Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Póstkort frá Berlín

memorial-1Ég fór og skoðaði minnismerkin um myrta gyðinga í Evrópu í dag. Var ögn neikvæður fyrirfram og hugsaði að einungis þjóðverjum dytti í hug að þekja heila ekru með steypuklumpum. En þetta eru ekki bara ferkantaðir klumpar, heldur óreglulegir og sumir hverjir skakkir á gólffleti sem bylgjast, rétt eins og lífið sjálft. Svo fór ég úr sólinni og niður í iður jarðar til að muna og reyna að skilja. Já og til að gráta - en á því átti ég ekki von. Man ekki eftir því áður að hafa staðið á safni og tárast með ókunnugu fólki yfir því sem þar bar fyrir augu.

Mér fannst sýningin sterk og afar áhrifarík í einfaldleika sínum. Hún víkkar verulega sýn manns á helförina gegn gyðingum, sem í mínum huga eins og svo margra eflaust var bundin við útrýmingarbúðir Nasista í Austur-Evrópu. En helförin átti sér stað út um allt og það voru ekki bara allra verstu SS böðlarnir sem tóku þátt í henni, heldur venjulegir karlar út um alla Evrópu. Eiginmenn og feður af mörgum þjóðernum sem skutu með köldu blóði ekki hermenn með fullvæpni, heldur naktar varnarlausar konur og börn þeirra. Menn sem lýstu því stoltir við kvöldverðarborðið hvernig þeir hefðu tekið þátt í drápunum og viðurkenndu að höndin hefði verið óstyrk á rifflinum þegar fyrsti hópurinn var skotinn, en þegar kom að tíunda bílfarminum var höndin stöðug og miðið fumlaust. Einnig þegar börnin voru skotin - stundum fljúgandi í loftinu á leið í vota fjöldagröf.

Það er myndaspyrpa þarna frá Sdolbunov, sem núna er í Úrkaínu, sem sýnir er konum og börnum var smalað ofnan í gil og þeim skipað að afklæðast. Síðan sjást konurnar naktar í biðröð dauðans, haldandi á þann verndandi hátt sem mæður gera um ung börn og láta þau grúfa höfuðið í hálsakot svo þau sjái ekki og viti ekki  hvað bíður. Svo nakin lík eins og saltfiskur breiddur til þerris og eitt barnið hefur risið upp til hálfs - því skotið geigaði. En yfir stendur karlmaður með riffil og ætlar greinilega að hitta í þetta sinn. Hvernig getur nokkur manneskja losnað svo úr tengslum við mennsku sína að geta skotið nakta og varnarlausa konu sem heldur á enn varnarlausara barni?

"Það er annar heimur hér. Það má svo sem kalla hann helvíti, en helvíti Dantes er fáránlega fyndið í samanburði við þennan veruleika. Og við erum vitnin, við sem ekki fáum að lifa." (Chaim Hermann, 6. nóvember 1944).  

Mér leið ekki vel þegar ég kom upp í skæra vorsólina aftur, en ég er glaður ég fór. Við hin sem fáum að lifa í friðsæld og vellystingum þurfum að muna og vita hvað manneskjan er fær um á sínum bestu sem verstu stundum.


Íslandshraðlestin

152440225_58fdffafa0_mÞetta er mín tillaga að íslensku nafni á Iceland Express. Flaug með þeim síðdegis beint til Berlínar og leið eins og í hraðlest allan tímann. Var hæfilega seinn fyrir og því gekk ég beint að innritunarborðinu og þurfti ekkert að bíða. Nóg var skilvirknin í endurnýjarði flugstöð og búið að opna meiripartinn af henni núna. Ferðalagið til Berlínar gekk hratt og fumlaust fyrir sig og nákvæmlega á áætlun.  Það er eiginlega lúxus sem maður er orðinn óvanur að geta flogið beint á endanlegan áfangastað.

Alveg eins og hið gamla þjóðarstolt okkar Flugleiðir er tvítyngt og heitir bæði Flugleiðir og Icelandair, þá finnst mér að Iceland Express eigi að eiga líka íslenskt nafn - og það gæti vel verið Íslandshraðlestin. Það sem ég þekki til þeirra, þá standa þeir undir nafni. Ef ekki, þá blogga ég aftur um þá í lok mánaðrins, því ég þarf að fara þrjá skottúra núna í maí með Íslandshraðlestinni og borga jafn mikið fyrir þá alla eins og einn miða á Saga Class með Flugleiðum.

... svo segi ég eins og Kató gamli; að lokum finnst mér að Íslandshraðlestin ætti að hefja beint flug á Brussel.


Nýr framhaldsskóli - fyrir alla

MENNT - sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla - hélt vel sóttan félagsfund síðdegis í dag. Þar voru til umræðu málefni framhaldsskólastigsins sem mjög hafa verið í deiglunni að undanförnu án þess þó að margt hafi gerst. Þangað buðum við fulltrúum stjórnmálaflokkanna og fórum yfir þær hugmyndir sem kynntar hafa verið síðasta árið um miklar breytingar - um Nýjan framhaldsskóla, eins og það er kallað. Margt í þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu er merkilegt og mikilvægt. Það var því ánægjulegt að heyra að mikill samhljómur er meðal stjórnmálaflokkanna að þörf sé á miklu átaki til að efla framhaldsskólana og þá sérstaklega starfsnámið og flestir virðast tilbúnir í umtalsverðar breytingar.

Við brydduðum upp á þeim nýmælum hjá MENNT að í lok dagskrár mælti ég fyrir hönd stjórnarinnar fyrir álytkun fundarins sem var samþykkt með lófataki. Fylgir hún hér - en fyrir þá sem ekki þekkja til MENNTAR þá má geta það að baki þeim félagsskap er breiðfylking aðila atvinnulífs, öll formleg skólastig og aðrir fræðsluaðilar og aðrir sem telja að samtarf atvinnulífs og skóla sé mikilvægt:

Nýr framhaldsskóli - fyrir alla

Ályktun á félagsfundi MENNTAR 3. maí 2007

Félagsfundur MENNTAR hefur fjallað um málefni framhaldsskóla og hugmyndir um umtalsverða endurskoðun framhaldsskólastigsins. Félagsfundurinn tekur í öllum meginatriðum undir tillögur Starfsnámsnefndar, sem lagðar voru fram fyrir rétt tæpu einu ári. Þar er gerð tillaga um Nýjan framhaldsskóla sem verði ein heild án aðgreiningar í bóknám og verknám þar sem hvort tveggja verði jafngilt. Nám verði viðtökumiðað og gert sveigjanlegra um leið og tryggt verði að ávallt sé hægt að byggja ofan á það sem fyrir er. Þá verði vinnu­staðanám endurskipulagt og stofnað verði fagháskólastig. Einnig verði gerðar skipulagsbreytingar á starfi og samstarfi starfsgreinaráða og komið verði á formlegu samstarfi milli skólastiga.

Félagsfundur MENNTAR lýsir yfir stuðningi við framangreindar hugmyndir sem allar miða að því að efla framhaldsskólann og gera hann sveigjanlegri. Sérstaklega þarf að efla starfsnám og þar er þörf á mjög myndarlegu átaki þar sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leggjast á eitt. Markmiðið er að tryggja öllum ungmennum nám við hæfi, til undirbúnings undir virka þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám og draga þannig úr brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi.

Félagsfundurinn fagnar framkomnum hugmyndum um verulegar breytingar á grundvelli tillagna starfsnámsnefndarinnar og starfi vinnuhópa síðustu misseri. Félags­fundurinn skorar á stjórnvöld að hraða mjög vinnu við endurskoðun á framhaldsskólastiginu um leið og haft verði gott samráð við öll skólastig og aðila vinnumarkaðarins. Þá er lögð áhersla á að forsenda þess að markmið um Nýjan framhaldsskóla nái fram að ganga er að nægilegt fjármagn verði tryggt til að þróa öflugt og fjölbreytt starfsnám á framhaldsskólastigi.

Sjá nánar á www.mennt.is


10% árangur

Það er til gamall slagari þar sem námsmaðurinn syngur: "Fallinn, með fjóra komma níu".  Kemur upp í hugann þegar hlýtt er á fréttaflutning af niðurstöðu héraðsdóms. Þar  kemur fram sú merkilega hliðarfrétt að ríkið sé dæmt til að greiða 90% af kostnaði verjenda. Sem þýðir þá að dómararnir hafa álitið að 10% af málatilbúnaði hafi átt við nægileg rök að styðjast til að vera réttlætanlegur og þá að 90% hafi verið gönuhlaup í ákæruvaldinu.

Ég sé fyrir mér svalir í borginn (eins og í Boston Legal), þar sem Sigurður Tómas situr í kvöld með wiskey glas í hönd og raular nýjan texta við þennan þekkta slagara:

Fallin, með aðeins einn af tíu
eitt skelfilega skiptið enn.

... ég segi bara svona. Hitt veit ég, að ef ég næði bara 10% árangri í vinnunni minni - myndi ég örugglega missa hana.


mbl.is Dómarnir vissulega vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband