur bara í framkvæmd, en með því að setja ákvæði í stjórnarskrá um að við ráðingar í opinberar stöður skuli eingöngu horft til faglegra sjónarmiða er hægt að setja skorður við pólitískum ráðningum því þá er hægt að kæra ráðningar til dómstóls sem getur úrskurðað þær ógildar ef faglegum sjónarmiðum hefur ekki verið framfylgt. Jafnframt þarf að styrkja stöðu embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum og leggja þeim ríkari upplýsinga- og frumkvæðisskylur á herðar.
Meginflokkur: Stjórnlagaþing | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.