Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Opna Brezhnev-minningarmótið

Hópmynd vefur 2007Hið árlega Opna Brezhnev-minningarmót í golfi var haldið í níunda sinn um síðustu helgi. Þrjátíu og einn kylfingur lauk keppni - sumir með sóma en aðrir kannski síður. Afskaplega góð þátttaka. Ég sjálfur spilaði á 32 punktum sem ég var þokkalega sáttur við en dugði ekki fyrir vinningssæti. Fékk hins vegar Vellaun - eins og allir þátttakendur, því það er einn siður við þetta mót að allir mæta með Vellaun (já ... það má einungis starfsetja með þessum hætti) í lokuðum og vel merktum plastpoka. Að lokinni keppni er síðan dregið úr skorkortum og fá menn ekki eigin vellaun - að sjálfsgöðu. Ég var svo heppinn í ár að fá heila styttu, konu minni til lítillar hrifingar (enda nóg af styttum á heimilinu); þessi er af fagurri rúsneskri yngismey í herklæðum að hluta. Tengist sem sagt ekkert golfi, en það er líka allt í lagi.

Það eru öfugmæli að kalla mótið Opna Brezhnev mótið, því það er harðlæst. Einungis opið þeim sem fá boð og þeir einir fá boð sem stofnfélagar golfkúbbsins Skugga samþykkja - og alveg sérstaklega formaðurinn sem er afar einráður.  Enda ekki hverjum sem er treystandi til að taka þátt í móti þar sem ein af reglunum er sú að menn geta einu sinni á hverjum hring tekið upp boltan og hent honum eins lagt eða stutt og þá lystir án þess að það teljist högg. En um þessa hendingu gilda afar flóknar reglur.

Að móti loknu var síðan haldin móttaka heima hjá einum félaganum, sem er með hús í Hveragerði. Þar sem hann hefur nú haldið mótttöku tvö ár í röð er hann orðinn heiðursfélagi í golfklúbbnum. Hittist svo vel á að haldnir voru blómadagar í Hveragerði þar sem hápunkturinn er mikil flugeldasýning á laugardagskvöldinu og nutum við hennar eftir allt "erfiði" dagsins. Fóru svo sumir á ball en aðrir í koju og voru þeir síðarnefndu hressari en hinir morguninn eftir.


Óþekktarstrik

Það var síðasti dagur í skólafríi í gær og þá lágum við uppí rúmi letileg eftir að við vöknuðum, ég og tvö yngstu börnin mín. Þau fóru að skrifa og teikna á bakið á mér með fingrinum eins stundum er gert og ég látinn giska á hvað párið merki. Svo bað ég Óðinn, sem er sex ára, að teikna mynd af mér. Hann tók vel í það og dró upp einfaldar útlínur að líkama. Síðan stoppaði hann og krassaði svo margar línur yfir miðhlutann á "teikningunni" á miklum hraða og af talsverðri festu. "Hvað er þetta?" spurði ég. "Þetta eru óþekktarstrikin þín" sagði hann. "Nú?" sagði ég. "Já. Þegar þú varst óþekkur þegar þú varst lítill. Þegar þú varst strákur að stelast og skemma skóna þína og dast næstum í sjóinn og svoleiðis." 

Það er fátt vinsælla á kvöldin en sögur af því þegar pabbi var ungur og óþekkur og framdi einhver prakkarstrik. Í huga barnsins eru þetta orðin æði mörg "óþekktarstrik" sem ég afrekað í æsku.  


Latte!

Mikið óskaplega var ég feginn með niðurstöðuna úr kaffiprófinu sem allir eru að taka þessa dagana: Ég er sem sé Latte, sem merkir:  "Þú ert skapstór og íhaldsamur einstaklingur sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfirðu þér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli. ... Þú samanstendur af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk." Ef niðurstaðan hefði verið önnur, hefði ég líklega ekki sagt frá þessu.

Samkvæmt Matthildi hómópata þá á ég helst hvorugt að drekka, kaffi eða mjólk. Svo ég held það lýsi mér ágætlega að Latte er minn uppáhaldskaffidrykkur og hefur verið um nokkurra ára skeið. Það er alger unaður að útbúa sér stóran Latte og setjast svo út í garðhús eða í stóra stólinn í stofunni um helgar og lesa blöðin. Það er minn tími.

Mér tókst ekki að vista "vottorðið" um að ég væri Latte rétt inn í þessa færslu - en ef þú vilt taka prófið þá er það á slóðinni: http://www.froskur.net/annad/kaffi/ 

Þessi færsla er líka til marks um það að þriggja vikna blogg fríi er lokið og jafnframt að sú ritstjórnarstefna sem tók yfir í sumar verður áfram í gildi: sem sé meira um persónulegt blogg og hversdagsfrásagnir og minna um stjórnmál og samfélag - nema þegar sá gálinn er á manni eða samfélagsmál hrópa á athygli.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.