Stórgóð könnun hjá bjartsýnni þjóð!
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Samtök atvinnulífsins eiga hrós skilið fyrir að standa að þessari könnun þar sem skyggnst er lengra inn í framtíðina en menn oftast gera. mbl.is finnst það helst fréttnæmt að yfirgnæfandi meirihluti telur að við verðum komin inn í ESB þá - eða þrír af hverjum fjórum. Mér þykir ekki síður merkilegt að samkvæmt könnunni telja rúmlega 60% Íslendinga að við verðum á toppnum hvað varðar lífsgæði eftir 43 ár. Það lýsir bjartsýnni þjóð, sem hefur trú á sjálfri sér og gerir um leið ráð fyrir því að vera komin í ESB. Sýnir það ekki bara enn og aftur að þjóðin er raunsærri og framsýnni en margir stjórnmálamenn í þessu máli?
Þessi könnun er reyndar áhugaverð fyrir marga hluti aðra en spurningu um ESB aðild. Aðferðafræði hennar er skemmtileg, þar sem annars vegar er almenningur spurður og hins vegar var handvalinn hópur áhrifavalda, en þar í hópi er alþingismenn, stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja, auk fólks úr menningu og listum. Um flesta hluti er góður samhljómur milli þessara tveggja hópa, en ég vek athygli á tveimur atriðum þar sem mikið ber á milli.
Áhrifavaldar telja mun líklegra en almenningur að konum eigi eftir að fjölga mikið í forystustörfum. Það sem verra er, að samkvæmt kynningu á aðalfundi samtakanna í dag, er minnst trú á að þarna muni verða miklar breytingar meðal yngsta aldurshópsins. Það er því verk að vinna að efla sjálfstraust og þor með yngsta fólksins.
Hitt atriðið lítur að ótta manna við að breytt aldurssamsetning þjóðarinn muni kalla yfir okkur margvísleg vandamál og sér í lagi aukna skattheimtu. Meirihluti almennings gerir ráð fyrir að skattar muni hækka en áhrifavaldar hafa meiri trú á getu lífeyriskerfisins til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir. Hér er því verk að vinna við að skýra betur þá fjárfestingu sem þegar er til staðar í íslenska hagkerfinu og sem getur staðið undir verulegum fjárfestingumm og velferðarútgjöldum í framtíðinni.
... það sem uppúr stendur er þó bjartsýnin. Hún verður ekki af okkur skafin.
Flestir telja að Ísland verði komið í ESB árið 2050 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.