Til hamingju Friðrik
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
![]() |
Friðrik Rafnsson fær franska orðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Betra seint en aldrei
Sunnudagur, 25. janúar 2009
Þetta var rétt ákvöðun hjá Björgvin - að taka til í Fjármálaeftirlitinu og víkja sjálfur. Hann hefði hins vegar fengið miklu meira pólitískt út úr þessu ef hann hefði gert þetta fyrr - miklu fyrr. Hann hefði átt að gera þetta daginn eftir að forstjóri fjármálaeftirlitsins sagði frá því að hann hefði ekki talið ástæðu til að upplýsa ráðherrann! Það var alveg makalaust og forstjórinn átti að fjúka samdægurs.
En samt; betra er seint en aldrei. Nú er að sjá hvort Sjálfstæðismenn gera það sem þeir hefðu átt að gera fyrir 100 dögum síðan að láta Davíð og Árna Matt fjúka.
![]() |
Björgvin segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Yfirveguð ákvörðun
Föstudagur, 23. janúar 2009
Það var vandlega yfirveguð ákvörðun sem Geir kynnti nú í hádeginu. Þetta eru mjög skynsamleg viðbrögð hjá honum að stíga til hliðar og skapa ekki óvissu um framhaldið. Með því sýnir hann traust á flokksystkinum sínum og á því að eðlilegt sé að maður komi í manns stað. Þetta mættu aðrir flokksleiðtogar taka sér til fyrirmyndar. Ég óska Geir H. Haarde góðs bata.
![]() |
Geir: Kosið í maí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Einmannalegt í ríkisstjórn
Föstudagur, 23. janúar 2009
Kennarar, háskólamenn og nú ASÍ hafa ályktað sem svo að ríkisstjórnin sé í raun óstarfhæf og því til lítils að ræða við hana. Stór hluti almennings er á sömu skoðun. Þá virðist meirihluti þingmanna vera kominn á þá skoðun að þetta gangi ekki lengur. Það hlýtur því að vera orðið einmannalegt í ríkisstjórninni - sem hefur talið sjálfum sér trú um að hún sé í svo mikilvægum verkum að hún megi alls ekki víkja; já raunar svo mikilvægum verkum að við fáum lítið um þau að vita.
Stjórnmál snúast öðru fremur um fáar einfaldar grundvallarhugmyndir eða lífsafstöðu og síðan traust á frambærilegu fólki til að útfæra þær. Traustið er ekki til staðar lengur eins og ályktanir stéttarfélaganna bera með sér. Það er ekki annað eftir, en forystumenn ríkisstjórnarinnar horfist í augu við þá staðreynd og víki til hliðar úr íslenskum stjórnmálum.
![]() |
Ræða frestun kjaraviðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Völd og áhrif í Mosfellsbæ
Föstudagur, 23. janúar 2009
Flutti í gærkvöldi erindi á fundi hjá félagi Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ - sama erindið og ég flutti fyrir rúmri viku um völd og áhrif í Brussel. Á eftir mér talaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Hann var mér sammála um það að við höfum haft völd og áhrif í Brussel í því samstarfi sem við höfum tekið þátt fram til þessa. En við erum auðvitað ekki sammála um það hvort skynsamlegt sé að Ísland sæki um aðild að ESB eða ekki.
Þetta var býsna skemmtileg reynsla og margar spurningar sem brunnu á þeim fjörutíu sem mættu á fundinn. Ég var ekki í þeim gírnum að reyna sérstaklega að sannfæra Sjálfstæðismenn um að við eigum að sækja um aðild að ESB - heldur að fullvissa þá um að ef við förum inn þá felur það í sér fjölmörg tækifæri. Efast um að mér hafi tekist að sannfæra þá - en það er alveg nauðsynlegt að fólk sem ekki á sömu skoðun hittist. Fylgismenn og andstæðingar ESB aðildar þurfa að gera meira af því að hitta hvorn annan fremur en bara að hittast saman þeir sem eru sammála. Ég allavega tók þátt í slíkri samræðu í kvöld er sáttur eftir það.
Það var einnig áhugavert fyrir mig að fylgjast með hógværri orðræðu Sjálfstæðismanna, bæði um Evrópumálin og almennt um landsmálin. Ég verð að segja Birni Bjarnasyni það til hróss að hann var pollrólegur og lætur ekki flókið pólitískt ástand taka sig á taugum. Hann er fylgjandi því að landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði frestað þar til fyrir liggur hvenær verður kosið - því það er óumflýgjanlegt að kosið verði í vor - og þá verði aðalmál landsfundar undirbúningur fyrir kosningar en ekki Evrópumálin. Ég hef það á tilfinninguna að þetta gangi eftir og kannski verða fleiri en Björn Bjarnason sem hætta í pólitík á næstu vikum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stjórnlagaþing
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Ég hef lengi verið áhugamaður um gagngera endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og tel að stjórnlagaþing sem skipað er fólki sem kosið er persónubundinni kosningu til þess verks sérstaklega sé best treystandi fyrir því. Þess vegna styð ég eindregið undirskriftasöfnunina Nýtt lýðveldi:
http://www.nyttlydveldi.is.
Sendum áskorun um utanþingsstjórn og stjórnlagaþing! Stöndum saman um nýtt upphaf - nýjar leikreglur - sanngjarnari leikreglur.
Hvet alla þá sem eru þessari nálgun sammála að skrá nafn sitt þarna.
Gjáin milli flokksmanna og forystu Samfylkingarinnar staðfestur í skoðanakönnun
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Það sem mbl.is virðist orðið næsta lamaður - þá birti ég hér frétt af vef RÚV þar sem fram kemur að ekki bara hrynur fylgið af Samfylkingunni, heldur hafa 2/3 þeirra sem þó styðja Samfylkinguna snúið baki við ríkisstjórninni. Tölurnar tala sínu máli - en vonin felst auðvitað í því að hægt er að bregðast við þessu og stærsti hópurinn er óákveðnir og óánægðir.
Af vef rúv:

Fylgi Samfylkingarinnar hrynur í tæp 17% samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Framsóknarflokkur bætir verulega við sig og mælist rétt stærri en Samfylkingin. Ríkisstjórnarflokkarnir mælast samtals með 41% fylgi, samkvæmt skoðanakönnun Markaðs- og miðlarannsókna.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist hinsvegar aðeins 24%. Ríflega 90% Sjálfstæðismanna styðja stjórnin en aðeins þriðjungur Samfylkingarmanna. Fylgi Vinstri grænna mælist 28%, Sjálfstæðisflokksins rúm 24%, Samfylkingar tæp 17% en Framsóknar ríflega 17%. Frjálslyndir mælast með 3% og Íslandshreyfingin 2%.
Framsóknarflokkurinn fær 13% á höfuðborgarsvæðinu en 24% á landsbyggðinni. Tæp 8% sögðust vilja kjósa aðra stjórnmálaflokka en buðu fram síðast.
Könnunin var gerð í gær og fyrradag. 1750 svöruðu. 58% tóku afstöðu. 24% sögðust óákveðin, 11% ætluðu að skila auðu og 3% ætla ekki að kjósa.Góður fundur - endurnýjun Samfylkingarinnar er vonandi hafin
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Ég er örugglega ekki einn um það að taka almennt ekki mikið virkan þátt í starfi þess stjórnmálaflokks sem ég þó tel mig tilheyra. Ég tók stoltur þátt í að stofna Samfylkinguna á sínum tíma og síðan hef ég látið nægja að greiða árgjaldið mitt - nema hvað ég hef mætt á landsfund einmitt til að velja nýjan leiðtoga.
En ég fór á fund Samfylkingarinnar í kvöld til að ákveða hvort ég ætti að segja mig úr flokkunum eða ekki. Mér til mikillar ánægju uppgötvaði ég eitthvað sem mig svo sem grunaði - að það hefur myndast merkileg gjá; annars vegar forysta Samfylkingarinnar og þingmenn og hins vegar eru allir hinir flokksmennirnir. En í kvöld gat ég ekki betur séð en á fundinum væru flestir þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík og ég treysti því að þeir vinni í anda þess skýra vilja sem fram kom á fundinum. Ef þeir gera það ekki, nú þá stend ég aftur frammi fyrir þeirri spurningu innan fárra daga hvort ég eigi að segja mig úr flokknum eða ekki. Munurinn er sá að þá veit ég að ég verð síður en svo einn í þeim vangaveltum.
![]() |
Samþykktu ályktun um stjórnarslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dagur vonar
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Í dag tók nýr forseti við í Bandaríkjunum sem kjörinn var til að gera breytingar og við hvern miklar vonir eru bundnar, bæði þar innanlands og ekki síður um veröld alla. Sjaldan hafa verið jafn miklar vonir bundnar við embættistöku nokkurs manns. Þennan sama dag, 20. janúar 2009, var einnig dagur vonar á Íslandi þótt undarlegt kunni að virðast. Það felst von í þeim viðbrögðum sem almenningur sýndi með því að mæta með potta og pönnur og láta Alþingismenn heyra hug sinn. Almenningur krefst þess að fá að kjósa - að fá að tjá reiði sína með einu lýðræðislegu leiðinni sem til er. Þau mótmæli standa enn núna nærri tólf tímum seinna.
Það setti jafnframt svartan blett á daginn hvernig lögreglan stóð að málum við Alþingishúsið og handtók á þriðja tug manna og virðist hafa gengið harðar fram en nauðsynlegt var og beitti kylfum í fyrsta sinn um langa hríð. En líklega hefur það fyrst og fremst þau áhrif að herða enn á mótmælunum. Það var a.m.k. hvötin til þess að ég fór niður á Austurvöll eftir 10 fréttir í kvöld; ég vildi sjá með mínum eigin augum íslenska óeirðalögreglu. Það var engin gleðisjón og ég er mjög hugsi yfir því að sjá röð lögregluþjóna í tvöfaldri röð verja inngang að nýrri hluta Alþingishúsins. Hér er þjóð í miklum vanda og ljóst að leiðtogar okkar eru ekki að valda þeim vanda.
En það var ekki hnýpin þjóð sem var að mótmæla. Það var glaðvært ungt fólk sem barði bumbur, dósir og dollur og bætti á bálið sem logaði glatt. Sumt missti sig í kæti og dansaði kringum bálið og gleðin hún spratt af því að geta tjáð sig og því að finna fjörkrafta lífsins bærast í brjóstinu og að taka virkan þátt í götulýðræði. En kringum unga fólkin var stór og þéttur hringur af fólki á mínum aldri sem tók hógværlegar undir, en kyrjaði þó: Vanhæf ríkisstjórn". Hún er líka óhæf, sem sést á því hvernig hún hefur höndlað þau óskaup sem hafa gengið á.
Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar kemur fram í áramótaávarpi og segir hafi mér orðið á mistök, þá þykir mér það leitt" ... þá er eitthvað alvarlegt að: Geir, ekki bara öll þjóðin að þér undanskildum, heldur umtalsverður fjöldi fólks í öðrum löndum, veit sitthvað og eiginlega heilan helling um þín mistök. Á gamálskvöld var þinn síðasti möguleiki til að biðja þjóðina afsökunar undanbragðalaust og tilkynna svo einhverja þá tiltekt og aðgerðir sem hefðu vakið okkur tiltrú á að þú skyldir vandann og værir fær um að takast á við hann.
Þegar hinn forystumaður ríkisstjórnarinnar fer að þræta við þjóðina um að hún sé ekki þjóðin, þótt hún standi frammi fyrir 1% kosningabærra manna - tja þá horfi maður nú á einhvert skeliflegasta pólitíska sjálfsmorð sem ég hef séð. Ég studdi þessa konu eindregið í embætti formanns greiddi henni atkvæði. Framganga hennar á þeim borgarafundi var forkastanleg og síðan hefur hún ítrekað þessi hrokafullu viðhorf. En hún átti einnig möguleika á að biðjast afsökunar á þessu og þeim sofendahætti sem einkenndi Samfylkinguna mánuðina fyrir efnahagshrunið. En hún kaus að gera það ekki og þar með stimplaði hún sig út úr íslenskri pólitík.
Þau eru svo mörg ef-in að ég verð óskaup dapur að hugsa um þetta; ef Geir og Ingibjörg hefðu nú borið gæfu til þess að koma fram saman í lok október og tilkynna uppstokkun í ríkisstjórninni þar sem fjármalaráðherra og viðskiptaráðherra væri vikið úr stjórninni, uppstokkun í stjórn Seðlabanka og Fjármalaeftirliti, ásamt því að sett hefði verið saman nefnd alþjóðlegra hagfræðinga og annara sérfræðinga til að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis - og jafnframt að Geir myndi leggja til við flokksþing Sjálfstæðisflokksins að farið yrði í aðildarviðræður við ESB, og hefði ég og eflaust hálf þjóðin gefið þeim tækifæri fram á vorið að minnsta kosti. Nú er þetta orðið of seint; jafnvel þótt þau tilkynni þessar aðgerðir á morgun, þá er það orðið of seint. Í stjórnmálum skipta tímasetningar lykilmáli og þeirra tími er liðinn. Ég spái því að bæði verði horfin úr stjórnmálum innan skamms.
![]() |
Mótmæli halda áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ríkisstjórnin þarf að sættast við þjóð sína en ekki siga á hana óeirðalögreglu
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Þjóðin var við Alþingi í dag og ríkisstjórnin þarf að sættast við þjóð sína. Forsætisráðherra sem ekki vill ræða við fjölmiðla og felur sig bak við lögreglu, fremur en ræða við þjóð sína er kominn í vond mál. Hann á bara tvo kosti núna: Rétta út sáttahönd til þjóðarinnar með því að hreinsa til í kringum sig og láta þá fara sem mesta ábyrgð bera á klúðrinu og setjast svo niður og ræða í alvöru við almenning. Eða segja af sér sjálfur og boða til kosninga.
Ef hann gerir ekkert þá sýður upp svo um munar innan fárra daga. Ég hvet þó alla til að halda stillingu sinni og gefa Sjálfstæðismönnum andrými fram yfir landsfund.
![]() |
Lögregla beitir úða og kylfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |