Ríkisstjórn í fremstu röð?

Þá liggur stefnuyfirlýsing Þingvallastjórnarinnar fyrir og sjálfsagt að hver lesi hana með sínum gleraugum. Hér er minn sjálfhverfi yfirlestur á þessari 2.410 orða yfirlýsingu:

Þetta er ríkisstjórn sem hefur metnað og talar af talsverðu sjálfstrausti. Kraftmikið efnahagslíf á að vera undirstaðan undir samfélag sem býr við „menntakerfi í fremstu röð", „heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða" og er „í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum." Þetta er gott. Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sér og metnað til að gera enn betur er ekki líklegur til afreka.

Ég er mikill áhugamaður um frekari framþróun þekkingarsamfélagsins - sem ég trúi að geti eitt orðið sá grunnur sem velferðarsamfélagið hvílir á - og því las ég þá hluta með sérstakri athygli sem snerta þann málaflokk. Strax í öðru kafla yfirlýsingarinnar segir: „Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. Samstarf atvinnulífsins og íslensku háskólanna er lykill að bættum árangri og nýsköpun í atvinnurekstri." Þetta gleður mitt háskólahjarta. Atvinnulífið og háskólarnir eru í sameiningu lykilinn að framtíðinni. Gæti ekki verið meira sammála. Framhald þessa kafla er rökrétt afleiðing þessa skilnings á því hvert stefnir: „á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs."

Hér er því strax komið eitthvað kjöt á beinin; haldið verður áfram að efla samkeppnissjóðina og farið í frekari aðgerðir til að styðja við hátækniiðnaðinn og sprotafyrirtækin, en fram til þess hefur verið mun meiri áhersla á stóriðju og hefðbundnari atvinnugreinar. Í því samhengi er rétt að skoða endurskipulagningu ráðuneyta, þar sem ferðamálin eru færð yfir í iðnaðarráðuneytið með öðrum atvinnugreinum. Sjávarútvegur og landbúnaður eru að vísu ennþá sér, en það er þó búið að sameina þau í eitt ráðuneyti, þannig að ætla megi ekki segja að ríflega hálfur sigur sé unninn. Svo yfirlýsingin og uppstokkunin gefur tilefni til bjartsýni með að þessi ríkisstjórn muni taka atvinnumálin frískari tökum en fyrri ríkisstjórnir. Svo er ekki verra að hafa sem opinber gögn þær tillögur sem Samfylkingin lagði fram á Sprotaþingi í febrúar s.l. og hlutu mestan stuðning þingfulltrúa af öllum þeim tillögum sem lagðar voru fram. Ég treysti því að varaformaður og framkvæmdastjóri flokksins nesti nýjan iðnaðarráðherra vel með þeim tillögum þegar hann fer að taka til hendinni í því ráðuneyti.

Þá er komið að því sem í minni orðabók heitir undirstöðuatvinnuvegur framtíðarinnar, menntamálunum, sem sett eru fram undir fyrirsögninni „Menntakerfi í fremstu röð":  „Ríkisstjórnin setur sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum. Framfarir og hagvöxtur komandi ára verða knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar.  ... Efla skal list- og verkmenntun á öllum skólastigum og auka náms og starfsráðgjöf." Allt er þetta sem tónlist í mínum eyrum og get ég raunar skrifað undir öll markmiðin sem sett eru fram í kaflanum. En þar segir fátt um hvernig verið staðið að breytingum, enda kannski eðli slíkra yfirlýsinga að vera almennar. Þannig hefur efling á verkmenntun verið markmið um árabil og Sjálfstæðismenn, sem fara nú inn í sitt fimmta kjör­tíma­bil í ráðuneytinu, verða bara að fara að sýna einhvern árangur á því sviði. Það kom reyndar talsvert á óvart að Sjálfstæðismenn héldu áfram að fara með það ráðuneyti eftir svo langa setu. Það hefði ekki komið á óvart að Samfylkingin hefði sótt fast að fá menntamálin og ekki heldur ef Sjálfstæðismenn hefðu viljað losna við málaflokkinn, því eitt helsta vandamálið við alla breytingastjórnun þar undanfarin misseri hefur tengst málefnum kennara og kannski kennaraforystunnar. En það varð ekki. Undir stjórn Sjálfstæðismanna hefur háskólastigið stórlega eflst á síðustu árum og þátttaka í námi á framhaldsskólastigi hefur einnig aukist, en eftirlegu­kindurnar eru brottfallið og verknámið. Hvor tveggja vandamálið er viðurkennt í  yfirlýsingunni og gefur það tilefni til að vona að góðar tillögur sem fyrir liggja um verulegar breytingar á framhaldsskólastignu og starfsnámi verði að veruleika á kjörtímabilinu. Gangi það eftir, mun brottfall minnka og verkmenntun eflast.

Að lokum vil ég minnast á einn mikilvægan kafla - sem ég held reyndar að sé mun mikilvægari en samgöngumálin - og það eru fjarskiptin. Í kafla um að landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði segir: „Ríkisstjórnin vill tryggja öryggi í gagnaflutningum til og frá landinu með nýjum sæstreng og sömuleiðis að flutningshraði gagna aukist í takt við þá þróun sem á sér stað. Góð gagna­samskipti auka mjög aðgengi að menntun og þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu, og fela auk þess í sér tækifæri til nýsköpunar." Ég vona að menn standi við þetta og leyfi mér að fullyrða að það er miklu mikilvægara á næstu fjórum árum að tryggja gagnasamskiptin en samgöngurnar; allt tal um Ísland í fremstu röð er marklaust ef landið er sambandslaust, jafnvel þótt það sé talið í nokkrum klukkustundum. Það land er hins vegar ekki til í heiminum þar sem ekki eru samgönguvandræði og menn komast ekki eins hratt leiðar sinnar og þeir helst vilja, þar er þessi fámenna þjóð enginn eftirbátur annarra. Svo ef menn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá verða menn að spyrja grundvallarspurningarinnar; hvað skiptir máli fyrir framtíð landsins alls? Svar síðustu ríkisstjórnar sem ákvað að setja fleiri milljarða í göng fyrir norðan sem mjög fáir munu nota en láta gagnastreng sem allir munu nota sitja á hakanum, var klárlega rangt. Ég treysti því að þessi ríkisstjórn muni ekki vera með samkonar forgangsröðun.

Ég læt öðrum eftir að kommentera á velferðar- og heilbrigðismálin svo ekki sé minnst á umhverfismálin eða Evrópumálin. Þar eru yfirlýsingar afar hófstilltar og bera þess merki að menn eiga eftir að tala sig betur saman. Mér sýnist reyndar yfirlýsingin og orðaval frammámanna Sjálfstæðisflokksins bera þess merki að flokkurinn sé að undirbúa stefnubreytingu í Evrópumálum sem verður orðin skýr eftir hálft annað ár. Þá geta menn sagt með góðri samvisku að forsendur séu breyttar og kalt mat á hagsmunum sé að skynsamlegt sé að sækja um aðild að ESB. Samfylkingin hefur greinilega fallist á að gefa Sjálfstæðisflokkum þann tíma sem hann þarf til að breyta um kúrs. Það er skynsamlegt.

Samandregið er þetta nokkuð góð stefnuyfirlýsing. Hér er lagður grunnur að frjálslyndri umbótastjórn, eins og hún kýs að kalla sig. Ef hún stendur við meginatriðin í stefnuyfirlýsingunni á hún góða möguleika á að vera ríksstjórn í fremstu röð.


mbl.is Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar undirrituð á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband