Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
Uppfærsla á Hávamálum
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Hávamál hafa alltaf staðið mér nærri og mér þótt margt til þeirra mega sækja. Svo er um erindið hér að neðan:
Er-at maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill.
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.
Víst er um það að flestir geta verið af sælir yfir einhverju þótt ekki sé allt eins og best verður á kosið. En þetta er ansi karllægur texti og ekki gert ráð fyrir að menn væru mikið að stæra sig af dætrum sínum eins og ég hefur svolítið verið að gera - nú hvað þá konum sínum!
... svo hér ný ending:
sumur er af dætrum sæll,
sumur af sonum,
sumur af konum,
sumur af sköttum ærum.
Svo til viðbótar við dótturraup í síðustu færslu vil ég benda lesendum á stórgott viðtal við konu mína í Okkar á milli þættinum sem var á dagskrá Rásar 1 21. febrúar og verður hægt að hlusta á um tíma á netinu. Kom í ljós sem ég vissi að hún hefur afar þægilega útvarpsrödd. Sjá: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4390026
Menning og listir | Breytt 25.2.2008 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður dagur hjá Emblunni
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Það má nú ekki minna vera en ég rjúfi tveggja mánaða bloggþögn eftir góðan dag hjá Emblunni í gær. Eins og kemur fram í fréttinni þá fékk hún styrk úr afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ að upphæð 350.000 kr. Þær sjö sem fengu þennan styrk - úr hópi nærri hundrað umsækjenda - eru allar að keppa að því markmiði að komast á Olympíuleikana í Pekíng síðar á þessu ári. Þær munu því allar þurfa að leggja mikið á sig á næstu vikum og mánuðum og svona styrkir auðvelda það og eru líka hvatning. Ég veit að Emblan var ekki síst imponeruð yfir sjóðsstjórninni sem tekur ákvörðun um hverjir fá styrk - allt miklar afrekskonur þar.
En dagurinn var ekki búinn - því þessi styrkveiting fór fram í hádeginu. Eftir æfingu fórum við á Grand Hótel þar sem veittar voru viðurkenningar þeim 570 ungum Íslendingum sem settu Íslandsmet á síðasta ári eða voru Íslandsmeistarar. Fríður flokkur og allir fengu kristalpýramída í boði Spron.
Þá var bara kvöldverðurinn eftir og mér fannst kominn tími til að Emblan fengi afmælisgjöfina sína - sem átti að vera eitthvað fínt út að borða. Hana langaði að prófa Vox - svo þangað fórum við og vorum svo heppin að fá borð þrátt fyrir að Food and fun hátíðin væri að byrja. Við sögðum í gríni að við værum að víga hátíðina því við vorum sest að borði kl. 7 og því fyrst til að panta. Maturinn var auðvitað frábær og við vorum alveg fullsödd þótt við tækjum "bara" 4 rétta matseðilinn, en ekki 8 rétta seðilinn!
Til að toppa daginn þá birtust fínar myndir í íþróttafréttum eftir tíu fréttirnar af Emblunni og Sonju að taka við viðurkenningu og blómum frá því fyrr um daginn. Sem sagt góður dagur og hvetjandi.
Afrekskonur í íþróttum fá styrki á ólympíuári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |