Hvaða Sjálfstæðismaður er að ljúga?

Er Árni að ljúga að hann hafi ekki vitað um tilboðið? Er Björgóflur að ljúga um að það hafi verið gert tilboð? Annar hvor þessara dyggu Sjálfstæðismanna er að ljúga. Og veit Davíð svarið?

Ef það væri til svo sem eins og einn alvöru fjölmiðill á Íslandi þá lægi svarið fyrir núna, því eflaust er hægt að fá greið svör hér í Bretlandi um það. Og ef það var tilboð á borðinu, hvernig gat Árni ekki vitað um það? Ef það var sannarlega tilboð um yfirfærsluna og því var ekki sinnt - þá er borðleggjandi að þetta var dýrasta símtal Íslandssögunnar (og sá grunur læddist að manni strax þegar þetta kom fram 23. október). Sé það rétt - getur forsætisráðherrann ekki annað en krafist afsgnar Árna; ef að embættisafglöpin eru farin að hlaupa á hundurðum milljarða þá er mönnum ekki sætt í embætti.  


mbl.is Skilur að Bretar efist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur þessi fáfræði engan enda?

Uppfærsla eftir 10 fréttir RÚV: Ég stend við fyrirsögnina, því ef Björgvin fékk að vita að KPMG hefði verið ráðið fyrir tveimur mánuðum, þá átti næsta spurning hjá honum að vera; og er það í lagi? Voru þeir með einhver þau tengsl sem gætu skaðað trúverðugleika þeirra? Ef hann spurði ekki að þvi, tja þá er ég hræddur um að það sýni ekki mikinn skilning á þeim vanda sem við var og er að etja. Það er ekki skrítið að ekki hafi náðst í yfirmann KPMG á Íslandi. Þeir eru í vondum málum og vita það. Það átti bankamálaráðherrann (eða starfsfólk hans) að skynja og skilja þegar á fyrsta degi bankahrunsins. Þeir endurskoðendur sem skrifuðu án athugasemda uppá uppgjör þar sem voru eins vafasöm lán upp á tugi milljarða og í ljós hefur komið með Gamla Glitni eru í vondum málum ... og þótt fjölmiðlar geti ekki náð tali af þeim, þá er ég illa svikinn ef bankamálaráðherrann grípur líka í tómt. Hann var greinilega ekki hress í 10 fréttunum - en það erum við hin ekki heldur.

Nú er bara að sýna svolítinn myndarskap Björgvin og hreinsa almennilega til á morgun. Þar með talið að taka KPMG alveg úr umferð í allri umfjöllun og athugun á þessari bankaendaleysu. Þvert á móti væri rétt að taka Atla á orðinu og fyrirskipta rannsókn á því hvort KPMG hafi bortið verklagsreglur alþjóðlegra endurskoðenda með því að skrifa uppá FL Group og fleiri vafasöm uppgjör.  

En hér er upprunalega færslan óbreytt:

Ég veit ekki hvort er verra að hafa ekki vitað af þessu eða segja frá því - nema ef vera skyldi sú niðurstaða að nú verða endurskoðendurnir endurskoðaðir af öðrum endurskoðendum en hætta samt ekki að endurskoða það sem þeir áttu ekkert með að endurskoða til að byrja með!

Það að bankamálaráðherrann virðist ekki vita hvaða rannsóknir eru í gangi né hverjir eru að vinna þær er útaf fyrir sig tilefni til þess að hann segi af sér. Það er nefnilega á ábyrgð hans sem ráðherra að vera upplýstur og ef embættismennirnir sem vinna fyrir hann hafa ekki verið að upplýsa hann, þá á hann að láta þá fjúka. Eða ef Sjálfstæðismenn hafa komið í veg fyrir að hann fái upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu og ef það er verið að halda honum utan við atburðarásina, eins og umfangsmikil og endurtekin fáfræði hans bendir til, þá ætti hann að hafa þau pólitísku bein í nefinu að segja af sér til að mótmæla slíku. Það er miklu karlmannlegra að segja af sér við þessar aðstæður og mótmæla kröftulega en sitja áfram fávís og áhrifalaus um það sem er að gerast.


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bongóblíða í Brighton

Á sjóðskíðum á aðventunniNú dregur að lokum þessarar dvalar minnar hér í Brighton. Eftir veikindi og innveru síðustu daga brast á með bogóblíðu miðað við árstíma hér í Brighton í dag og ég fór út að hjóla og síðan í sólsetursgöngutúr niður á strönd þar sem ég settist og fékk með kaffisopa úti þótt andkalt væri. En það var ekki öllum kalt - ekki þeim sem skellti sér á sjóðskíði og ekki heldur kallinum sem skellti sér á sundskýlu í sjóinn (jú honum hlýtur nú að hafa verið svolítið kalt). Skellti inn nokkrum myndum í Brighton albúmið - því ég uppgötvaði loks leyndarmálið um tilgang hins svala svöluflugs og náði nokkrum myndum af þeim þar sem þær undirbúa sig undir svalan nætursvefninn á Vesturbryggjunni hér í Brighton.

Foyrsta Samfylkingarinnar þarf að hlusta

... þegar fylgi meðal flokksmanna í Samfylkingunni er komið niður í 52%. Könnunin er nógu stór til þess að vera mjög marktæk. Forystan verður að fara að sýna einhverja forystu en ekki þennan doða og háflkák sem verið hefur undanfarnar vikur. Ekkert gerst með uppstokkunum í Seðlabankanum, engin rannsókn komin í gang, enginn búinn að viðurkenna fyrir hönd flokksins þá ábyrgð sem hann hlýtur að bera fyrir síðusta hálft annað ár. Við erum mörg búin að kalla eftir afdráttarlausari aðgerðum. Vonandi stuðlar þessi könnun að því að einhverjir fari að hlusta og sýna hvortveggja meiri auðmýkt og meiri ákveðni.

Ég ítreka það sem ég skrifaði fyrir bráðum mánuði síðan Nú þarf pólitíska forystu Samfylkingarinnar.


mbl.is Vilja nýja stjórnmálaflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll átti að krefjast afsagnar Davíðs

Þetta er að verða alveg skelfilegt uppá að horfa hvernig Samfylkingin virðist ekki hafa nokkur bein í nefinu þegar kemur að Seðlabankastjóra. Ingibjörg Sólrún búin að segja að hún vilji að Davíð hætti, en ekkert gerist. Svo mætir kallinn á fund og neitar að segja neitt nýtt og er bara með útúrsnúninga og hótanir um að koma aftur í pólitík. Árni Páll sem formaður nefndarinn átti að krefast afsagnar hans, nú eða leggja fram tillögu í þinginu sem beint er til forsætisráðherra að skipta um bankastjórn. Samfylkingin tapar ekki á því þótt Davíð snúi aftur í pólitík sem ég sé ekki betur en þegar sé orðið - hann mun bara kljúfa Sjálfstæðisflokkinn í herðar niður.


mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið fer á kostum

Sem betur fer er ekki búið að skera niður vefútsendingar hjá RÚV og ég var að horfa á Kastljósið sem enn einu sinni var alger snilld. "Ég er bara lítill kall í Hafnarfirði" sagði hann ungi maðurinn sem var búinn að reikna það út að það er alveg sama hvernig hlutirnir veltast hjá honum að hann kemur betur út með því að skila bara lyklunum tl bankans - sem allra fyrst. Ef þið sáuð ekki viðtalið - þá er það á vef RÚV.

Stóra fréttin - sem fréttastofa RÚV ætti auðvitað að taka fyrir, ef þar væri fólk sem hefði tíma til að vinna alvöru fréttaskýringar - er auðvitað sú að þetta er aðstaða sem einhverjir tugir þúsunda eru í núna á Íslandi. Það er eins og bankarnir og stjórnvöld reiði sig á það að fólk setjist ekki nður og reikni þetta út - hver fyrir sig. Það besta sem gæti gerst núna er að unga fólkið á Íslandi reikni sitt dæmi til enda og mæti svo bara með lyklana í þúsunda vís í bankana. Það er líklega það eina sem dugar til að fá yfirvöld til að ákveða að frysta verðbæturnar í þessu afar óvenjulega ástandi. Svo er hitt aftur langtíma verkefni að afnema þær; ég hef aldrei heyrt sannfærandi skýringu á því af hverju Ísland er nánast eina ríkið í heiminum sem er með þetta fyrirkomulag. Einhvern veginn er ég ekki alveg að trúa því að þetta sé besti kosturinn fyrir allan almenning.


Jólasöngur Bagglúts kominn út.

Þeir hafa haft þennan sið drengirnir í Baggalút að hressa okkur upp með lagi um jólin. Endilega hlustið á Jólalagið 2008 - og ekki gleyma textanum sem ég afrita hér því þetta eru mikil skáld:

ÞAÐ KOMA VONANDI JÓL

Allflestar útgönguspár
eru á eina lund;
þetta var skelfilegt ár.
Hér út við heimskautsins baug
hnípin þjóð – þráðbeint á höfuðið flaug.

Allt þetta útrásarpakk
át á sig gat
svo loftbólan sprakk.
Nú eru lífskjörin skert, mannorðið svert,
Hvað hafið þið gert?

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við skellum könnu upp á stól
og Sollu í kjól.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir verðbólguskot
– þjóðargjaldþrot.

Við áttum íbúð og bens
og orlofshús.
Allt meikaði sens.
Góðgerðir gáfum og blóð
greiddum í – dulítinn séreignasjóð.

En nú er allt þetta breytt og eftir er
nákvæmlega ekki neitt.
Já nú er útlitið dökkt
ljósið er slökkt
og við erum fökkt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Þó vanti möndlu í graut
og amerískt skraut.
Þrátt fyrir allt
þrátt fyrir háðung og smán
– myntkörfulán.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat
af innlendan mat.
Og þrátt fyrir allt
misnotum sykur og salt.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við krössum afmælið hans
– heimslausnarans.
Því að þrátt fyrir allt
drekkum við mysu í malt.


Napur og dapur 1. des.

Fullveldi hvað? hugsa ég dapur þegar ég í lok dags lít á íslenska fjölmiðla. Samkvæmt mælikvörðum þeim sem ríkt hafa síðustu ár er ekkert fullveldi lengur; þjóðin er 'tækilega' gjaldþrota - svo maður sletti nýjasta bullinu sem á mannamáli þýðir að maður skuldar meira en maður á. Þá erum við ekki fullvalda lengur. Nema þegar kemur að þjóðum þá er þetta svolítið flóknara og handstýrð stilling á gengi löngu látinnar krónu ræður því hvort við erum í alvöruinni gjaldþrota eða bara tæknilega.

Það er dapur fullveldisdagur að horfa á fréttir að heiman þar sem orðið 'óeirðalögregla' er notað eins og ekkert sé sjálfsagðara; hingað til hefur þetta bara verið notað í fréttum frá útlöndum. Ég hafði satt best að segja ekki hugmynd um að til væri íslenskt óeirðalögregla, þótt það sé auðvitað skelfileg einfeldni þegar maður minnist þess hversu sárt sumum sveið skorturinn á slíku árið 1949. Sem betur fer eigum við einn almennilegan og alþýðlegan Geir sem getur ennþá gengið meðal þess almennings sem hann þjónar og þiggur laun sín frá og rætt við fólk á mannamáli. Og þá er ég ekki að tala um forsætisráðherrann sem því miður færist æ fjær því að geta rætt við þjóð sína þótt þetta sé viðræðugóður maður, svona maður á mann, sem ég hef enga ástæðu til að ætla annað en vilji vel. En hann nær ekki að tala við þjóð sína og af því það eru örlagaríkustu dagar þessarar þjóðar - a.m.k. síðustu 90 árin - þá mun hann ekki verða langlífur í embætti. Lýðræðið er nefnilega þrátt fyrir alla sína galla, besta leiðin sem okkur hefur ennþá tekist að finna til að skipta um leiðtoga á blóðsúthellinga.

Það er dapur fullveldisdagur þegar maður horfir uppá - úr fjarlægð - að miklum meirihluta íslensku þjóðarinnar er svo kalt á sálinni að hann mætir ekki til að mótmæla því ástandi og ráðaleysi sem nú ríkir. Þeir sem venjulega hafa staðið í framvarðarsveit við slíka skipulagningu eru allir kramdir af samviskubiti - vinstri menn, jafnarðarmenn, verkalýðshreyfing; allir sem í eina tíð veittu mótspyrnu við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og kröfunni um óheft einræði markaðarins gengu í björg peningaálfanna eða urðu að steini. Ég tek ofan fyrir þeim fáu sem mættu á Arnarhól í dag og tek undir með þeim sem rætt var við og sagðist hafa vonast eftir saman fjölda og mætti þegar tekið var á móti handboltadrengjunum eftir afrekið í Kína. Þá var sjálfsagt að sýna samstöðu og þakklæti fyrir góðan árangur. Nú er sjálfsagt að sýna samstöðu og óánægju með afleitan árangur. Munurinn er bara sá að handboltinn - svo spennandi sem hann er - er bara leikur. Hitt er eins mikil alvara og hægt er að hugsa sér, afkoma og lífsskilyrði okkar allra í þessu landi er í húfi. Hvort sem við viljum  það eða ekki, erum við öll þátttakendur í þeim landsleik sem nú er leikinn. .... og staðan er ekki okkur í hag.  


mbl.is Endurvakin sjálfstæðisbarátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi hefur rétt fyrir sér

... með að það hefur orðið trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og stjórnarinnar og forystumenn ríkisstjórnarinnar hljóta að hafa skynjað það í síðasta lagi á borgrafundinum í Háskólabíó á mánudag.

... með að ríkisstjórnin verður að þjóðinni aðra hlið en við höfum séð síðustu vikurnar. Í því felst alveg sérstaklega að axla pólitíska ábyrgð, því fjármálahrunið íslenska varð á vakt þessarar ríkisstjórnar og hún verður að viðurkenna það í verki. Þetta er spurning um pólitísk ábyrgð, ekki perónulega.

... með að afsögn tveggja ráðherra, úr sitt hvorum stjórnarflokknum, væri yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að hún væri að axla pólitíska ábyrgð.

... með að slík afsögn hefði minnst truflandi áhrif af þeim möguleikum sem eru í stöðinni. Þá getur ríkisstjórnin haldið áfram að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ef þau gera þetta ekki, þá eru mun óánægja almennings halda áfram að vaxa og þá gæti svo farið að ríkisstjórnin þurfi að hröklast frá völdum. Það er alltaf miklu betra að reyna að stjórna undanhaldinu sjálfur.

Ég hef reyndar lýst þeirri skoðun minni hér að Geir eigi að segja af sér ásamt Björgvini - því Geir ber jú ábyrgð á Seðlabankanum og ætti að axla ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á því hræðilega klúðri sem einkavinavæðing bankanna var. Ég ráðlegg því forystumönnum ríkisstjórnarinnar að hlusta á hófsemdarmanninn Gylfa Arnbjörnsson að þessu sinni.


mbl.is Kosningar eru hættuspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæli, verðlaunaveiting og fiskisúpa

Ég gerði stutta en góða ferð til Íslands, sem gæti heitið frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Á föstudaginn héldum við upp á 20 ára afmælli Tæknigarðs og veittum einnig Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í tíunda sinn. Það var góð mæting og góð stemming, enda komu um 150 manns til okkar. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi rektor rifjaði upp það umhverfi sem var þegar hugmyndum um Tæknigarð var ýtt úr vör og við gáfum út Afmælisrit um Tæknigarð þennan dag, þar sem eru 77 örsögur af fyrirtækjum í Tæknigarði sem hann Hjörtur sonur minn vann í sumar. Er ekki enn komið á netið - en ég skelli inn hlekk þegar það verður sett þangað. Rögnvaldur Ólafsson fyrsti framkvæmdastjóri Tæknigarðs fllutti einnig tölu og í lokin sagði Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor nokkur vel valin orð við okkur öll.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2008Hópur verðlauna-hafa var óvenju stór eins og sést á mynd-inni, þar sem auk verðlauna-hafa og mín eru formaður dómnefndar og háskólarektor. Enda fengu sex manns fyrstu verðlaunin fyrir verkefni sem kallað er gönguhermirinn og ef vel gengur mun nýtast til gönguþjálfunar fatlaðra einstaklinga. Það voru kennarar og nemendur úr verkfærði og sjúkraþjálfun sem fengu verðlaun og ein þeirra er vinkona Emblu minnar frá því í Reykjadal og því gaman að Embla mætti í afmælið. Í öðru sæti var verkefni um skráningu gagna úr sjúkraþjálfun - sem ekki eru skráð með skipulegum hætti í dag eins og margar aðrar heilsufarsupplýsingar. Í þriðja sæti var síðan sagnfræðilegt verkefni um Spánverjavígin 1615 - sem sagt ramm vestfirskt! Sjá nánar um þetta á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar.

Á laugardeginum var síðan tími fyrir hluta af stórfjölskyldunni en þá bauð ég mömmu og heilsystrum mínum ásamt þeirra fjölskyldum í fiskisúpu. Í henni var meðal annars þorskur sem ég veiddi fyrir vestan í sumar. Næsta sumar ætla ég að reyna að elda fiski- og kræklingasúpu eins og þessa aftur, nema bara helst eingöngu úr hráefnum sem ég hef veitt og ræktað sjálfur. Maður verður að setja sér skynsamleg markmið í kreppunni.

Sunnudagurinn var síðan helgaður kjarnafjölskyldunni. Ég fór með krúttin í sund og mikið agalega var gott að komast í heitan pott þótt vindurinn af Esjunni væri ansi hreint kaldur. Svo var farið í bíó og loks borðuð pizza þannig það var sannkallað barnaprógramme. Og nú taka við síðustu þrjár vikurnar hér í Brighton sem enda með lokaprófi þann 12. desember.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.