Færsluflokkur: Menning og listir
Hamingjuóskir til verðlaunahafa
Fimmtudagur, 11. desember 2008
Sendi þessum fríða hópi verðlaunahafa hjartanlegar hamingjuóskir úr fjarska. Þau eru öll vel að þessu komin., Það gera sér líklega ekki allir grein fyrir hvað felst í því að taka virkan þátt í evrópsku samstarfí með árangursríkum hætti eins og þau hafa gert. Þetta er allt fólk sem hefur staðið sig frammúrskarandi vel.
Nú voru einnig veitt verðlaun fyrir tilraunaverkefni. Þeir sem þau hlutu hafa verið í forystu í stórum evrópskum þróunarverkefnum og þurft að takast á við margar áskoranir til að ná að ljúka þeim, en gert það með miklum sóma og eiga þakkir skilið fyrir. Ég hefði auðvitað viljað vera þarna í dag til að samgleðjast með fólkinu en eins og myndin ber með sér var starfsfólk Landskrifstofu Menntaáætlunarinnar ekki í neinum vandræðum með glæsilega framkvæmd án mín.
Verðlaunahafarnir í dag eru ástæðan fyrir því að vel hefur gengið með þátttöku Íslands í evrópsku samstarfi á sviði menntunar og starfsþjálfunar frá því það hófst snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessu samstarfi og bæði notið góðs af því og haft burði til að leggja margt með sér og til málanna. Það gefur tilefni til bjartsýni verði sú niðurstaðan að Ísland taka hugsanlega enn virkari þátt í evrópsku samstarfi á næstu árum.
Starfsmenntaverðlaun Leonardó veitt í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gæinn sem geymir aurinn minn
Þriðjudagur, 28. október 2008
Gæinn sem geymir aurinn minn
Ég finn það gegnum netið að ég kemst ekki inn
á bankareikninginn.
En ég veit að það er gæi sem geymir aurinn minn
sem gætir alls míns fjár
og er svo fjandi klár,
kann fjármál upp á hár,
býður hæstu vextina og jólagjöf hvert ár.
Ég veit hann axlar ábyrgð, en vælir ekki neitt,
fær þess vegna vel greitt.
Hendur hans svo hvítþvegnar og hárið aftursleikt.
Þó seg´í blöðunum
frá bankagjaldþrotum
hann fullvissar mig um:
Það er engin áhætta í markaðssjóðunum.
Ég veit að þessi gæi er vel að sér og vís;
í skattaparadís
á hann eflaust fúlgur fjár ef hann kems t á hálan ís.
Því að oftast er það sá,
sem minnstan pening á,
sem skuldin endar hjá.
Fáir slökkva eldana sem fyrstir kveikja þá.
höf: Finnur Vilhjálmsson 2008
Fékk þetta sent í tölvupósti og þar er höfundur sagður þessi - fannst þetta prýðilegt ljóðainnlegg í umræðuna.
Uppfærsla á Hávamálum
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Hávamál hafa alltaf staðið mér nærri og mér þótt margt til þeirra mega sækja. Svo er um erindið hér að neðan:
Er-at maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill.
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.
Víst er um það að flestir geta verið af sælir yfir einhverju þótt ekki sé allt eins og best verður á kosið. En þetta er ansi karllægur texti og ekki gert ráð fyrir að menn væru mikið að stæra sig af dætrum sínum eins og ég hefur svolítið verið að gera - nú hvað þá konum sínum!
... svo hér ný ending:
sumur er af dætrum sæll,
sumur af sonum,
sumur af konum,
sumur af sköttum ærum.
Svo til viðbótar við dótturraup í síðustu færslu vil ég benda lesendum á stórgott viðtal við konu mína í Okkar á milli þættinum sem var á dagskrá Rásar 1 21. febrúar og verður hægt að hlusta á um tíma á netinu. Kom í ljós sem ég vissi að hún hefur afar þægilega útvarpsrödd. Sjá: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4390026
Menning og listir | Breytt 25.2.2008 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýr framhaldsskóli - fyrir alla
Fimmtudagur, 3. maí 2007
MENNT - sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla - hélt vel sóttan félagsfund síðdegis í dag. Þar voru til umræðu málefni framhaldsskólastigsins sem mjög hafa verið í deiglunni að undanförnu án þess þó að margt hafi gerst. Þangað buðum við fulltrúum stjórnmálaflokkanna og fórum yfir þær hugmyndir sem kynntar hafa verið síðasta árið um miklar breytingar - um Nýjan framhaldsskóla, eins og það er kallað. Margt í þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu er merkilegt og mikilvægt. Það var því ánægjulegt að heyra að mikill samhljómur er meðal stjórnmálaflokkanna að þörf sé á miklu átaki til að efla framhaldsskólana og þá sérstaklega starfsnámið og flestir virðast tilbúnir í umtalsverðar breytingar.
Við brydduðum upp á þeim nýmælum hjá MENNT að í lok dagskrár mælti ég fyrir hönd stjórnarinnar fyrir álytkun fundarins sem var samþykkt með lófataki. Fylgir hún hér - en fyrir þá sem ekki þekkja til MENNTAR þá má geta það að baki þeim félagsskap er breiðfylking aðila atvinnulífs, öll formleg skólastig og aðrir fræðsluaðilar og aðrir sem telja að samtarf atvinnulífs og skóla sé mikilvægt:
Nýr framhaldsskóli - fyrir alla
Ályktun á félagsfundi MENNTAR 3. maí 2007
Félagsfundur MENNTAR hefur fjallað um málefni framhaldsskóla og hugmyndir um umtalsverða endurskoðun framhaldsskólastigsins. Félagsfundurinn tekur í öllum meginatriðum undir tillögur Starfsnámsnefndar, sem lagðar voru fram fyrir rétt tæpu einu ári. Þar er gerð tillaga um Nýjan framhaldsskóla sem verði ein heild án aðgreiningar í bóknám og verknám þar sem hvort tveggja verði jafngilt. Nám verði viðtökumiðað og gert sveigjanlegra um leið og tryggt verði að ávallt sé hægt að byggja ofan á það sem fyrir er. Þá verði vinnustaðanám endurskipulagt og stofnað verði fagháskólastig. Einnig verði gerðar skipulagsbreytingar á starfi og samstarfi starfsgreinaráða og komið verði á formlegu samstarfi milli skólastiga.
Félagsfundur MENNTAR lýsir yfir stuðningi við framangreindar hugmyndir sem allar miða að því að efla framhaldsskólann og gera hann sveigjanlegri. Sérstaklega þarf að efla starfsnám og þar er þörf á mjög myndarlegu átaki þar sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leggjast á eitt. Markmiðið er að tryggja öllum ungmennum nám við hæfi, til undirbúnings undir virka þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám og draga þannig úr brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi.
Félagsfundurinn fagnar framkomnum hugmyndum um verulegar breytingar á grundvelli tillagna starfsnámsnefndarinnar og starfi vinnuhópa síðustu misseri. Félagsfundurinn skorar á stjórnvöld að hraða mjög vinnu við endurskoðun á framhaldsskólastiginu um leið og haft verði gott samráð við öll skólastig og aðila vinnumarkaðarins. Þá er lögð áhersla á að forsenda þess að markmið um Nýjan framhaldsskóla nái fram að ganga er að nægilegt fjármagn verði tryggt til að þróa öflugt og fjölbreytt starfsnám á framhaldsskólastigi.
Sjá nánar á www.mennt.is
Því svona viljum við hafa það!
Sunnudagur, 7. janúar 2007
Skaupið var endursýnt á þrettándanum. Það var ekki síðra við endurskoðun - og ég tek bara undir með lokalaginu þar sem hópurinn syngur: "Því svona viljum við hafa það".
Vek um leið athygli á palladómi mínum um skaupið - smellið hér - væntanlega fyrsta palladóminum af mörgum um íslenskt menningarefni!
Menning og listir | Breytt 8.1.2007 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Palladómur um áramótaskaupið 2006
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Það er við hæfi að fyrsti palladómurinn sé um skaupið. Mér fannst það frábært. Og ólíkt öðrum bloggara sem tjáði sig um skaupið þá hlóu allir sem voru í kringum mig - rúmlega 10 manns og þar var ég næst elstur.
Það urðu kynslóðaskipti í þessu skaupi. Ný kynslóð húmorista stimplaði sig inn með eftirminnilegum hætti. Þetta er sú tegund af n.k. aulahúmor sem hefur verið áberandi hjá þeim sem hafa verið að höfða til yngra fólksins. En þarna voru á ferðinni atvinnumenn sem byggðu á ríkulegri menningarhefð kvikmynda (sbr. upphafsatriðið sem vísar í Plánetu apanna, þá klassíksu framtíðarhrollvekju, eða Baugsmyndina sem vísar í stjörnustríðið - alger snilld); teiknimynda (sbr. fyrsta söngatriðið "Velkominn til Íslands / Allir kunna að skemmta sér." sem er vísun í Who killed Kenny); auglýsinga (sbr. "Staurauglýsinguna" sem var fullnýtt og frábæran útúrsnúning eða viðsnúning á auglýsingunni "Góð hugmynd frá Íslandi"), svo ekki sé minnst á tónlistarmyndbönd (sbr. frábæra endurgerð af frægasta myndbandi Nylon).
Þessu var svo blandað saman við "hefðbundnara" grín þar sem landsliðsmenn úr Spaugstofunni léku landsfeðurnar á trúverðugan hátt þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um plagg sem enginn má sjá og gæti því allt eins verið árituð ynd af nakinni Hollywood stjörnu. Meðferð þeirra á sveitastjórnarkosningunum var líka góð því þar var blandað inn málefnum aldraðra og innflytjenda. Já það var hressandi að heyra "ekki-íslensku" talaða í skaupinu og sjá fordómafulla fjölmiðlamenn sem vilja ekki tala við nema alvöru Íslendinga. Og það má gera grín að fötluðum. Engin vé eru svo heilög að þau eigi ekki heima í skaupinu - ekki Gísli á Uppsölum og ekki Sigurrós, en túlkun Jóns Gnarr á söngvara Sigurrósar var tær snilld.
Í stuttu máli var hér á ferðinni hópur fagmanna sem þekkir sína menningu og kom gríninu vel til skila. Svo miklir fagmenn voru þetta að þeir slógu vopnin úr höndum gagnrýnenda með innkomu útvarpsstjóra: "Góðir áhorfendur. Skaupið er sniðið að þörfum þeirra sem hafa beittan, en þó mjög vandaðan húmor." Ég tek því undir með Páli í því atriði: "Þetta er frábært skaup."
Sem sagt fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og fyrir þá sem misstu af því, er hægt að horfa á það á vef RUV: Áramótaskaupið 2006.
Menning og listir | Breytt 16.10.2010 kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)