Opna Brezhnev-minningarmótið
Mánudagur, 27. ágúst 2007
Hið árlega Opna Brezhnev-minningarmót í golfi var haldið í níunda sinn um síðustu helgi. Þrjátíu og einn kylfingur lauk keppni - sumir með sóma en aðrir kannski síður. Afskaplega góð þátttaka. Ég sjálfur spilaði á 32 punktum sem ég var þokkalega sáttur við en dugði ekki fyrir vinningssæti. Fékk hins vegar Vellaun - eins og allir þátttakendur, því það er einn siður við þetta mót að allir mæta með Vellaun (já ... það má einungis starfsetja með þessum hætti) í lokuðum og vel merktum plastpoka. Að lokinni keppni er síðan dregið úr skorkortum og fá menn ekki eigin vellaun - að sjálfsgöðu. Ég var svo heppinn í ár að fá heila styttu, konu minni til lítillar hrifingar (enda nóg af styttum á heimilinu); þessi er af fagurri rúsneskri yngismey í herklæðum að hluta. Tengist sem sagt ekkert golfi, en það er líka allt í lagi.
Það eru öfugmæli að kalla mótið Opna Brezhnev mótið, því það er harðlæst. Einungis opið þeim sem fá boð og þeir einir fá boð sem stofnfélagar golfkúbbsins Skugga samþykkja - og alveg sérstaklega formaðurinn sem er afar einráður. Enda ekki hverjum sem er treystandi til að taka þátt í móti þar sem ein af reglunum er sú að menn geta einu sinni á hverjum hring tekið upp boltan og hent honum eins lagt eða stutt og þá lystir án þess að það teljist högg. En um þessa hendingu gilda afar flóknar reglur.
Að móti loknu var síðan haldin móttaka heima hjá einum félaganum, sem er með hús í Hveragerði. Þar sem hann hefur nú haldið mótttöku tvö ár í röð er hann orðinn heiðursfélagi í golfklúbbnum. Hittist svo vel á að haldnir voru blómadagar í Hveragerði þar sem hápunkturinn er mikil flugeldasýning á laugardagskvöldinu og nutum við hennar eftir allt "erfiði" dagsins. Fóru svo sumir á ball en aðrir í koju og voru þeir síðarnefndu hressari en hinir morguninn eftir.
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.9.2007 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Óþekktarstrik
Fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Það var síðasti dagur í skólafríi í gær og þá lágum við uppí rúmi letileg eftir að við vöknuðum, ég og tvö yngstu börnin mín. Þau fóru að skrifa og teikna á bakið á mér með fingrinum eins stundum er gert og ég látinn giska á hvað párið merki. Svo bað ég Óðinn, sem er sex ára, að teikna mynd af mér. Hann tók vel í það og dró upp einfaldar útlínur að líkama. Síðan stoppaði hann og krassaði svo margar línur yfir miðhlutann á "teikningunni" á miklum hraða og af talsverðri festu. "Hvað er þetta?" spurði ég. "Þetta eru óþekktarstrikin þín" sagði hann. "Nú?" sagði ég. "Já. Þegar þú varst óþekkur þegar þú varst lítill. Þegar þú varst strákur að stelast og skemma skóna þína og dast næstum í sjóinn og svoleiðis."
Það er fátt vinsælla á kvöldin en sögur af því þegar pabbi var ungur og óþekkur og framdi einhver prakkarstrik. Í huga barnsins eru þetta orðin æði mörg "óþekktarstrik" sem ég afrekað í æsku.
Latte!
Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Mikið óskaplega var ég feginn með niðurstöðuna úr kaffiprófinu sem allir eru að taka þessa dagana: Ég er sem sé Latte, sem merkir: "Þú ert skapstór og íhaldsamur einstaklingur sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfirðu þér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli. ... Þú samanstendur af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk." Ef niðurstaðan hefði verið önnur, hefði ég líklega ekki sagt frá þessu.
Samkvæmt Matthildi hómópata þá á ég helst hvorugt að drekka, kaffi eða mjólk. Svo ég held það lýsi mér ágætlega að Latte er minn uppáhaldskaffidrykkur og hefur verið um nokkurra ára skeið. Það er alger unaður að útbúa sér stóran Latte og setjast svo út í garðhús eða í stóra stólinn í stofunni um helgar og lesa blöðin. Það er minn tími.
Mér tókst ekki að vista "vottorðið" um að ég væri Latte rétt inn í þessa færslu - en ef þú vilt taka prófið þá er það á slóðinni: http://www.froskur.net/annad/kaffi/
Þessi færsla er líka til marks um það að þriggja vikna blogg fríi er lokið og jafnframt að sú ritstjórnarstefna sem tók yfir í sumar verður áfram í gildi: sem sé meira um persónulegt blogg og hversdagsfrásagnir og minna um stjórnmál og samfélag - nema þegar sá gálinn er á manni eða samfélagsmál hrópa á athygli.
Bloggar | Breytt 23.8.2007 kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frægðarsól
Mánudagur, 30. júlí 2007
Rock Off - gerið þið svo vel:
http://youtube.com/watch?v=kuLHYRXlZYE
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Upprisinn - en ekki á fullum krafti
Föstudagur, 20. júlí 2007
Eftir tíu daga pillukúr er talsvert farið að réttast úr mér og ég get staðið uppréttur án þess að vera með sérstakt belti um mig miðjan. Get þó ekki sagt að þetta hafi gert mér neitt gott. Fullur dagskammtur af parkódíni gerir mann sljóan, framtakslausan og dapran. Vonandi er þetta að rjátlast af mér - er allavega mættur í vinnuna og byrjaður að ráðasta á það sem þarf að klára áður en seinni hálfleikur í sumarfríi tekur við.
Það er líka rólegt á þjóðlífsvígstöðvunum og því hefur ekki verið mikil ástæða til að vera að kommentera á málefni líðandi stundar. Má þó til með að nefna tvö mál.
Annað er verð á áfengi. Kannski er þetta bara populismi hjá stjórnmálamönnum sem vita að fólk er þessa dagana að bölsóttast yfir verðinu á guðaveigunum með grillmatnum - en vonandi kemur eitthvað út úr þessu og verðlag verður samræmt því sem það er annars staðar á N-Evrópusvæðinu. Neyslustýring gegnum verð virkar ekki nema þá helst í vitlausa átt. Þá er bara að minna viðskiptaráðherra og annað gott fólk á þetta þegar kemur að þingstörfum í haust; það væri ekki amarleg jólagjöf að lækka áfengisgjaldið svolítið í byrjun desember.
Hitt er utanríkisráðherrann okkar. Nú strax er það byrjað að gerast sem mörg okkar óttuðust og er kannski algerlega óumflýjanlegt. Þegar fólk fer í þetta embætti fær það tækifærifæri til að kynnast heiminum á annan og nánari hátt en flest okkar. Og allar venjulegar manneskjur sjá að þessu stóru geopólitísku mál eru miklu stærri og alvarlegri en okkar vandamál og menn fyllast áhuga og eldmóði að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið. Maður þarf eiginlega að vera eitthvað skrýtinn til að þetta gerist ekki. Og nú hefur Ingibjörg Sólrún fengið að kynnast af eigin raun einu af þessum stóru málum sem hafa áhrif á svo margt í stórríkjapólitíkinni og þá mun hún sjá viðfangsefni og vandamál hér á Íslandi í nýju ljósi. Hún er líka nýkomin frá Afríku þar sem vandamálin og viðfangsefnin virðast næstum óleysanleg. Vangaveltur um hátt áfengis- eða matvælaverð verða óskaup hjáróma gagnvart hungri og alvöru eymd. Kröfur um einstaklingsherbergi á elliheimilum hljóma ekki mjög brýnar þegar maður er nýkominn frá landi þar sem fæstir ná því að komast á elliár og elliheimili eru nær óþekkt fyrirbæri. Svo það er bara mannlegt að sjónarhornið og áherslurnar breytist. Við verðum bara að vona að Ingibjörg Sólrún gleymi ekki sínu sögulega hlutverki í íslenskri pólitík, þótt að veraldarsviðið sé vissulega bæði stærra og meira spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Póstkort úr bælinu
Föstudagur, 13. júlí 2007
Þegar lífið slær mann út um stundarsakir þarf maður að fara í allt annan hrynjanda en maður er vanur. Þegar maður liggur í rúminu og getur sig eiginlega ekki hrært þá fer maður í annan gír og hlustar á umhverfishljóðin, öskukallana, börnin sem ganga framhjá og umferðarnið í fjarska, stundum sírenur en mestu þó fjarlægur niður og svo hlustar maður á Gufuna - gömlu góðu Gufuna sem er alltaf þarna fyrir mann þegar á þarf að halda.
Ég er búinn að liggja flatur í fjóra sólahringa eftir að hafa tognað illa í baki og mitt í verkjartöflumókinu hef ég hlustað á sögu af finnskum dreng og á gamlan upplestur Nóberlsskáldsins, óþolandi nútímatónlist og yndislegan jazz og svo óteljandi stutta fréttatíma að ekki sé nú minnst á veðurfréttir og dánartilkynningar frá upphafi til enda. Ég held ekki að þetta séu ellimerki - þegar maður er ekki alveg í fjórða gírnum þá vill maður ekki hlusta á það tempó sem er á flestum hinum útvarpsstöðvunum; maður er ekkert rosalega hress og fílar fátt í botn - allra síst ýkta og ofurhressa útvarpsþuli. Neib þá hentar Gufan. Kannski eru þeir bara nokkuð margir sem hentar betur hrynjandinn í Gufunni en í síbyljunni svo ég vona að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu haldist sá hrynjandi.
Það var annars svolítið hlálegt að fá sér far í sjúkrabíl í sólskininu upp á bráðamóttöku fyrr í vikunni. Konan linnti ekki látum fyrr en ég samþykkti að hitta lækni og þar sem ég gat engan vegin verið nema í hnipri útafliggjandi varð það að ráði að fá sjúkrabíl. Hef ekki þurft að nýta mér þá þjónustu í hart nær fjörutíu ár - en þá var líka sól í minningunni. Eins gott svosem að ég var drifinn uppá spítala því auðvitað var mín eigin sjúkdómsgreining röng. Þetta var sem betur fer ekkert innvortis heldur bara slæmt tilfelli af tognun í baki sem getur farið illa með skrifstofublækur sem leggjast í skurðargröft um helgar. Lækningin sú ein að éta verkjalyf og vöðvaslakandi og reyna svo að hreyfa sig innan sársaukamarka - sem eins og allir vita eru fremur lág hjá karlpeningi.
Allavega á fjórða degi er ég farinn að ganga ögn um, en boginn eins og nírætt gamalmenni. Heil vinnuvika farin í þetta hugsa ég bölvandi og er orðinn ansi óþreyjufullur eftir að komast í minn venjulega gír. Ætli það séu ekki nokkuð skýr merki þess að ég sé að hressast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er eggið farið að kenna hænunni (að reikna)?
Föstudagur, 6. júlí 2007
![]() |
Árni M. Mathiesen: Enginn verðmiði á mótvægisaðgerðum ríkisins" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvers dags líf
Fimmtudagur, 5. júlí 2007
Þá er sumarfíi í Flórída lokið og við tekur hversdagslífið sem er ekki alltof heitt og felur ekki í sér neinar sundlaugar, svo dags daglega. Það er dálítið erfitt að stilla sig aftur inn á hrynjandi hversdagslífsins og sitja við skrifborðið allan daginn. Stóðst ekki mátið og svindlaði aðeins í gær og dreif mig í golf en náði hvorki því markmiði að sigra félaga minn né lækka í forgjöf. Þetta má líklega skrifa á þá staðreynd að ég lét bátsferðir og sundlaugasull ganga fyrir því að spila golf í Ameríku. Það er líka tæplega hægt að spila þegar hitinn er kominn vel yfir 30 gráður.
Það er annars merkilegt hvað maður getur vanið sig af fréttum ... a.m.k. yfir sumarmánuðina. Ég saknaði þess lítt að sjá ekki fjölmiðla í þrjár vikur og hef ekki haft mikla þörf fyrir að lesa blaðabunkann sem beið þegar heim kom. Ég hugsa að hann fari ólesinn af minni hálfu í endurvinnslu. Af þessu leiðir líka mun minn þörf fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar. Kannski hefur svona lítið verið að gerast eða kannski er manni bara nokk sama. En kannski er þetta líka til margs um maður hafi meira en nóg að gera í vinnu og einkalífi og hafi ekki tíma til að básúna neitt opinberlega.
En ég bætti við nýjum blogg-vin í dag þótt ég sé ekki mikið í því: Evrópusamtökin eru sem sé tekin að blogga og er það hið besta mál. Hvet alla til að kíkja í heimsókn þangað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sund lauga líf
Föstudagur, 29. júní 2007
Það er að sjálfsögðu búin að vera ný og merkileg upplifun fyrir fjölskylduna að hafa sína eigin sundlaug í garðinum - eiginlega er réttara að segja að hún sé hluti af húsinu, því sundlaugar hér eru allar í beinu framhaldi af veröndinni, sem aftur er í beinu framhaldi af stofu og eldhúsi. Þá eru þær alltaf innan verndarsvæðis - þ.e. umhverfis þær og vel yfir er burðargrind sem sett er skordýranet á. Á stórum og dýrum húsum getur þetta netvirki verið sex metrar að hæð og dekkað alveg heila hlið hússins. Auðvitað sleppur eitt og eitt kvikyndi inn fyrir en við höfum nær ekkert verið bitin hér og lítið orðið vör við skordýr.
Allir fjölskyldumeðlimir hafa verið duglegir við að nýta sér sundlaugina ... kannski enginn þó eins mikið og sá yngsti sem fer í hana í oft á dag milli þess sem hann horfir sæll á Cartoon network og vinnur í sínum Legó smíðum. Þá dagana það er að segja sem við erum ekki á þvælingi. En við erum búin að vera mikið heima við eins og planið gerði ráð fyrir og líkað það vel.
Einn helsti kosturinn við einkasundlaug er sá að hún lokar aldrei. Ég hef farið snemma að morgni og löngu eftir miðnætti og það er svolítill fílingur í því að vera einn í nóttinni með stjörnurnar fyrir ofan fjótandi í svalri lauginni. En mesta fjörið er þegar það eru laugarpartý og krakkarnir henda hvort öðru út í ... stundum í öllum fötunum og m.a.s. pabbinn hefur fengið að fljúga út í laugina. Bara gaman eins og Emblan segir, sem hefur auðvitað mestu sundlaugarreynsluna af okkur öllum en fílar þetta þó í tætlur. Svo til að documentera þetta fyrir okkur og ykkur, þá setti ég inn nokkrar myndir af sundlaugarsvamli hjá okkur í Flórídaalbúmið.
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.11.2008 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Morgunmatur í Ameríku
Mánudagur, 25. júní 2007

Matur og drykkur | Breytt 25.11.2008 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)