Nýr framhaldsskóli - fyrir alla

MENNT - sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla - hélt vel sóttan félagsfund síðdegis í dag. Þar voru til umræðu málefni framhaldsskólastigsins sem mjög hafa verið í deiglunni að undanförnu án þess þó að margt hafi gerst. Þangað buðum við fulltrúum stjórnmálaflokkanna og fórum yfir þær hugmyndir sem kynntar hafa verið síðasta árið um miklar breytingar - um Nýjan framhaldsskóla, eins og það er kallað. Margt í þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu er merkilegt og mikilvægt. Það var því ánægjulegt að heyra að mikill samhljómur er meðal stjórnmálaflokkanna að þörf sé á miklu átaki til að efla framhaldsskólana og þá sérstaklega starfsnámið og flestir virðast tilbúnir í umtalsverðar breytingar.

Við brydduðum upp á þeim nýmælum hjá MENNT að í lok dagskrár mælti ég fyrir hönd stjórnarinnar fyrir álytkun fundarins sem var samþykkt með lófataki. Fylgir hún hér - en fyrir þá sem ekki þekkja til MENNTAR þá má geta það að baki þeim félagsskap er breiðfylking aðila atvinnulífs, öll formleg skólastig og aðrir fræðsluaðilar og aðrir sem telja að samtarf atvinnulífs og skóla sé mikilvægt:

Nýr framhaldsskóli - fyrir alla

Ályktun á félagsfundi MENNTAR 3. maí 2007

Félagsfundur MENNTAR hefur fjallað um málefni framhaldsskóla og hugmyndir um umtalsverða endurskoðun framhaldsskólastigsins. Félagsfundurinn tekur í öllum meginatriðum undir tillögur Starfsnámsnefndar, sem lagðar voru fram fyrir rétt tæpu einu ári. Þar er gerð tillaga um Nýjan framhaldsskóla sem verði ein heild án aðgreiningar í bóknám og verknám þar sem hvort tveggja verði jafngilt. Nám verði viðtökumiðað og gert sveigjanlegra um leið og tryggt verði að ávallt sé hægt að byggja ofan á það sem fyrir er. Þá verði vinnu­staðanám endurskipulagt og stofnað verði fagháskólastig. Einnig verði gerðar skipulagsbreytingar á starfi og samstarfi starfsgreinaráða og komið verði á formlegu samstarfi milli skólastiga.

Félagsfundur MENNTAR lýsir yfir stuðningi við framangreindar hugmyndir sem allar miða að því að efla framhaldsskólann og gera hann sveigjanlegri. Sérstaklega þarf að efla starfsnám og þar er þörf á mjög myndarlegu átaki þar sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leggjast á eitt. Markmiðið er að tryggja öllum ungmennum nám við hæfi, til undirbúnings undir virka þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám og draga þannig úr brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi.

Félagsfundurinn fagnar framkomnum hugmyndum um verulegar breytingar á grundvelli tillagna starfsnámsnefndarinnar og starfi vinnuhópa síðustu misseri. Félags­fundurinn skorar á stjórnvöld að hraða mjög vinnu við endurskoðun á framhaldsskólastiginu um leið og haft verði gott samráð við öll skólastig og aðila vinnumarkaðarins. Þá er lögð áhersla á að forsenda þess að markmið um Nýjan framhaldsskóla nái fram að ganga er að nægilegt fjármagn verði tryggt til að þróa öflugt og fjölbreytt starfsnám á framhaldsskólastigi.

Sjá nánar á www.mennt.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband