Færsluflokkur: Ferðalög

Póstkort frá Berlín

memorial-1Ég fór og skoðaði minnismerkin um myrta gyðinga í Evrópu í dag. Var ögn neikvæður fyrirfram og hugsaði að einungis þjóðverjum dytti í hug að þekja heila ekru með steypuklumpum. En þetta eru ekki bara ferkantaðir klumpar, heldur óreglulegir og sumir hverjir skakkir á gólffleti sem bylgjast, rétt eins og lífið sjálft. Svo fór ég úr sólinni og niður í iður jarðar til að muna og reyna að skilja. Já og til að gráta - en á því átti ég ekki von. Man ekki eftir því áður að hafa staðið á safni og tárast með ókunnugu fólki yfir því sem þar bar fyrir augu.

Mér fannst sýningin sterk og afar áhrifarík í einfaldleika sínum. Hún víkkar verulega sýn manns á helförina gegn gyðingum, sem í mínum huga eins og svo margra eflaust var bundin við útrýmingarbúðir Nasista í Austur-Evrópu. En helförin átti sér stað út um allt og það voru ekki bara allra verstu SS böðlarnir sem tóku þátt í henni, heldur venjulegir karlar út um alla Evrópu. Eiginmenn og feður af mörgum þjóðernum sem skutu með köldu blóði ekki hermenn með fullvæpni, heldur naktar varnarlausar konur og börn þeirra. Menn sem lýstu því stoltir við kvöldverðarborðið hvernig þeir hefðu tekið þátt í drápunum og viðurkenndu að höndin hefði verið óstyrk á rifflinum þegar fyrsti hópurinn var skotinn, en þegar kom að tíunda bílfarminum var höndin stöðug og miðið fumlaust. Einnig þegar börnin voru skotin - stundum fljúgandi í loftinu á leið í vota fjöldagröf.

Það er myndaspyrpa þarna frá Sdolbunov, sem núna er í Úrkaínu, sem sýnir er konum og börnum var smalað ofnan í gil og þeim skipað að afklæðast. Síðan sjást konurnar naktar í biðröð dauðans, haldandi á þann verndandi hátt sem mæður gera um ung börn og láta þau grúfa höfuðið í hálsakot svo þau sjái ekki og viti ekki  hvað bíður. Svo nakin lík eins og saltfiskur breiddur til þerris og eitt barnið hefur risið upp til hálfs - því skotið geigaði. En yfir stendur karlmaður með riffil og ætlar greinilega að hitta í þetta sinn. Hvernig getur nokkur manneskja losnað svo úr tengslum við mennsku sína að geta skotið nakta og varnarlausa konu sem heldur á enn varnarlausara barni?

"Það er annar heimur hér. Það má svo sem kalla hann helvíti, en helvíti Dantes er fáránlega fyndið í samanburði við þennan veruleika. Og við erum vitnin, við sem ekki fáum að lifa." (Chaim Hermann, 6. nóvember 1944).  

Mér leið ekki vel þegar ég kom upp í skæra vorsólina aftur, en ég er glaður ég fór. Við hin sem fáum að lifa í friðsæld og vellystingum þurfum að muna og vita hvað manneskjan er fær um á sínum bestu sem verstu stundum.


Póstkort frá Lettlandi

Það er þriðji í vori, sem byrjar samkvæmt áætlun í Lettlandi 21. mars. Menn eru í óða önn að hreinsa garða og tún eftir veturinn. Það er fyrirheit um vor í lofti, þótt ekki sé komið brum á trén og allt sé ennþá grátt og víða eftir að þrífa upp ruslið sem safnaðist fyrir í vetur.

Þannig er líka í lettnesku þjóðlífi; þar er fyrirheit um vor, sem er kannski ekki alveg komið, en það lofar góðu sumri. Ef ... þau eru svolítið mörg efin ennþá. Völdin tæla, spilla og hræða. Það var verið að  handtaka borgarstjóra hafnarborgarinnar fyrir meinta spillingi, hann var tilnefndur sem forsætisráðherraefni bændaflokksins í síðustu kosningum og hafi víst stutt við bakið á öðrum flokki líka. Orðrómur er á kreiki um að lögreglan, eða þau yfirvöld sem standa að handtökunni, séu með lista yfir þá stjórnmálamenn sem nutu góðs af þeim mútum sem borgarstjórinn á að hafa þegið. Taugatitringur í gangi. Ég vona að menntamálaráðherra landsins sé ekki í þeim hópi. Okkur þykir vænt um hana og þá frekar kallinn hennar, sem er samstarfsaðili okkar í evrópuverkefni sem við leiðum.

Valdið er skrýtin skepna. Á fyrri vinnudeginum erum við í höfuðborginni með fund að kynna tillögur að áætlunum um skynsamlega nýtingu á hluta af því fjármagni sem Lettland fær næstu sjö árin úr þróunar- og uppbyggingarsjóðum ESB. Aðalsamstarfsmaður okkar er óöruggur og hræddur finnst okkur, því á fundinum eru fulltrúar fjármálaráðuneytisins - fulltrúar valdsins. Daginn eftir förum við út fyrir Riga og eigum þar fund með fólki frá Zemgale héraðinu. Þá er samstarfsmaður okkar með öllu óhræddur, sjálfsöruggur í fasi og framkomu og ekki í honum þessi afsökunartónn sem okkar fannst furðulegur í gær. Í dag er hann fulltrúi valdsins.

Við erum stödd í sumarhöll rússneskra aðalsmanna frá öldum áður. Þessi bygging er næsta nákvæm eftirmynd af Vetrarhöllinni í Pétursborg, bara tveimur númerum minni og sögð passa inn í hallargarð Vetrarhallarinnar. Á meðan fullt er kynning á lattnesku, skrepp ég út í hallargarðinn, ef hægt er að nota það orð og stika hann þverna og tel; það eru 77 skref þvert yfir. Samanlagt er því höllin all stór - þótt aðrar séu stærri. Ef hún er 70 metrar hver hinna fjögurra álma og einir 15 metrar á þverveginn, með sínar fjórar hæðir, þá eru það nærri 17.000 fermetrar. Líklega meira. Ekki amarlegt sumarslot það.

Höllin hýsir Landbúnaðarháskóla Lettlands og var nánast eina byggingin í Jalgava sem stóð upp eftir seinni heimstyrjöldina. Heimamenn segja mér, næstum því stoltir, að borgin hafi verið notuð eftir seinni heimstyrjöldina til að taka upp sovéskar raunsæismyndir um hetjudáðir hermanna þeirra. Hún var hin fullkomna sviðsmynd, þar sem vart stóð steinn yfir steini.

Höllin er stolt skólans en líka baggi, því það er ekki lítið mál að viðhalda svona byggingu og ógerningur að kynda hana svo vel sé á vetrum. Ég kom hér fyrir rúmu ári og flutti fyrirlestur í rúmlega 10 gráðu  hita. Áheyrendur hópuðustu í kringum tvo rafmagnsofna sem voru í herberginu, en ég var á mínum jakkafötum sem sutlardropa á nefi og þurfi að standa þar og passa mig að skjálfa ekki meðan túlkurinn endurtók allt sem ég sagði á lattnesku. Það var skrýtin reynsla.

En í dag er vor. Ég geng að ánni þar sem þjóðverjar og rússar börðust fyrir rúmum 60 árum og er þakklátur fyrir þann frið sem nú ríkir í þessu landi og annars staðar í Evrópu. Líklega á Evrópusambandið drjúgan þátt í þeim frið. Og líklega mun Evrópusambandið eiga talsverðan þátt í þeirri efnahagslegu og samfélagslegu framþróun sem ég hef fulla trú á að bíði Letta á næstu árum.

Bara ef þeir læra að hætta að óttast valdið og líka að fara vel með það þegar þeim er trúað fyrir því.


Póstkort frá Ameríku

Velkominn til Ameríku! Um leið og maður er kominn upp landganginn þá mætir maður henni í öllu sínu þjóðernisveldi - Ameríku. En nú ber nýrra við og mig eiginlega rekur í rogastans að það fyrsta sem ég sé skuli vera merki um nýja utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Mér mætir á flugvellinum plaggat með íslenska og bandaríska fánanum saman og um leið og ég kem inn á ganginn þar sem landganginum sleppir þá er þar íslenski fáninn, svona eins og til að bjóða mig velkominn. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sýn mætir mér á erlendri grund og hef ég þó lagst í dálítið af ferðalögum um ævina.

Þegar ég geng áfram ganginn sé ég þjóðfána fleiri ríkja þannig að þetta er til marks um nýja stefnu sem einnig hefur heyrst eitthvað af í fjölmiðlum síðustu daga og vikur. Bandaríkjamenn eru nú að átta sig á því að þeir þurfa á samvinnu og stuðningi annarra þjóða að halda. Stuðningi sem þeir hafa verið að glata hröðum skrefum vegna yfirgangs og einstrengingslegrar utanríkisstefnu. Ekki það ég kvarti sem Íslendingur. Það var hið besta mál að þeir skuli hafa „yfirgefið" Miðnesheiðina og misboðið þannig þeim aumkunarverðu íslensku ráðamönnum sem höfðu margsinnis niðurlægt sjálfa sig og þjóðina með tilefnislausum bónferðum til Bandaríkjanna. Ætli það sé ekki dýpsti dalurinn hans Davíðs - þetta sérstaka samband sem hann átti við núverandi Bandaríkjaforseta. Nema ef vera skyldi aðkoma hans að Baugsmálinu sem ég las um í nýju blaði Krónikunni á leiðinni yfir hafið. Þessi nýjasta viðbót við fjölmiðlaflóruna á Íslandi er með áhugaverða kenningu um kveikjuna að þessu máli öllu, ættaða frá lögfræðingi Jóns Ásgeirs, að það sem hafi gert útslagið með að Jón Gerald ýtti málinu öllu af stað hafi verið sú trú hans að Jón Ásgeir hafi reynt við konuna hans. Alveg skal ég trúa að þetta sé rétt (þ.e. að þessi hafi verið trú Jóns Geralds og því hafi hann leitað hefnda) því það væri svo innilega í takt við íslenska sögu og hefð. Hvar konu er skipað til sætis eða hvort maður skýtur kollu getur haft afgerandi áhrif á Íslandssöguna. Því ekki hvort maður reyndi við konu!

Himnakringlan

Ég er kominn í Himnakringluna, hvorki meira né minna. Þegar ég sest inn í hálftóma American Airways vélina og tek mér blað úr sætisvasanum fyrir framan mig á meðan ég bíð eftir því að ferðin þvert yfir Ameríku hefjist, þá held ég á Himnakringlunni (www.skymall.com). Engin smá Kringla sem býður manni að panta ótrúlegt úrval afurða sem ótaldir uppfinningamenn hafa eytt margri andvökunóttinni yfir. Þar sem ég er á leiðinni á ráðstefnu þar sem hittast starfsmenn háskóla í Vesturheimi sem hafa það verkefni að koma tækniþekkingu á framfæri og huga að því að þekking og niðurstöður háskólamanna nýtist sem best á markaði og í samfélaginu almennt, er mér málið skylt og ég fletti með athygli:

Hér er hitavesti sem gengur fyrir rafhlöðum og kæmi sér eflaust vel á köldum veiðidögum og sérhannað box fyrir öll tólf úrin sem flestir eiga. Fyrir gofaranna, þá er lítið  leysergeisla tól sem þjálfar mann í að koma golfkúlunni á réttan stað. Maður bara festir það á hausinn á pútternum og hringar snúruna upp skaftið og stingur í samband og fer svo að æfa sig. Að snúran trufli? Naah

Fyrir þá sem hafa nógan tíma (og kunna ensku) þá er hægt að kupa krossgátu sem er rúmlega fjórir fermetrar með 28.000 vísbendingum sem eiga að duga til að fylla út í alla 91.000 reitina sem eru auðir! Fyrir þá sem ferðast mikið er hægt að kaupa ferðlyftingasett ! Það er úr plasti og maður fær þyngdina sko með því að fylla plastið af vatni þegar maður er mættur upp á hótel. Tja, eða maður bara fer á gymið á hótelinu, nú eða drattast bara með níðþungar töskur til að halda sér í formi. Og svo eitthvað sem ég bara verð að prófa ... ljósrænt lyklaborð. Hvað á maðurinn við? Jú sko, þetta er lítið tæki sem sendir leysigeislamynd af lyklaborði niður á hvaða slétt yfirborð sem er en gerir meira en það því maður getur „snert" þetta lyklaborð og þannig slegið inn þótt hvar sem er með þá stærð af lyklaborði sem hentar aðstæðum og handarstærð hverju sinni.

Ég segi og skrifa ... velkominn til Ameríku : þar sem allt er til. Og svona eins og til að minna mann á hvað Ameríka er stór þá er flugið frá austurströndinni til San Francisco þangað sem ferð minni er heitið lengra en flugið frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Og tungl veður í skýjum þegar við förum í loftið rétt í þann mund sem íslenskri áhugamenn eru að munda sjónauka sína til að fylgjast með tunglmyrkva sem ég missi af í 33.000 fetum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.