Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Uppskeruhátíð

Verðlaunahafar Við veittum Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í gær. Þetta hefur verið árviss viðburður núna í níu ár og síðustu árin hefur myndast sú góða hefð að rektor afhentir verðlaunin. Að venju voru veitt þrenn verðlaun til bestu verkefnanna og er myndin af verðlaunahöfunum ásamt rektor og formanni dómnefndar. Um þetta má allt lesa nánar á heimsíðu Rannsóknaþjónustunnar og svo var tekið við mig ítarlegt viðtal í síðdegisútvarpi Rásar tvö í gær og er hægt að hlusta á upptöku af því á netinu (er í síðari hluta þáttarins.

Þetta var annasamur en skemmtilegur dagur. Um morguninn vorum við með fund um tækniyfirfærslu þar sem kynnt var samstarfsnet háskólanna í Danmörku um þetta og norrænt samstarfsnet sem verið er að setja af stað. Við verðum að sjálfsögðu aðilar að því, ásamt helstu lykilaðilum hér á landi vona ég. Eftir hádegi var svo fundur í því sem gengur undir nafninu Evrópuhópurinn - sem er óformlegur félagsskapur þeirra sem vinna á þeim skrifstofum sem vinna með beinum eða óbein hætti að framkvæmd á evrópskri samvinnu. Þetta eru svona Evrópuskrifstofur. Hópurinn hefur ekki komið saman lengi, því á þessu ári hafa verið að ganga yfir miklar breytingar á skipulagi og í mannahaldi og því orðið tímabært að hittast. Sumir úr þeim hópi tóku síðan þátt í verðlaunaafhendingunni hjá okkur og móttökunni að henni lokinni.

Móttakan tókst vel og voru nokkrir góðir gestir sem stoppuðu lengi og þurftu margt að ræða. Eftir að móttökunni lauk átti ég síðan langt spjall við samverkamann minn til margra ára um ýmis verkefni og framtíðaráform. Og þegar ég var kominn heim síðla kvölds átti ég langt og gott samtal við góð vin minn um allt önnur viðfangsefni en dagurinn fól í sér. Það má eiginlega segja að ég hafi verið að tala og hlusta frá morgni til miðnættis. Sem sagt góður og gefandi dagur.


Litla stelpan - lítil saga um takmörk og markmið

Ég hvet ykkur eindregið til að lesa nýtt blogg hjá Emblunni sem heitir Litla stelpan.

... svona vísar maður bara á aðra þegar maður hefur ekki tíma eða kjark til að blogga sjálfur um það sem skiptir máli.


Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang

... eins og guð hafði sjálfur í öndverðu hugsað sér það.  Ég tek undir með Steini Steinarr: Manni finnst þetta dálítið skrýtið þegar dagarnir ganga eins og þessi dagur:

Vaknaði í myrkri og drunga og var ekki alveg að fíla þetta morgunmyrkur, en heitt bað og hálfur lítri af vatni kom þessum vatnsskrokki af stað út í morguninn.
Lagði lokahönd á undirbúning að svolitilum skipulagsbreytingum og mannatilfærslum, en þurfti að taka það allt til endurskoðunar um leið og því var lokið því forsendur breyttust fyrirvaralaust. Langar þig að vinna hjá okkur á Rannsóknaþjónustunni? Skoðaður þá atvinnuauglýsingarnar bráðum.
Fór eftir hádegi í dæmatíma í tölfræði og rannsóknaraðferðum þar sem ég komst að því að það er ekki nóg að skilja tölfræðina til að ná þessum áfanga sem ég er í -  nei ég verð að setjast niður og reikna dæmi. Mörg dæmi. Gaman gaman (not).
Þar sem ég er í tíma er hringt úr skólanum og stórleikarinn yngri dóttir mín, sem stóð sig með stakri prýði sem Öskubuska í gærkvöldi á bekkjarsýningu, hafði dottið á höfuðið svo ég fór og sótti hana enda var móðirin enn meira upptekin en ég.
Hún reyndist ekki stórslösuð heldur bara svolítið lítil í sér, svo ég mútaði henni með sódavatni og smá blandi í poka og tók hana með mér á stuttan fund upp í Læknadeild - þar sem við gengum fram hjá líffærasafni og fleira skemmtilegu. Hún teiknaði meðan ég talaði á tvöföldum hljóðhraða.
Til að toppa daginn endanlega var svo stjórnarfundur í lok dags í félagasamtökum þar sem ég sit fyrir háskólastigið - verkefnið er núna að gera félagið upp og leggja það niður, því þar er óreiða og ókláraðir hlutir og líka skuldir sem við félagsaðilarnir þurfa að hreinsa upp. Það er aldrei skemmtilega að moka flórinn eftir aðra.

Sem sagt miðvikudagur og lífið gengur sinn gang - og miðvikudagskvöldið tók við með höfuðborgarakstri því á miðvikudögum sæki ég sunddrottninguna á æfingu og fer með hana í eitthvert nágranasveitarfélag - annað hvort á söngæfingu eða bara heim. En þær eru ljós í þessu skammdegi sem skollið er á, þessar dætur mínar. Smile 


Stoltur í vinnunni líka

Frá undirritun samningaMaður er ekki bara stoltur af börnum sínum sem öll standa í stórræðum þessa dagana, hvert á sinn máta, heldur líka stundum í vinnunni. Þannig var það fyrr í vikunni þegar skrifað var undir samninga við fjögur yfirfærsluverkefni sem fá styrk úr Leonardó hluta nýrrar Menntaáætlunar ESB sem hóf göngu sína í upphafi þessa árs. Verkefnisstjórinn stakk upp á því skrifa undir við alla í einu í lok námskeiðs fyrir verkefnisstjórana og var það vel til fundið. Samtals vorum við að skuldbinda þarna ríflega 60 milljónir króna í þessum fjórum styrkjum til næstu tveggja ára - og munar um minna í þróun starfsmenntunar á Íslandi.

Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar og Leonardó - svo maður noti nú tækifærið og hvetji vini og vandamenn til að kíkja á þær slóðir líka.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.