Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Óþekktarstrik

Það var síðasti dagur í skólafríi í gær og þá lágum við uppí rúmi letileg eftir að við vöknuðum, ég og tvö yngstu börnin mín. Þau fóru að skrifa og teikna á bakið á mér með fingrinum eins stundum er gert og ég látinn giska á hvað párið merki. Svo bað ég Óðinn, sem er sex ára, að teikna mynd af mér. Hann tók vel í það og dró upp einfaldar útlínur að líkama. Síðan stoppaði hann og krassaði svo margar línur yfir miðhlutann á "teikningunni" á miklum hraða og af talsverðri festu. "Hvað er þetta?" spurði ég. "Þetta eru óþekktarstrikin þín" sagði hann. "Nú?" sagði ég. "Já. Þegar þú varst óþekkur þegar þú varst lítill. Þegar þú varst strákur að stelast og skemma skóna þína og dast næstum í sjóinn og svoleiðis." 

Það er fátt vinsælla á kvöldin en sögur af því þegar pabbi var ungur og óþekkur og framdi einhver prakkarstrik. Í huga barnsins eru þetta orðin æði mörg "óþekktarstrik" sem ég afrekað í æsku.  


Sund lauga líf

KvöldlaugarpartýÞað er að sjálfsögðu búin að vera ný og merkileg upplifun fyrir fjölskylduna að hafa sína eigin sundlaug í garðinum - eiginlega er réttara að segja að hún sé hluti af húsinu, því sundlaugar hér eru allar í beinu framhaldi af veröndinni, sem aftur er í beinu framhaldi af stofu og eldhúsi. Þá eru þær alltaf innan verndarsvæðis - þ.e. umhverfis þær og vel yfir er burðargrind sem sett er skordýranet á. Á stórum og dýrum húsum getur þetta netvirki verið sex metrar að hæð og dekkað alveg heila hlið hússins. Auðvitað sleppur eitt og eitt kvikyndi inn fyrir en við höfum nær ekkert verið bitin hér og lítið orðið vör við skordýr.

Allir fjölskyldumeðlimir hafa verið duglegir við að nýta sér sundlaugina ... kannski enginn þó eins mikið og sá yngsti sem fer í hana í oft á dag milli þess sem hann horfir sæll á Cartoon network og vinnur í sínum Legó smíðum. Þá dagana það er að segja sem við erum ekki á þvælingi. En við erum búin að vera mikið heima við eins og planið gerði ráð fyrir og líkað það vel.

Einn helsti kosturinn við einkasundlaug er sá að hún lokar aldrei. Ég hef farið snemma að morgni og löngu eftir miðnætti og það er svolítill fílingur í því að vera einn í nóttinni með stjörnurnar fyrir ofan fjótandi í svalri lauginni. En mesta fjörið er þegar það eru laugarpartý og krakkarnir henda hvort öðru út í ... stundum í öllum fötunum og m.a.s. pabbinn hefur fengið að fljúga út í laugina. Bara gaman eins og Emblan segir, sem hefur auðvitað mestu sundlaugarreynsluna af okkur öllum en fílar þetta þó í tætlur. Svo til að documentera þetta fyrir okkur og ykkur, þá setti ég inn nokkrar myndir af sundlaugarsvamli hjá okkur í Flórídaalbúmið.


Of heitt til að blogga

Þessi hluti heimsins varð ekki almennilega byggilegur fyrr en menn fundu upp rafmagn og í framhaldi af því loftkælingu. Þess vegna hefur ekki verið mikið um bogg - hver getur bloggað í yfir þrjátíustiga hita?  Þannig er nefnilega mál með vexti að netið virkar ekki inní húsinu heldur bara úti í apabúrinu eins og við köllum það. Menn og konur hafa þar kraft til að skoða ýmislegt en ekki skrifa mikið. Á daginn það er.  Svo sofa menn þreyttir á kvöldin sem skiljanlegt er.

En áður en um lýkur verðum við að koma veiðisögum á framfæri ... margar saklausar rækjur hafa látið lífið til að við fengum að veiða þann helling sem hér hefur veiðst - mest þó af óvinsællum gaddasnapper sem er samt góður á grillið ef menn sleppa við að gaddana. Lifandi rækjur er eina beitan sem eitthvað virkar hér.

Og svo má maður til með að fjalla um Ameríska fjölmiðla og hvað þar er fjallað um og hvað er ekki fjallað um. En börnin hafa fengið að ráða svolítið ríkjum í sjónvarpsheimi ... baráttan er stundum um CN eða CNN og má ekki milli sjá hvor stöðin stendur sig betur/verr í endurtekningum og innihaldslausu efni.

En meira um það og ameríska eldhúsið síðar (þegar kólað hefur ögn) ... því matur er eitthvað sem stendur manni nærri þegar maður dvelur hér í gnægtarlandinu þar sem borðaðar eru pönnukökur og bláber á hverjum morgni.


Sjáðu eyðið - þarna brann ég

Sjáðu eyðið - þarna brann égFjölskyldan var orðin tilbúin í frekari ferðalög og í gær - 20. júní - var farið í dagsferð á bátnum. Samkvæmt ráðleggingjum Captain Ron, sem tók mig í tveggja tíma skemmri skírn í siglingum og umsjón báta á sunnudaginn, var ákveðið að fara að eyjunni Captiva, sem er lítil eygja norðan við Sanabel. Þangað er bara hægt að fara á bát. Nyrðri hluti eyjunnar er merkilegur fyrir þær sakir að þar gekk fellibylurinn Catharine - sem lagði New Orliens næstum í rúst - fyrst á land. Og ummerkin má enn sjá. Krafturinn var slíkur að fellibylurinn hreinsaði burt um 400 metra breiðan kafla af eyjunni og tók allt sem þar var, ekki trjástúfur eftir. Svo mikill var krafturinn að það myndaðist eyði sem nú skilur að norður og suðurhluta eyjunnar. Með tímanum hefur sjórinn að mestu fyllt upp í það en þar liggur en dálítil læna sem hægt er að vaða og þar er hægt að fiska. Það fylgdi líka sögunni að þarna væri gott að skelja. „Skelja" er nýtt sagnorð sem ég tek eftir enskunni, því eins og við tölum um að fiska, þegar við erum á höttunum eftir fiskum, þá má tala um skelja þegar maður er á höttunum eftir skeljum.

Ferðalagið þangað tók drjúgan tíma því leiðin var löng og á sumum köflum þurfa menn að fara hægt út af sækúnum sem hér búa. Lögreglan stoppaði okkur einu sinni og Óðinn og Ásdís Sól fengu í verðlaun ókeypis ís á McDonald fyrir að vera í björgunarvestum sem er skylda fyrir yngri en 7 ára. Við þurfum líka að stoppa og taka bensín og allt var þetta nýtt fyrir okkur.

Þrátt fyrir vandræði með dýptarmælinn - sem er mikilvægur því víða eru miklar grynningar og þótt aðalleiðir séu vel merkar þá þurfum við að víkja út af þeim til að komast til Captiva og fara reyndar út á sjálfan Mexíkóflóann. Það var smá ævintýri hjá mér að koma fjölskyldunni allri í land án þess að festa bátinn í fjörunni en það tókst. Ekki gekk heldur alveg nógu vel að festa akkerið úti sem hélt bátnum og endaði það með því að ég kafaði út og rak akkerið niður í sandinn á tæplega þriggja metra dýpi. Þá var hann líka vel festur og við gátum tekið til við að borða nestið okkar og skelja.

Þarna koma fáir og við höfuðum eyðið næstum útaf fyrir okkur. Tveir hundar komu í heimsókn og hrelldu Óðinn aðeins og svo fylgdumst við með ákveðnum veðimanni sem var á sundskýlunni og óð í sjó upp undir axlir í veðimennskunni. Mælirinn okkar sýndi að hitastigið á sjónum væri 87 á farinheit sem er um 30 gráður. Ekki kalt þótt manni þætti þetta bara fínt og tæki ekkert eftir brennandi sólinni sem grillaði okkur öll í rólegheitum þrátt fyrir að dágóð sólarvörn hafi verið á alla borin.

Að loknu góðu stoppi á ströndinni voru allir orðnir dasaðir og við drifum okkur af stað. Tókst eftir smá villing að finna veitingastað sem mælt var með við okkur - en hann var þá lokaður! En við fundum annan stað í norður Captívu þar sem var opið og við gátum fengið eitthvað að borða og kælt okkur niður. Stemmingin í eyjunni var svipuð og í Hrísey, því þarna er engir bílar, heldur notast menn við golfbíla til að komast á milli. Eyjan er heldur ekki stór - líklega á stærð við Hrísey, bara mjórri og lengri.

Það var ansi dasaður og sólbrunninn mannskapur sem koma heim níu tímum eftir að lagt var að af stað - rétt í rökkurbyrjun og mátti ekki seinna vera, því ekki er gott að vera á ferðinni í myrki á þessum bát og erfitt að rata nema fyrir þaukunnuga. Öllum var hent í sundlaugin til að þrífa af fólki saltið og svo var borinn á Aloa Vera áburður á alla - enda allir brunnir þótt í mismiklu mæli væri. Sem sagt hinn fullkomni dagur á ströndinni .... og allir svo þreyttir um kvöldið að börn og unglingar sofnuðu óumbeðin snemma.

Ég er núna búinn að læra að búa til myndaalbúm hér á moggabloggi og bæti þar inn nýjum myndum úr Flórídaferð eftir nennu fyrir þá sem vilja fylgjast með þessu ferðalagi okkar og hvernig okkur miðar með það meginmarkmið að verða kaffibrún og úthvíld fyrir lok mánaðarins.


Póstkort frá Flórída

"Bráðum kemur ekki betri tíð" söng Ragga Gísla hér um árið og það á líklega við hér í Flórída - því betri getur tíðin ekki orðið. Hiti og blíða alla daga nema þegar þrumuveður hellast yfir okkur með úrhellisrigningu eins og hún gerist mest.

Ferðasagan kemur seinna, en í stuttu máli þá hefur allt gengið samkvæmt áætlun. Fyrsti hluti sumarfrísins er yfirstaðinn. Við tókum fjóra daga í að kanna alla fjóra Disney garðana - og eru nokkrar myndir komnar hér á síðuna því til sannindna. Síðan var verslan svolítið og tekið á móti Emblunni og um helgina síðustu var skipt um íverustað og við færðum okkur frá Orlandó til Cape Coral. Í samræmi við ferðaáætlun var tekin hvíld hér ... enda taka fjórir dagar í Disney og tveir í verslun talsvert á. 

Hér í Villa Foster í Cape Coral höfum við allt til alls og höfum því ekki haft neina þörf fyrir að vera á fartinni, nema auðvitað að fara út á bátnum sem fylgir húsinu og synda í lauginni sem er bæði stærri og dýpri en myndirnar gáfu tll kynna. Svo er líka nettenging hér - þannig að við erum komin í samband við umheiminn aftur. Eftir þrjá daga í hvíld, sundlaugarsvamli og rólegum fiskveiðum, sem skiluðu talsvert meiru en ég átti von á, er mannskapurinn orðinn úthvíldur, hæfilega röndóttur á kroppinn og tilbúinn að takast á við ný ævintýr.  .... en meira um þau síðar.  


Til hamingju íþróttamenn!

Sama fyrirsögn og síðasta blogg færsla - nei, ég er ekki svona hugmyndasnauður, heldur er annað tilefni til hamingjuóska. Það er bara gaman að geta verið jákæður marga daga í röð.

Ég óska öllum styrkþegum ÍSÍ til hamingju og við treystum því að þetta aðstoði okkar afreksfólk og auki líkurnar á að við eigum góða fulltrúa á Ólympíuleikunum í Peking eftir hálft annað ár.

Sérstaklega óska ég ungum og efnilegum félögum í Íþróttafélagi fatlaðra til hamingju : Embla mín, Eyþór og Sonja - hjartanlega til hamingju. Þið eruð vel að þessu komin og þetta verður ykkur örugglega hvatning til að gera ykkar ítrasta og ná því markmiði að koma á Ólympíuleika fatlaðra árið 2008. Smile


mbl.is Örn Arnarson sundmaður fékk A-styrk á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýársmót fatlaðra barna og unglinga í sundi

Verðlaunahafar 2007Síðustu árin hefur fyrsti sunnudagur á nýju ári alltaf verið helgaður Nýársmóti fatlaðra barna og unglinga í sundi, sem nú var haldið í 24. sinn. Þetta var fyrsta sundmótið sem Emblan tók þátt í fyrir mörgum árum og nú tók hún þátt í síðasta sinn því eftir ár verður hún komin á átjánda ár og þá orðin of gömul. Hún stóð sig vel í dag og þótt engin Íslandsmet hafi fallið (maður er eiginlega farinn að vænta þess að þau falli eftir árangurinn á síðasta móti, þegar met féll í hverju sundi) þá var þetta fyrsta mótið þar sem hún stingur sér í bæði skriðsundi og bringu. Það mun alveg örugglega skila sér í betri tíma þegar kemur fram á árið.

Fréttastofa sjónvarpsins gerði mótinu góð skil í kvöldfréttum - fín mynd af minni! Helgarsportið bætti um betur og þar er skemmtileg viðtal við Sonju Sigurðardóttur sem stóð sig afar vel í dag og setti tvö Íslandsmet! Þetta verður spennandi ár hjá þeim þremur í ÍFR, vinkonunum, Emblu og Sonju og Eyþóri. Megin markmið ársins hjá þeim öllum er að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008, en þau eiga nokkuð góða möguleika á því eftir að Kristín Rós tryggði Íslandi þátttökurétt með frammistöðu sinni á heimsmeistaramótinu í S-Afríku í desember á síðasta ári. Þetta verður ekki auðvelt hjá þeim, en þau hafa sýnt mikla þrautsegju og mikinn keppnisvilja og ég hef mikla trú á að þau verði okkar tríó í Peking ... og er byrjaður að safna fyrir farinu. Smile 

Það var ekki síður gaman að fylgjast með nýgræðingunum en þeim sem voru að berjast við Íslandsmetin. Það er mikil og merkileg upplifun fyrir alla að taka þátt í alvöru sundmóti í fyrsta skipti með tímatöku, dómurum og hvatningarhrópum og fá svo viðurkenningu frá borgarstjóranum í Reykjavík í lokin. Þetta mót er til mikils sóma fyrir Íþróttasamband fatlaðra.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.