Póstkort frá Berlín
Laugardagur, 5. maí 2007
Ég fór og skoðaði minnismerkin um myrta gyðinga í Evrópu í dag. Var ögn neikvæður fyrirfram og hugsaði að einungis þjóðverjum dytti í hug að þekja heila ekru með steypuklumpum. En þetta eru ekki bara ferkantaðir klumpar, heldur óreglulegir og sumir hverjir skakkir á gólffleti sem bylgjast, rétt eins og lífið sjálft. Svo fór ég úr sólinni og niður í iður jarðar til að muna og reyna að skilja. Já og til að gráta - en á því átti ég ekki von. Man ekki eftir því áður að hafa staðið á safni og tárast með ókunnugu fólki yfir því sem þar bar fyrir augu.
Mér fannst sýningin sterk og afar áhrifarík í einfaldleika sínum. Hún víkkar verulega sýn manns á helförina gegn gyðingum, sem í mínum huga eins og svo margra eflaust var bundin við útrýmingarbúðir Nasista í Austur-Evrópu. En helförin átti sér stað út um allt og það voru ekki bara allra verstu SS böðlarnir sem tóku þátt í henni, heldur venjulegir karlar út um alla Evrópu. Eiginmenn og feður af mörgum þjóðernum sem skutu með köldu blóði ekki hermenn með fullvæpni, heldur naktar varnarlausar konur og börn þeirra. Menn sem lýstu því stoltir við kvöldverðarborðið hvernig þeir hefðu tekið þátt í drápunum og viðurkenndu að höndin hefði verið óstyrk á rifflinum þegar fyrsti hópurinn var skotinn, en þegar kom að tíunda bílfarminum var höndin stöðug og miðið fumlaust. Einnig þegar börnin voru skotin - stundum fljúgandi í loftinu á leið í vota fjöldagröf.
Það er myndaspyrpa þarna frá Sdolbunov, sem núna er í Úrkaínu, sem sýnir er konum og börnum var smalað ofnan í gil og þeim skipað að afklæðast. Síðan sjást konurnar naktar í biðröð dauðans, haldandi á þann verndandi hátt sem mæður gera um ung börn og láta þau grúfa höfuðið í hálsakot svo þau sjái ekki og viti ekki hvað bíður. Svo nakin lík eins og saltfiskur breiddur til þerris og eitt barnið hefur risið upp til hálfs - því skotið geigaði. En yfir stendur karlmaður með riffil og ætlar greinilega að hitta í þetta sinn. Hvernig getur nokkur manneskja losnað svo úr tengslum við mennsku sína að geta skotið nakta og varnarlausa konu sem heldur á enn varnarlausara barni?
"Það er annar heimur hér. Það má svo sem kalla hann helvíti, en helvíti Dantes er fáránlega fyndið í samanburði við þennan veruleika. Og við erum vitnin, við sem ekki fáum að lifa." (Chaim Hermann, 6. nóvember 1944).
Mér leið ekki vel þegar ég kom upp í skæra vorsólina aftur, en ég er glaður ég fór. Við hin sem fáum að lifa í friðsæld og vellystingum þurfum að muna og vita hvað manneskjan er fær um á sínum bestu sem verstu stundum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.