Palladómur um áramótaskaupið 2006

Það er við hæfi að fyrsti palladómurinn sé um skaupið. Mér fannst það frábært. Og ólíkt öðrum bloggara sem tjáði sig um skaupið þá hlóu allir sem voru í kringum mig - rúmlega 10 manns og þar var ég næst elstur.

Það urðu kynslóðaskipti í þessu skaupi. Ný kynslóð húmorista stimplaði sig inn með eftirminnilegum hætti. Þetta er sú tegund af n.k. aulahúmor sem hefur verið áberandi hjá þeim sem hafa verið að höfða til yngra fólksins. En þarna voru á ferðinni atvinnumenn sem byggðu á ríkulegri menningarhefð kvikmynda (sbr. upphafsatriðið sem vísar í Plánetu apanna, þá klassíksu framtíðarhrollvekju, eða Baugsmyndina sem vísar í stjörnustríðið - alger snilld); teiknimynda (sbr. fyrsta söngatriðið "Velkominn til Íslands / Allir kunna að skemmta sér." sem er vísun í Who killed Kenny); auglýsinga (sbr. "Staurauglýsinguna" sem var fullnýtt og frábæran útúrsnúning eða viðsnúning á auglýsingunni "Góð hugmynd frá Íslandi"), svo ekki sé minnst á tónlistarmyndbönd (sbr. frábæra endurgerð af frægasta myndbandi Nylon).

Þessu var svo blandað saman við "hefðbundnara" grín þar sem landsliðsmenn úr Spaugstofunni léku landsfeðurnar á trúverðugan hátt þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um plagg sem enginn má sjá og gæti því allt eins verið árituð ynd af nakinni Hollywood stjörnu. Meðferð þeirra á sveitastjórnarkosningunum var líka góð því þar var blandað inn málefnum aldraðra og innflytjenda. Já það var hressandi að heyra "ekki-íslensku" talaða í skaupinu og sjá fordómafulla fjölmiðlamenn sem vilja ekki tala við nema alvöru Íslendinga. Og það má gera grín að fötluðum. Engin vé eru svo heilög að þau eigi ekki heima í skaupinu - ekki Gísli á Uppsölum og ekki Sigurrós, en túlkun Jóns Gnarr á söngvara Sigurrósar var tær snilld.

Í stuttu máli var hér á ferðinni hópur fagmanna sem þekkir sína menningu og kom gríninu vel til skila. Svo miklir fagmenn voru þetta að þeir slógu vopnin úr höndum gagnrýnenda með innkomu útvarpsstjóra: "Góðir áhorfendur. Skaupið er sniðið að þörfum þeirra sem hafa beittan, en þó mjög vandaðan húmor." Ég tek því undir með Páli í því atriði: "Þetta er frábært skaup."

Sem sagt fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og fyrir þá sem misstu af því, er hægt að horfa á það á vef RUV: Áramótaskaupið 2006.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband