Völd og áhrif í Mosfellsbæ

Flutti í gærkvöldi erindi á fundi hjá félagi Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ - sama erindið og ég flutti fyrir rúmri viku um völd og áhrif í Brussel. Á eftir mér talaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Hann var mér sammála um það að við höfum haft völd og áhrif í Brussel í því samstarfi sem við höfum tekið þátt fram til þessa. En við erum auðvitað ekki sammála um það hvort skynsamlegt sé að Ísland sæki um aðild að ESB eða ekki.

Þetta var býsna skemmtileg reynsla og margar spurningar sem brunnu á þeim fjörutíu sem mættu á fundinn. Ég var ekki í þeim gírnum að reyna sérstaklega að sannfæra Sjálfstæðismenn um að við eigum að sækja um aðild að ESB - heldur að fullvissa þá um að ef við förum inn þá felur það í sér fjölmörg tækifæri. Efast um að mér hafi tekist að sannfæra þá - en það er alveg nauðsynlegt að fólk sem ekki á sömu skoðun hittist. Fylgismenn og andstæðingar ESB aðildar þurfa að gera meira af því að hitta hvorn annan fremur en bara að hittast saman þeir sem eru sammála. Ég allavega tók þátt í slíkri samræðu í kvöld er sáttur eftir það.

Það var einnig áhugavert fyrir mig að fylgjast með hógværri orðræðu Sjálfstæðismanna, bæði um Evrópumálin og almennt um landsmálin. Ég verð að segja Birni Bjarnasyni það til hróss að hann var pollrólegur og lætur ekki flókið pólitískt ástand taka sig á taugum. Hann er fylgjandi því að landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði frestað þar til fyrir liggur hvenær verður kosið - því það er óumflýgjanlegt að kosið verði í vor - og þá verði aðalmál landsfundar undirbúningur fyrir kosningar en ekki Evrópumálin. Ég hef það á tilfinninguna að þetta gangi eftir og kannski verða fleiri en Björn Bjarnason sem hætta í pólitík á næstu vikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband