Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
Af kjörsókn og kosningafyrirkomulagi
Mánudagur, 29. nóvember 2010
Kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunum er vonbrigði, hvernig sem á það er litið. En hún þarf ekki að koma mjög mikið á óvart - kynningin og umræða var lítil og fyrirkomulagið hentaði ekki vel. Ég hef ekki viljað gagnrýna fyrirkomulagið fyrr en nú þegar kosningum er lokið og gott að gera það einnig áður en niðurstaðan liggur fyrir. Ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á kjósendur og mögulega kjörsókn og gagnrýni mín nú endurspeglar ekki neitt um útkomu mína í þessum kosningum.
Í fyrsta lagi þá var farið mjög seint af stað með kynninguna af hálfu stjórnvalda og stjórnlaganefndar. Ekki virðist hafa verið unnin neinskonar kynningaráætlun og nefndin hafi ekki gengið frá samstarfi við neina fjölmiðla eða séð fyrir sér hvernig kynningin myndi fara fram. Stóru fjölmiðlarnir brugðust og einn þeirra, Morgunblaðið, lagði sig í líma við að hunsa kosningarnar og hæddist óspart af þeim enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vildi veg þessa þings sem minnstan.
Í öðru lagi stafa kynningarvandræðin að hluta til af þeim mikla fjölda frambjóðenda sem gaf kost á sér og jók mjög á flækjustig kosninganna. En fjöldinn þarf heldur ekki að koma á óvart, því þau regin mistök voru gerð að hafa fjölda meðmælenda aðeins 30 fyrir hvern frambjóðenda. Með því að færa hann upp í þótt ekki væri nema 100 meðmælendur, hefði fjöldi frambjóðenda líklega verið talsvert minni, því þá hefði fólk þurft að fá fleiri en nánustu fjölskyldu og vini til að mæla með sér.
Í þriðja lagi þá var verið að kynna til sögunnar nýtt kosningafyrirkomulag sem hentar engan vegin fyrir kosningar af þessu tagi. Það hvarlar að manni sú samsæriskenningarhugun að þetta hafi verið gert til að rústa öllum hugmyndum um bæði persónukjör og það að gera landið allt að einu kjördæmi. Nú geta menn bent á reynsluna af þessum kosningum og sagt: hvernig haldið þið að það verði ef landið verður eitt kjördæmi og við eigum að kjósa 63 þingmenn af 5 flokka listum sem hver um sig væri með 126 frambjóðendur - svo ekki sé nú talað um ef menn gætu boðið sig fram sem einstaklingar. Það mun engum hugnast að endurtaka þennan leik.
Margir kjósendur tóku þessum kosningum eins og þeir væru að velja hóp á stjórnlagaþing og nýttu sér allar 25 línurnar á kjörseðlinum. Reynsla mín af samtölum við umtalsverðan fjölda kjósenda síðustu sólarhringana fyrir kosningar var sú að menn voru að kynna sér frambjóðendur og setja saman lista - ekki að velja bara þá einstaklinga sem þeim leist best á, heldur hóp af fólki til að takast á við ákveðið verkefni. Margir gættu að kynjahlufalli, bakgrunni í menntun og reynslu, jafnvel aldursdreifingu - öllum þeim þáttum sem ábyrgur kjósandi sem er að velja hóp á að gera, en þá og því aðeins að hann sé að velja hóp. Ég held að það hafi verið mikil mistök að hafa þetta ekki hefðbundið fyrirkomulag þar sem kjósendur völdu sér 25 fulltrúa og þeir 25-31 einstaklingur sem flest fengu atkvæðin kæmust inn. Ég hef nefnilega fulla trú á að flest fólk geti myndað sér skynsamlegar skoðanir og taki þátt í kosningum af fullri ábyrgð. Til þess þarf upplýsingar, tíma til umræðu og umhverfi sem hvetur til þátttöku í ferlinu öllu. Allt af því vantaði og þess vegna má vel líta svo á að 37% kosningaþátttaka sé bara vel við unandi. Enda ekki annað að gera en láta lýðræðið hafa sinn gang og nú stjórnlagaþingið glíma við nýja stjórnarskrá.
Að lokum um umboðið: 83.576 kusu sem þýðir að sætistalan svonefnda er 3.215 atkvæði. Þeir sem ná fjölda atkvæða eru öruggir inn. Til að setja það í samhengi, þá er áttundi þingmaður í Norðvesturkjördæmi með 2.703 atkvæði á bak við sig - eða talsvert færri en þeir sem flest atkvæðin fá til stjórnlagaþings. Þeir þingmenn hafa ekki litið á sig sem umboðslausa og geta því ekki heldur litið á stjórnlagaþingið öðrum augum.
36,77% kosningaþátttaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hátíðardagur lýðræðis
Laugardagur, 27. nóvember 2010
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2010 kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kjarnyrtar konur
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Er ekki bara í góðu lagi að nýta litbrigði íslenskunnar og vera svolítið kjarnyrtur á stundum. Það finnst mér að minnsta kosti. Einhverntíma hafa nú fúkyrði fokið á þingi af minna tilefni en því sem þarna er um rætt.
Hitt er annað mál að það durgar ekki eitt og sér að tala kjarnyrt - þegar menn eru í stjórn þá er ekki óeðlilegt að á eftir orðum komi athafnir stjórnvalda sem hafa einhverjar afleiðingar þarna úti í veruleika fólks og fyrirtækja. Heyrist mér að margir gerist nú helst til langeygðir eftir slíku.
Sagði þá vera drullusokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bjartsýnn því ég hef trú á íslenskri þjóð
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Nú á síðasta degi fyrir kosningar til sjórnlagaþings ætla ég að vera bjartsýnn og segja: treystum íslensku þjóðinni til að velja gott fólk á stjórnlagaþing og almennt til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í sem þjóð.
Afhverju svona bjartsýni? Jú í gær átti ég þess kost að tala við fullt af fólki. Við hjá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB voru með afmælisveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur og veittum verðlaun nokkrum fyrirmyndarverkefnum. Þau sem tilnefnd voru sýndu sinn afrakstur og kynntu starfsemi sína og ég talaði við aðstandendur þeirra. Allir eiga það sameiginlegt að vera fullir af áhuga á því sem þeir eru að gera, hafa trú á sjálfum sér og sjá tækifæri til nýrra og góðra verka í hverju horni. Allt eru þetta verkefni í evrópsku samstarfi en um leið með sjálfstraust fyrir Íslands hönd um að hægt sé að gera betur.
Ég nefni fjögur dæmi um verkefni til að styðja þetta bjartsýnistal:
Stórátak í trjárækt á Íslandi: Fyrsta takmark er að framleitt verði nóg á Íslandi til flestra innanlandsþarfa þannig að ekki þurfi að flytja inn tugi þúsunda jólatrjáa á hverju ári, eða tugi þúsunda tonna af kurli til starfa í járnblendiverksmiðju, svo tvö dæmi séu tekin. Hér er allt til staðar, nóg landsvæði og fólk með verkvit og vilja til að ráðast í stórverkefni. Hér skortir skipulagningu og sýn á þetta sem langtíma fjárfestingu í Íslenskum innviðum.
Samstarf leikskóla og eldri borgara sem getur verið gefandi í báðar átti; eldra fólk í sjálfboðavinnu getur létt undir með starfi leikskólanna, aukið við reynslu og þroska barnanna og síðan færir það því sjálfu lífsfyllingu. Hér áhugi til staðar, nóg af góðum leikskólum og hressum eldriborgurum fjölgar nú ört. Það þarf ekki mikið nýtt fjármagn, heldur skortir bara að brjóta niður stofnanamúra og vinna form á svona fyrirkomulag.
Framleiðsla á íslenskum leir þetta er gamall draumur og hafa verið gerðar tilraunir til að vinna nægilegt magn af íslenskum leir fyrir bæði iðnað og listframleiðslu. En það vantar meiri rannsókna- og þróunarvinnu og aðkomu fjárfesta sem vilja fara inn í langtímaverkefni með hógværri ávöxtunarkröfu.
Bændur og ferðaþjónustan þar sem nýttir eru staðbundnir landkostir bæði til að laða að ferðafólk sem vill skoða og njóta umhverfis og náttúru en einnig til að framleiða matvælin fyrir ferðamennina. Hér eru víða komin af stað átaksverkefni undir kjörorðinu beint frá býli sem endilega þarf að þróa áfram fyrir okkur höfuborgarbúa, svo við höfum nú tilfinningu fyrir því hvaðan maturinn okkar er að koma. En það þarf líka að tengja betur saman ferðaþjónustuna og þessa framleiðslu.
Sem sagt: Á Íslandi skortir hvorki góðar og þjóðlegar hugmyndir né fólk sem hefur áhuga á að framkvæma þær. Þess vegna er ég bjartsýnn og treysti þjóðinni.
Ætlar fólk að kjósa? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Afmælisveisla hjá Menntaáætlun Evrópusambandsins
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Landskrifstofa Menntaáætlunar Evrópusambandsins býður til afmælishófs í Ráðhúsi Reykjavíkur, 25. nóvember kl. 15. - 18. Veitt verður yfirlit yfir umfang og árangur síðustu 15 ára og nokkur fyrirmyndarverkefni fá viðurkenningu. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Komið líf í kosningar utan kjörfundar
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Gott mál að kosning utan kjörfundar sé loks farin að taka við sér. Megin áhyggjur margra frambjóðenda eru að kosningaþátttaka verði léleg og það dragi úr trúverðuleika og áhrifum stjórnlagaþingins. Ég vona samt að sem flestir taki þátt og hvet alla til að kjósa - ekki síður þá sem finnst þetta ekki bráðnauðsynlegt: kosningarnar eru staðreynd og því best að standa eins vel að þeim og hægt er - og velja ábyrgt fólk á þingið sem getur komist að einni sameiginlegri niðurstöðu sem sátt verður um meðal þjóðarinnar.
Nota tækifærið og bendi á agusthjortur.is - heimasíða frambjóðanda 5867
Um 5.500 kosið utan kjörfundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég styð afdráttarlaust náttúruverndarákvæði í nýrri stjórnarskrá
Sunnudagur, 21. nóvember 2010
Félag umhverfisfræðinga hefur sent eftirfarandi spurningu til frambjóðenda til stjórnlagaþings: Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings?
Svar mitt er stutt og fylgir hér:
Ég styð það mjög afdráttarlaust að í stjórnarskránni verði sérstakur náttúrubálkur þar sem verði að finna ákvæði sem:
- tryggja eignarrétt þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum (og að þessu sé ekki hægt að breyta með lögum)
- koma í veg fyrir framsal á hagnýtingarrétti
- setja upp auðlindasjóð sem verður skilgreindur sem eign komandi kynslóða og nýttur til að byggja upp land og náttúru þeim til hagsbóta
- setji nýtingu náttúruauðlinda ramma sem tryggir sjálfbæra nýtingu sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða til sömu náttúrugæða og við njótum.
RÚV breytir stefnu og stendur sig í stykkinu
Laugardagur, 20. nóvember 2010
Það er ánægjulegt að geta hrósað Ríkisútvarpinu - útvarpi allra landsmanna (eftir að hafa kvartað yfir því áður hér í boggi) fyrir að hafa breytt um stefnu og ákveða að gera það sem stofnun ein og RÚV getur ein gert - taka viðtöl við 500 manns!
Var sjálfur í viðtali í morgun og þetta var hin ánægjulegasta reynsla. Var í fimm manna holli þar sem við áttum fátt sameiginlegt nema að vera frambjóðendur og nöfnin okkar byrjuðu á Á. Frekar fyndið.
Þetta verða líklega um tveir sólarhringar af útvarpsefni, en ég er að vona að það myndist svolítil stemming í kringum þetta, kannski ekki ósvipuð og þegar jólakveðjurnar eru lesnar á Gömlu Gufunni og allir komast í hátíðarskap. Það má kannski segja að við séum að fara halda jólahátíð til heiðurs lýðræðinu þann 27. nóvember.
Hvet alla lesendur til að taka þátt í kosningunum - og auðvitað vona ég að sem flestir setji 5867 í 1. sætið.
Frambjóðendur kynna sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Glæsileg verðlaunaathöfn
Föstudagur, 19. nóvember 2010
Afhending Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands var vegleg að vanda. Veitt voru þrenn verðlaun á ólíkum sviðum hagnýtingar þeirrar þekkingar sem starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands fást við að afla og miðla. Lýsing á öllum verðlaunahugmyndinum er að finna í frétt á vef skólans.
Í ávarpi sínu sagði háskólarektor m.a.: "Nýsköpun eða hagnýting þekkingar verður sífellt mikilvægari þáttur í starfi háskóla. Háskóli Íslands hefur að undanförnu lagt mikið kapp á nýsköpun í starfi sínu. Leitað hefur verið skipulega að hagnýtanlegum verkefnum, m.a. í gegnum þessa samkeppni. Undanfarin ár hafa hátt í tvö hundruð verkefni verið metin sérstaklega í þessu skyni. Fjölmörg þeirra hafa getið af sér efnisleg verðmæti og fundið sér farveg í öflugum sprotafyrirtækjum." Það er ekki leiðinlegt að hafa tekið virkan þátt í þessari þróun.
Handrit.is hlýtur Hagnýtingarverðlaun HÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Líf og fjör í athafnaviku
Fimmtudagur, 18. nóvember 2010
Til hamingju með þetta bæði þeir sem hlutu verðlaun og ekki síuðr Marel sem stendur að þessari samkeppni meðal framhaldsskólanema. Þær hafa það hlutverk þessar samkeppnir að hvetja markhópana áfram til að sinna nýsköpun og svo verðlauna þá sem koma með snjallar hugmyndir.
Á morgun veitir Háskóli Íslands einmitt sín Hagnýtingarverðlaun á Nýsköpunarmessu á Háskólatorgi. Allir velkomnir þangað, bæði á kynningar og ekki síður þegar verðlaunin verða afhent.
Snilldarlausnin var pappakassi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |