Evrópskt vísinda- og menntasamstarf hefur skilaði miklum ávinningi fyrir Ísland

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 29. júní 2011 og á visir.is, en er rétt að halda til haga einnig hér: 

Þau merku tímamót áttu sér stað í gær að formlegar samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hófust. Opnaðir voru til samninga 4 af 35 köflum sem semja þarf um – og var tveimur þeirra lokið þegar á fyrsta samningafundi. Það voru kaflarnir um rannsóknir og vísindi annars vegar og menntun og menningu hins vegar. Skýringin á því hversu greiðlega gekk að ganga frá þessum köflum er sú að Ísland hefur tekið fullan og virkan þátt í samstarfi á þessu sviði allar götur frá árinu 1994. Þátttaka hefur verið mikil og árangur góður eins og hér verður rakið.

10  milljarða nettó fjárhagslegur ávinningur

Í súluritinu sem hér fylgir má sjá fjárhagslegt umfang þessa samstarfs eins og það snýr að Íslandi. Súluritið sýnir annars vegar þá styrki sem íslenskir aðilar hafa fengið til samstarfsverkefna á ýmsum sviðum og hins vegar þær fjárhagslega skuldbindingar sem Ísland þarf að standa skil á. Tvennt er fréttnæmt í þessum tölum, sem ekki hafa verið birtar áður opinberlega með þessum hætti: annars vegar er umfang styrkja til íslenskra aðila sem numið hefur um 150 milljónum evra á tímabilinu (um 25 ma.kr. á gengi í júní 2011). Hins vegar sú staðreynd að Ísland hefur öll árin greitt minna í þátttökugjöld en nemur styrkveitingum. Fyrir tímabilið í heild munar meira en 60 milljónum evra – eða um 10 milljörðum króna – sem er nettó fjárhagslegur ávinningur af samstarfinu.

Úthlutaðir styrkir til íslenskra aðila og þátttökugjöld sem Ísland greiðir vegna þátttöku í  samstarfsáætlunum ESB 1995-2010

 Styrkir og þátttökugjöld

(Upplýsingar um úthlutanir styrkja til íslenskra aðila hefur verið safnað saman af greinarhöfundi frá einstökum skrifstofum áætlana og nær til mikils meirihluta styrkja sem úthlutað er, en þó ekki allra styrkja. Því eru tölur um styrkveitingar fremur vantaldar en oftaldar. Upplýsingar um greiðsluskuldbindingar Íslands fengnar frá skrifstofu EFTA í Brussel. Mikill samdráttur í þjóðaframleiðslu 2008-9 skýrir mikla lækkun á skuldbindingum fyrir árið 2010. Allar tölur settar fram í evrum þar sem úthlutanir eru í evrum og skuldbindingar Íslands einnig – fer eftir greiðsluári hvaða upphæð er greidd í íslenskum krónum og hversu mikið fæst fyrir styrkveitingar.)

Ávinningur umfram beina styrki

Beinir styrkir til íslenskra aðila segja þó ekki nema hálfa söguna – og tæplega það. Ekki síður skiptir máli að fá aðgang að þekkingu og samstarfi sem getur verið miklu verðmætara en styrkirnir sjálfir.

Heppilegt er að taka dæmi úr rannsóknageiranum til að skýra þetta nánar. Á s.l. fjórum árum nema rannsókna- og þróunarstyrkir til íslenskra aðila um 26 milljónum evra (liðlega 4 ma.kr. á gengi ársins 2011) til 112 verkefna. Hér er um verulega upphæð að ræða, sem sjá má af því að á sama tíma höfðu tveir meginsjóðir íslensks rannsóknasamfélags Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður samtals til ráðstöfunar 5,5 milljarða króna á verðlagi hvers árs. Sú tala bliknar þó í samanburði við umfang þeirra verkefna sem íslenskir aðilar taka þátt í: heildarstyrkveiting ESB til þessara 112 verkefna er 335 milljónir evra (um 55 ma.kr.). Íslenskir aðilar fá þannig beinan aðganga að rannsókna- og þróunarverkefnum sem eru 12 sinnum umfangsmeiri en þeirra eigin hluti í verkefnunum. Líklegt er að það skili síst minni ávinningi en beinu styrkirnir og efli rannsókna- og þróunarstarf í landinu.

Ávinningur fyrir stofnanir og einstök fyrirtæki

Þátttaka í evrópsku samstarfi færir bæði fyrirtækjum og stofnunum ávinning í formi styrkja og aðgengis að þekkingu, samstarfi og jafnvel nýju starfsfólki. Ef litið er á beinan fjárhagslegan ávinning, er stærsti einstaki íslenski styrkþeginn í rannsóknaráætluninni á síðustu árum fyrirtækið Íslensk erfðagreining. Frá 2007-2010 hefur fyrirtækið fengið úthlutað um 8,6 milljónum evra í styrki (um 1,4 ma.kr.). Varla þarf að fjölyrða að þetta hefur skipt máli í rekstri fyrirtækisins sérstaklega í því umhverfi sem verið hefur frá síðari hluta árs 2008. En þessi árangur er einnig til marks um að fyrirtækið er að vinna að verkefnum sem þykja markverð og eru styrkhæf í opinni samkeppni við bestu fyrirtæki og stofnanir í Evrópu.

Næst stærsti styrkþegi 7. rannsóknaáætlunar ESB er Háskóli Íslands sem á síðustu 4 árum hefur fengið úthlutað meira en 6 milljónum evra (ríflega 1 ma.kr.). Það er mikilvæg viðbót við rannsóknafé skólans – sérstaklega á tímum mikils niðurskurðar – en ekki skiptir minna máli aðgengi að evrópsku rannsóknasamstarfi. Nýdoktorar sem koma til starfa við íslensku háskólana með styrk frá ESB bæta mikilvægri og alþjóðlegri vídd við það rannsóknastarf sem þar á sér stað.

Ávinningur fyrir marga einstaklinga

Telja má víst að vel yfir 20.000 Íslendingar hafi tekið beinan þátt í evrópsku samstarfi síðustu 16 árin sem eru umtalsverður fjöldi. Flóran er fjölbreytt: Frá þátttöku í rannsókna- og þróunarverkefnum til nokkurra ára, til náms við evrópska háskóla í eina önn eða starfsþjálfun í fyrirtæki um nokkurra vikna skeið til stuttra námsheimsókna t.d. um nýjungar í kennsluháttum. Allt hefur þetta bein áhrif á þekkingu og hæfni viðkomandi einstaklinga sem læra og þroskast og verða vonandi færari um að leggja sitt af mörkum til samfélagsins síðar.

Ekki eru til tæmandi tölur um fjölda einstaklinga sem fengið hafa styrki og því er um rökstudda áætlun að ræða. Stærsta áætlunin á þessu sviði er Menntaáætlun ESB en frá 1995 hafa meira en 13.000 Íslendingar fengið styrki til náms- og starfsdvala í Evrópuríkjum í mislangan tíma. Stærstu hóparnir þar eru nemendur og kennarar úr framhalds- og háskólum en fjölbreytnin er mikil. Þetta sést vel á meðfylgjandi töflu sem sýnir skiptingu styrkþega á ólíkum skólastigum eftir árum. Það sést einnig að talsverð aukning á sér stað eftir 2007 þegar ný menntaáætlun hóf göngu sína.

Fjöldi íslenskra styrkþega Menntaáætlunar ESB 1995-2010

Mynd um fjölda styrkþega í menntaáætlun ESB

(Upplýsingar frá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB)

Næst stærst er ungmennaáætlun ESB sem veitir styrki til hundruða einstaklinga árlega, til ungmennaskipta, frumkvæðisverkefna og sjálfboðaliðastarfa. Þá er ótaldir þeir einstaklingar sem tekið hafa þátt í yfir 500 rannsókna- og þróunarverkefnum sem íslenskir aðilar hafa fengið styrki til s.l. 16 ár, en í flestum tilfellum er um nokkurn fjölda þátttakenda að ræða í hverju verkefni. Á grundvelli þessa er óhætt að fullyrða að fjölda einstaklinga sem hafa tekið beinan þátt sé kominn vel yfir 20.000.

Breytist eitthvað við ESB aðild?

Sá árangur sem að framan er rakinn rennir stoðum undir þá fullyrðingu að mikill fjöldi Íslendinga hafi með beinum hætti notið ávinnings af evrópsku samstarfi og það eigi einnig við um stofnanir og fyrirtæki. Spurningin sem vaknar er því eðlilega sú hvort aðild að ESB hefði einhver áhrif á þetta samstarf – ef til aðildar kemur. Svarið er einfalt og á við um fleiri svið EES samstarfsins: við fengjum fullan aðgang og þátttökurétt í stefnumótun og ákvörðunum um forgangsröðun og áherslur við mótun nýrra áætlana sem við höfum ekki haft fram til þessa.

Þátttaka okkar í rannsókna, mennta- og menningarsamstarfi tryggir okkur rétt til styrkja á samkeppnisgrunni og við eigum áheyrnarfulltrúa í stjórnarnefndum og ráðum. En við höfum ekkert atkvæði þegar til ákvarðana kemur og það hefur gerst að fulltrúum annarra en ESB ríkja er gert að yfirgefa fundi meðan formlegar ákvarðanir eru teknar. Þá höfum við heldur ekki aðgang að þeim vettvangi undir ráðherraráði ESB þar sem framtíðaráætlanir eru mótaðar og þar sem mestu skiptir að halda hagsmunum okkar á lofti. Eftir því sem þeim ríkjum fjölgar sem vilja taka þátt í rannsókna- og menntasamstarfi afmarkar ESB enn betur þátttöku og aðkomu að ákvarðanatöku. Óbreytt staða mun því líklega fela í sér jafnvel enn minni áhrif en við höfum þó getað haft með óbeinum hætti fram til þessa.

Fullgildir þátttakendur og höfum margt fram að færa

Reynslan af þeim 16 árum sem liðin eru í evrópsku samstarfi á fjölmörgum sviðum færir okkur heim sanninn um tvennt. Annars vegar að íslenskir aðilar eru fullfærir um að standa sig vel í opinni evrópskri samkeppni þar sem sömu leikreglur og viðmið gilda fyrir alla. Okkur hefur gengið vel að sækja styrki og fáum þar meira en við leggum til. Hins vegar sýnir reynslan að við höfum margt fram að færa (sem er líklega skýringin á því hversu vel okkur gengur að afla styrkja). Þetta má sjá í þeim mikla fjölda evrópskra nemenda sem sækist eftir skólavist við íslenska háskóla, á velgengni verkefna með íslenskri þátttöku og því í hve mörgum tilvikum íslenskar stofnir hafa tekið að sér leiðandi hlutverk í krefjandi samstarfsverkefnum.

Þetta skiptir ekki síst máli í ljósi samninga um mögulega aðild Íslands að ESB. Við getum og eigum að ganga til slíkra samninga hnarreistir í fullvissu þess að við höfum margt fram að færa og að okkar samningsstaða sé því sterk.

Vísar fyrsta samningsreynslan veginn?

Fyrsta reynslan af samningsviðræðum ýtir undir þessa skoðun. Bæði helstu samningsmarkmið sem Ísland settir sér fyrir þessa tvo kafla náðu fram að ganga: Fyrra atriðið er að Íslendingar munu ekki þurfa að greiða stofnframlag í s.k. kola- og stálrannsóknasjóð þótt gert sé ráð fyrir að ný aðildarríki geri það. Hér fékkst undanþága frá almennu reglunni á grundvelli þess að enginn slíkur iðnaðar er á Íslandi og því ástæðulaust að við greiðum fyrir aðgengi að rannsóknum sem tæpast nýtast okkur. Síðara atriðið mun skipta miklu fleiri máli, en það er að Íslendingar munu sitja við saman borð og aðrar ESB þjóðir hvað varðar skólagjöld í Bretlandi. Fram til þessa hafa Íslendingar greitt þar full skólagjöld, sem hefur þýtt að mun færri hafa getað sótt sé menntun þangað en ella hefði verið. Það mun breytast til batnaðar komi til aðildar.


Enn ein rós í hnappagat CCP

Ég teysti því að einhver starfsmaður CCP hafi það verkefni með höndum að skrá þær viðurkenningar og verðlaun sem EVE Online leikurinn og fyrirtækið hafa fengið ... því ég er búinn að missa tölu á þeim þótt ég fylgist af athygli með fréttaflutningi af þessu skemmtilega fyrirtæki. En þótt fréttir eins og þessi fari bráðum að verða hversdagslegar þá eru þær síður en svo sjálfsagðar því samkeppnin á þessum markaði er mjög hörð. Merkilegt einnig að spilarar hafi valið leikinn sem frumlegasta leikinn - þótt hann sé búinn að vera í gangi í nokkur ár. Það sýnir vel sérstöðu leiksins, þar sem sífellt er verið að kynna til sögunnar nýjungjar og þróa leikinn áfram um leið og byggt er á þeim grunni að það eru í raun spilararnir sjálfir sem ráða ferðinni.

Svo það er full ástæða til að óska CCP til hamingju með þessa tilnefningu og minna á hversu mikil Íslandskynning felst í leiknum þar sem allir nota ISK í sínum viðskiptum og koma síðan stormandi til Íslands í hundraðavís á hverju ári. Það hefur jákvæð áhrif á hina raunverulegu krónu.


mbl.is EVE Online frumlegasti leikur ársins 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona vinnubrögð kalla á viðbrögð forseta þingsins

Þar sem ég þekki til er myndefni úr öryggismyndavélum geymt í ákveðinn tíma og síðan eytt sjálfkrafa ef ekki er ástæða til að geyma það. Átök og stympingar eins og urðu í andyri og á þingpöllum þennan dag þætti yfirleitt næg ástæða til að geyma efnið - og sér í lagi ef það væri kært til lögreglu.

Hér hefur starfsmaður þingsins upp á sitt einsdæmi ákveðið að eyða öllu nema völdum bút. EF hann hefur ákveðið þetta algerlega sjálfur á skrifstofustjóri Alþingis að áminna hann og fara vel yfir hvort efnisleg rök séu til að segja honum upp störfum. EF hann hefur ekki verið einn í ráðum á forseti Alþingis að kalla skrifstofustjóra þingsins á teppið. Komi í ljós að skrifstofustjórinn hafi haft hönd í bagga með þessari óeðlilegu og óúrskýrðu útþurkun þá á hann sjálfur að sæta áminningu og víkja ber honum úr starfi á meðan þetta mál er rannsakað. 

Það er nefnilega oftast þannig að ef menn eru að eyða gögnum þá er það til marks um að þeir hafa eitthvað að fela. Þar sem starfsmenn Alþingis eru einmitt það, starfsmenn þingsins og starfa á ábyrgð þess er mikilvægt að forseti Alþingis skýri hver ber ábyrgð á því að þessum gögnum var eytt og þeir sem það gera taki þeim afleiðingum sem eru við hæfi. Hér með er skorað á Ástu R. Jóhannesdóttur að gera það nú þegar.


mbl.is Aðeins bútur til af myndskeiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Við komumst út úr góskunni á þvermóðskunni og þrjóskunni / Lyftum nú skál fyrir Íslandi og öllum kostunum óteljandi“

Hér kemur síðbúin nýárskveðja til vina og vandamanna og annarra lesenda að þessu bloggi sem verður virkt á nýju ári 2011 fyrir einræður mínar um ýmis áhugamál og stöku athugasemdir um dægurmál. Svo verður bætt jafn óðum í myndasafnið til að krydda þetta aðeins.

Nýárskveðja sú besta í ár finnst mér vera lokalagið og hvatingarsöngurinn í Áramótaskaupi Sjónvarpsins sem flutt var frábæralega af Ágústu a.k. Sylvíu Nótt sem er endurfædd sem mögulega skeleggur talsmaður jákvæðra breytinga.

„Gleðilegt nýár

Hey hey
Haldið þið kjafti!
Finnst ykkur alveg eðlilegt
að ropa hérna og röfla
í ræðustólnum eins og af gömlum vana.
Það er ekki allt með felldu
þegar úti brennur eldur
og fyrir innan situr þingmaðurinn
algjörlega geldur.
Væri ekki skynsamlegt
að hætta að berja hver á öðrum
og hleypa lofti úr þessum
pólitísku prumpufýlublöðrum?

Á meðan skattmann, Loki og skrattarnir
skreyta börnin okkar með hlekkjum
út af skuldavanda byggðum
á gömlum reikniskekkjum.
Við viljum ekki heyra um fleiri
afskrftir á lánunum
hjá útvöldum víkinguum,
skrúðkrimmunum – kjánunum.
Þessum sjúku aurapúkum með
kúkinn upp á bakinu
sem stungu síðan af og skildu
þig eftir í brakinu.

En æ því miður, enginn friður,
okkur þarf að skera niður.
Ójöfn þessi kaka, alveg svaka.
En við höfum líka hrakist fyrr á klakanum
og komið sterk til baka.
Við sofnuðum á verðinum
en í kvöld skulum við vaka.

Nýár!

Neitum því sem vert er að neita
og byrjum að breyta.

Gleðilegt nýár!

Við skulum varpa því versta
og virkja okkar besta.


Gleðilegt nýár!

Við megum ekki gleyma í þessu annarlega ástandi.
Við erum færri en íbúar einnar götu í einhverju útlandi.
Nokkur þúsund hræður eins og systur öll og bræður.
Kyndum nýtt bál og blásum lífi í gamlar glæður.
Nýtum okkur fámennið og tökum saman höndunum,
það er líka allt í fokki í fullt af hinum löndunum.
Í Portúgal, Bretlandi, Írlandi, Grikklandi
og ameríski draumurinn í dauðateygjum spriklandi.

En hér vil ég vera og beinin mín bera
hér er svo margt gott sem við verðum að gera.
Þessi vísitölukrakki er ekki vandamálapakki
Heldur kynslóðin sem ætlar sér að erfa allt heila klabbið.
Því framtíðin, hún bíður
og framtíðin býður ekki upp á sömu mistök og við gerðum,
ég held nú síður
Skrifum söguna upp á nýtt og snúum baki við bófunum.
Dönsum út á götu og gefum high-five með lófunum.

Nýár!

Kollvörpum og köstum á bálið
fyrir íslenska stálið.

Gleðilegt nýár!

Nú framtíðinni við fögnum
og faðmlögin mögnum.

Gleðilegt nýár!

Hey standið upp úr stólunum
í stífpressuðum kjólunum
hendið slæmum hugsunum
og haldið rassi í buxunum.
Í innhverfum og úthverfum,
í áramótapartýjum,
faðmið allar frænkurnar,
finnið síðan sprengjurnar
og hamrið upp í himininn
ykkar heitustu óskir.
„Við komumst út úr góskunni
á þvermóðskunni og þrjóskunni“
Og með samvinnu og samtöðu
og samhjálp og bara sam... hvað sem er!

Nýár!

Sérhagsmunaklíkurnar kveðjum
Og kynslóðir gleðjum.
Gleðilegt nýár!
Við skulum takast í hendur
Vinir og féndur!
Gleðilegt nýár!

Lyftum nú skál fyrir Íslandi
og öllum kostunum óteljandi
Því þrátt fyrir allt vil ég vera
Bara ævinlega hér og með ykkur, hér, hér!

Gleðilegt nýár!
Fortíðina fagnandi kveðjum
á framtíð svo veðjum
Gleðilegt nýár!
En ötla vitleysa hetta [hljóma eins og færeyska]
minnumst þá þessa
Gleðilegt nýár!“

Höfundarréttur RÚV og handritshöfundar. Hægt er að horfa á Skaupið á vef RÚV: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4569077/2010/12/31/ 


Af kjörsókn og kosningafyrirkomulagi

Kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunum er vonbrigði, hvernig sem á það er litið. En hún þarf ekki að koma mjög mikið á óvart - kynningin og umræða var lítil og fyrirkomulagið hentaði ekki vel. Ég hef ekki viljað gagnrýna fyrirkomulagið fyrr en nú þegar kosningum er lokið og gott að gera það einnig áður en niðurstaðan liggur fyrir. Ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á kjósendur og mögulega kjörsókn og gagnrýni mín nú endurspeglar ekki neitt um útkomu mína í þessum kosningum.

Í fyrsta lagi þá var farið mjög seint af stað með kynninguna af hálfu stjórnvalda og stjórnlaganefndar. Ekki virðist hafa verið unnin neinskonar kynningaráætlun og nefndin hafi ekki gengið frá samstarfi við neina fjölmiðla eða séð fyrir sér hvernig kynningin myndi fara fram. Stóru fjölmiðlarnir brugðust og einn þeirra, Morgunblaðið, lagði sig í líma við að hunsa kosningarnar og hæddist óspart af þeim enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vildi veg þessa þings sem minnstan.

Í öðru lagi stafa kynningarvandræðin að hluta til af þeim mikla fjölda frambjóðenda sem gaf kost á sér og jók mjög á flækjustig kosninganna. En fjöldinn þarf heldur ekki að koma á óvart, því þau regin mistök voru gerð að hafa fjölda meðmælenda aðeins 30 fyrir hvern frambjóðenda. Með því að færa hann upp í þótt ekki væri nema 100 meðmælendur, hefði fjöldi frambjóðenda líklega verið talsvert minni, því þá hefði fólk þurft að fá fleiri en nánustu fjölskyldu og vini til að mæla með sér.

Í þriðja lagi þá var verið að kynna til sögunnar nýtt kosningafyrirkomulag sem hentar engan vegin fyrir kosningar af þessu tagi. Það hvarlar að manni sú samsæriskenningarhugun að þetta hafi verið gert til að rústa öllum hugmyndum um bæði persónukjör og það að gera landið allt að einu kjördæmi. Nú geta menn bent á reynsluna af þessum kosningum og sagt: hvernig haldið þið að það verði ef landið verður eitt kjördæmi og við eigum að kjósa 63 þingmenn af 5 flokka listum sem hver um sig væri með 126 frambjóðendur - svo ekki sé nú talað um ef menn gætu boðið sig fram sem einstaklingar. Það mun engum hugnast að endurtaka þennan leik.

Margir kjósendur tóku þessum kosningum eins og þeir væru að velja hóp á stjórnlagaþing og nýttu sér allar 25 línurnar á kjörseðlinum. Reynsla mín af samtölum við umtalsverðan fjölda kjósenda síðustu sólarhringana fyrir kosningar var sú að menn voru að kynna sér frambjóðendur og setja saman lista - ekki að velja bara þá einstaklinga sem þeim leist best á, heldur hóp af fólki til að takast á við ákveðið verkefni. Margir gættu að kynjahlufalli, bakgrunni í menntun og reynslu, jafnvel aldursdreifingu - öllum þeim þáttum sem ábyrgur kjósandi sem er að velja hóp á að gera, en þá og því aðeins að hann sé að velja hóp. Ég held að það hafi verið mikil mistök að hafa þetta ekki hefðbundið fyrirkomulag þar sem kjósendur völdu sér 25 fulltrúa og þeir 25-31 einstaklingur sem flest fengu atkvæðin kæmust inn. Ég hef nefnilega fulla trú á að flest fólk geti myndað sér skynsamlegar skoðanir og taki þátt í kosningum af fullri ábyrgð. Til þess þarf upplýsingar, tíma til umræðu og umhverfi sem hvetur til þátttöku í ferlinu öllu. Allt af því vantaði og þess vegna má vel líta svo á að 37% kosningaþátttaka sé bara vel við unandi. Enda ekki annað að gera en láta lýðræðið hafa sinn gang og nú stjórnlagaþingið glíma við nýja stjórnarskrá.

Að lokum um umboðið: 83.576 kusu sem þýðir að sætistalan svonefnda er 3.215 atkvæði. Þeir sem ná fjölda atkvæða eru öruggir inn. Til að setja það í samhengi, þá er áttundi þingmaður í Norðvesturkjördæmi með 2.703 atkvæði á bak við sig - eða talsvert færri en þeir sem flest atkvæðin fá til stjórnlagaþings. Þeir þingmenn hafa ekki litið á sig sem umboðslausa og geta því ekki heldur litið á stjórnlagaþingið öðrum augum.


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðardagur lýðræðis

Það er frostfagur vetrardagur tæpum 92 árum eftir að Íslendingar fengu fullveldi þegar við göngum loks að kjörborðinu og veljum okkur fólk til að setja okkur sjálf grunnlög. Þetta er hátíðardagur fyrir lýðræði á Íslandi og ég vona að sem flestir njóti hans og mæti á kjörstað.

Þátttaka í kosningum utan kjörfundar var mjög góð síðustu dagana sem gefur vonir um að á heildina verði kosningaþátttakan góð þrátt fyrir talsverðar úrtöluraddir um að þingið sé óþarfi og bruðl. Og hvað telst svo góð kjörsókn? 

Undir 50% kjörsókn eru mikil vonbrigði og draga úr trúverðuleika þingsins - það væri sigur fyrir fúla kallinn sem frambjóðendurnir hafa verið að biðja almenning að hlusta ekki á.

Yfir 60% kjörsókn er gott í ljósi þess að hér er um algert nýmæli að ræða og mörgum finnst þetta flólkið fyrirkomulag að hafa eitt atkvæði en geta samt í reynd valið allt að 24 varamenn. 67% kjörsókn væri mjög góð og það sem ég vonast til að verði reyndin því þá sendur góður meirihluti að baki störfum þess.

Svo ég skunda nú bjartsýnn á kjörstað með minni fjölskyldu - með 5867 í efsta sæti en 24 aðra frambjóðendur til vara Wink


mbl.is Kosning hófst almennt kl. 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnyrtar konur

Er ekki bara í góðu lagi að nýta litbrigði íslenskunnar og vera svolítið kjarnyrtur á stundum. Það finnst mér að minnsta kosti. Einhverntíma hafa nú fúkyrði fokið á þingi af minna tilefni en því sem þarna er um rætt.

Hitt er annað mál að það durgar ekki eitt og sér að tala kjarnyrt - þegar menn eru í stjórn þá er ekki óeðlilegt að á eftir orðum komi athafnir stjórnvalda sem hafa einhverjar afleiðingar þarna úti í veruleika fólks og fyrirtækja. Heyrist mér að margir gerist nú helst til langeygðir eftir slíku.


mbl.is Sagði þá vera drullusokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartsýnn því ég hef trú á íslenskri þjóð

Nú á síðasta degi fyrir kosningar til sjórnlagaþings ætla ég að vera bjartsýnn og segja: treystum íslensku þjóðinni til að velja gott fólk á stjórnlagaþing og almennt til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í sem þjóð.

Afhverju svona bjartsýni? Jú í gær átti ég þess kost að tala við fullt af fólki. Við hjá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB voru með afmælisveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur og veittum verðlaun nokkrum fyrirmyndarverkefnum. Þau sem tilnefnd voru sýndu sinn afrakstur og kynntu starfsemi sína og ég talaði við aðstandendur þeirra. Allir eiga það sameiginlegt að vera fullir af áhuga á því sem þeir eru að gera, hafa trú á sjálfum sér og sjá tækifæri til nýrra og góðra verka í hverju horni. Allt eru þetta verkefni í evrópsku samstarfi en um leið með sjálfstraust fyrir Íslands hönd um að hægt sé að gera betur.

Ég nefni fjögur dæmi um verkefni – til að styðja þetta bjartsýnistal:

Stórátak í trjárækt á Íslandi: Fyrsta takmark er að framleitt verði nóg á Íslandi til flestra innanlandsþarfa þannig að ekki þurfi að flytja inn tugi þúsunda jólatrjáa á hverju ári, eða tugi þúsunda tonna af kurli til starfa í járnblendiverksmiðju, svo tvö dæmi séu tekin. Hér er allt til staðar, nóg landsvæði og fólk með verkvit og vilja til að ráðast í stórverkefni. Hér skortir skipulagningu og sýn á þetta sem langtíma fjárfestingu í Íslenskum innviðum.

Samstarf leikskóla og eldri borgara – sem getur verið gefandi í báðar átti; eldra fólk í sjálfboðavinnu getur létt undir með starfi leikskólanna, aukið við reynslu og þroska barnanna og síðan færir það því sjálfu lífsfyllingu. Hér áhugi til staðar, nóg af góðum leikskólum og hressum eldriborgurum fjölgar nú ört. Það þarf ekki mikið nýtt fjármagn, heldur skortir bara að brjóta niður stofnanamúra og vinna form á svona fyrirkomulag.

Framleiðsla á íslenskum leir – þetta er gamall draumur og hafa verið gerðar tilraunir til að vinna nægilegt magn af íslenskum leir fyrir bæði iðnað og listframleiðslu. En það vantar meiri rannsókna- og þróunarvinnu og aðkomu fjárfesta sem vilja fara inn í langtímaverkefni með hógværri ávöxtunarkröfu.

Bændur og ferðaþjónustan – þar sem nýttir eru staðbundnir landkostir bæði til að laða að ferðafólk sem vill skoða og njóta umhverfis og náttúru en einnig til að framleiða matvælin fyrir ferðamennina. Hér eru víða komin af stað átaksverkefni undir kjörorðinu „beint frá býli“ sem endilega þarf að þróa áfram fyrir okkur höfuborgarbúa, svo við höfum nú tilfinningu fyrir því hvaðan maturinn okkar er að koma. En það þarf líka að tengja betur saman ferðaþjónustuna og þessa framleiðslu.

Sem sagt: Á Íslandi skortir hvorki góðar og þjóðlegar hugmyndir né fólk sem hefur áhuga á að framkvæma þær. Þess vegna er ég bjartsýnn og treysti þjóðinni.


mbl.is Ætlar fólk að kjósa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisveisla hjá Menntaáætlun Evrópusambandsins

Landskrifstofa Menntaáætlunar Evrópusambandsins býður til afmælishófs í Ráðhúsi Reykjavíkur, 25. nóvember kl. 15. - 18. Veitt verður yfirlit yfir umfang og árangur síðustu 15 ára og nokkur fyrirmyndarverkefni fá viðurkenningu. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Afmælisveisla Menntaáætlunar ESB


Komið líf í kosningar utan kjörfundar

Gott mál að kosning utan kjörfundar sé loks farin að taka við sér. Megin áhyggjur margra frambjóðenda eru að kosningaþátttaka verði léleg og það dragi úr trúverðuleika og áhrifum stjórnlagaþingins. Ég vona samt að sem flestir taki þátt og hvet alla til að kjósa - ekki síður þá sem finnst þetta ekki bráðnauðsynlegt: kosningarnar eru staðreynd og því best að standa eins vel að þeim og hægt er - og velja ábyrgt fólk á þingið sem getur komist að einni sameiginlegri niðurstöðu sem sátt verður um meðal þjóðarinnar.

Nota tækifærið og bendi á agusthjortur.is  - heimasíða frambjóðanda 5867


mbl.is Um 5.500 kosið utan kjörfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband