Beauty need only be a whisper

Katie MeluaÞað kom loksins að einhverju félagslífi öðru en fyrirlestrasókn. Fór á tónleika með Katie Melua sem var afar skemmtilegt hér í Brighton Centre ásamt 2-3000 öðrum gestum. Þetta voru síðustu tónleikarnir hennar í tónleikaröð sem hefur staðið yfir frá því í mars og nær yfir þær þrjár plötur sem hún hefur gert í samstarfi við Mike Batt, sem er á aldri við mig en hún var ekki nema 18 þegar þau byrjuðu að vinna saman. En nú er þetta líka orðið gott, segir hún í sýningarskránni og hún ætlar að halda áfram ein og finna sinn tón.

Tónleikarnir komu mér á óvart. Ég hef spilað tvær af þessum þremur plötum mikið og átti því von á henni eiginlega bara með kassagítarinn. Þannig byrjaði hún líka og tók tvö lög ein og óstudd og skellti sér svo á bak við píanóið og tók rólegt lag á georgísku.

En þá breyttust tónleikarnir og sex manna band birtist á tjöldum sem síðan var lyft upp og úr varð mjög skemmtilega útfærð sýning; á hálf gegnsæu tjaldi með sum lögin myndskreytt og lýsingu sem var frábær.

Katie Melua á sviði

Katie Melua; Thank you StarsAðalmálið var auðvitað Katie. Ég hef aldrei heyrt svona mikla rödd í svona lítilli konu. Hún er örugglega minni en Brynhildur Guðjónsdóttir sem söng Edith Piaf hér um árið. En röddin, frá lægsta hvísli og upp í feikilegan kraft sem maður skynjar miklu betur á tónleikum en þegar maður hlustar á plötur. Sem sagt bara gaman, eins og Emblan segir, sem ég hefði auðvitað gjarnan vilja hafa með mér í kvöld. Hún tók þrjú aukalög, enda vel fagnað; Eitt sem kemur út á 'single' á næstunni og eitt sem ég hef ekki heyrt og minnti mig mikið á Janis Joplin og þar sem ég hef ekki hundsvit á tónlist - þá ætla ég að spá því að hún muni finna sig í einhverstaðar þeirri áttinni - rokkaðri en samt aldrei fjarri kassagítarnum.

Fyrir lokalagið hvarf bandið á braut og Katie stóð ein á sviðinu með gítarinn; ég verð að viðurkenna að þannig finnst mér hún áhrifaríkust. Hún tók lagið I Cried for You, sem endar á orðunum: "Beauty need only be a whisper" Það var einhverveginn alveg fullkomið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Embla Ágústsdóttir

Já ég hefði ekkert verið á mótið því að vera með þér. Hún er svo flott 

Embla Ágústsdóttir, 12.11.2008 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband