Þjóðarstjórn um þekkingarsamfélag

Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn vilji raunverulega fara í stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn, þar sem skoðanir eru mjög skiptar um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það eina sem gæti komið út úr því gott fyrir þjóðina og Sjálfstæðisflokkinn, er að Framsókn þurkaðist alveg út í næstu kosningum. Af sömu ástæðu trúi ég því ekki heldur að alvöru Framsóknarmenn vilji raunverulega í stjórn í þetta skiptið; þeir þurfa andrými til að bjarga flokknum.

Þess vegna kem ég því ákalli á framfæri við bæði Sjálfstæðismenn og Samfylkingarfólk að þeir taki höndum saman. Nú er kjörið tækifæri til að mynda öfluga stjórn sem getur tekist á við stór mál og erfið verkefni. Nú er þörf á stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar og hefur þingstyrk sem er meiri en svo að sérhver þingmaður hafi í reynd neitunarvald um öll mál. Fyrir íslenska þjóð er bara einn skynsamlegur kostur í þeirri stöðu sem komin er upp eftir kosningarnar: Það er stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Til samans eru flokkarnir með vel yfir 60% fylgi og hafa þá burði sem þarf til að breyta því sem þarf. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða þá ríkisstjórn en Samfylkingin á að sækjast eftir utanríkisráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Sú ríkisstjórn ætti að ráðast í fjögur stór verkefni:

  1. Sækja um aðilda að Evrópusambandinu og bera síðan niðurstöðuna undir þjóðina þegar hún fæst;  
  2. Ráðast í efnahagsumbætur sem felast í því að róa hagkerfið með tímabundnu stóriðjustoppi og öðrum aðgerðum sem lækka vexti og þar með fármagnstekjukostnað;
  3. Stokka upp í skattkerfi og félagslegu bótakerfi til að draga úr þeim ójöfnuði í kjörum sem vaxið hefur undanfarin ár;
  4. Efla þekkingarsamfélagið með umbótum í menntakerfinu og stórsókn í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpunarmálum - þannig að renna megi stoðum undir enn fjölþættara atvinnulíf þekkingarsamfélagsins til framtíðar.

Mikill hluti þjóðarinnar styður öll þessi verkefni: Sjálfstæðisflokkurinn getur haldið áfram að vera í þykjustuleik - þótt allir viti að meirihluti Sjálfstæðismanna séu jákvæðir gagnvart ESB og evrunni - og látið Samfylkinguna bera hitann og þungann af aðildarviðræðum. Ef illa fer og þjóðin hafnar samningi, þá getur hann þvegið hendur sínar. Samfylkingin getur vel látið af hendi forsætis- og fjármálaráðuneyti, ef Sjálfstæðismenn fallast á aðildarviðræður og skattkerfisbreytingar sem auka jöfnuð á ný, sér í lagi með verulegri hækkun persónuafsláttar. Og báðir flokkarnir eru sammála um að nauðsynlegt sé að fjárfesta í framtíðinni sem felst menntun, rannsóknum og hagnýtingu þekkingar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt þeim málaflokk með einu hléi í meira en tuttugu ár og því er mál að aðrir fái að spreyta sig.

Þjóðin þarf ekki meira af því sama heldur kalla tímarnir á stjórn breytinga. Sjálfstæðismenn og sósiademókratar hafa oft borið gæfu til góðra verka og hafa staðið fyrir farsælum breytingum á íslensku samfélagi. Nú er þörf á þjóðarstjórn um þekkingarsamfélag framtíðarinnar og einungis Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa burði til þess að standa að því nú.  

Svo það eru bara hvatningaroð í lokin. "Koma nú Geir ... þetta er þitt tækifæri til að fara heim af ballinu með sætustu stelpunni!"


mbl.is Biðstaða í viðræðum stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband