Færsluflokkur: Íþróttir

Hjartanlega til hamingju Eyþór og Sonja

Þetta er búið að vera mikið og merkilegt ár hjá ykkur og þið stóðuð ykkur vel í Pekíng. Verst að við Emblan skyldum ekki vera þarna úti með ykkur. En þið eruð vel að þessum heiðri komin - og Eyþór: þar sem þú ert 'loksins kominn með áhuga á sundi' þá hvet ég þig eindregið til að halda áfram og stefna ótrauður á London 2012.
mbl.is Áttu hvorugt von á nafnbótinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur hjá Emblunni

Það má nú ekki minna vera en ég rjúfi tveggja mánaða bloggþögn eftir góðan dag hjá Emblunni í gær. Eins og kemur fram í fréttinni þá fékk hún styrk úr afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ að upphæð 350.000 kr. Þær sjö sem fengu þennan styrk - úr hópi nærri hundrað umsækjenda - eru allar að keppa að því markmiði að komast á Olympíuleikana í Pekíng síðar á þessu ári. Þær munu því allar þurfa að leggja mikið á sig á næstu vikum og mánuðum og svona styrkir auðvelda það og eru líka hvatning. Ég veit að Emblan var ekki síst imponeruð yfir sjóðsstjórninni sem tekur ákvörðun um hverjir fá styrk - allt miklar afrekskonur þar.

En dagurinn var ekki búinn - því þessi styrkveiting fór fram í hádeginu. Eftir æfingu fórum við á Grand Hótel þar sem veittar voru viðurkenningar þeim 570 ungum Íslendingum sem settu Íslandsmet á síðasta ári eða voru Íslandsmeistarar. Fríður flokkur og allir fengu kristalpýramída í boði Spron.

Þá var bara kvöldverðurinn eftir og mér fannst kominn tími til að Emblan fengi afmælisgjöfina sína - sem átti að vera eitthvað fínt út að borða. Hana langaði að prófa Vox - svo þangað fórum við og vorum svo heppin að fá borð þrátt fyrir að Food and fun hátíðin væri að byrja. Við sögðum í gríni að við værum að víga hátíðina því við vorum sest að borði kl. 7 og því fyrst til að panta. Maturinn var auðvitað frábær og við vorum alveg fullsödd þótt við tækjum "bara" 4 rétta matseðilinn, en ekki 8 rétta seðilinn!

Til að toppa daginn þá birtust fínar myndir í íþróttafréttum eftir tíu fréttirnar af Emblunni og Sonju að taka við viðurkenningu og blómum frá því fyrr um daginn. Sem sagt góður dagur og hvetjandi.


mbl.is Afrekskonur í íþróttum fá styrki á ólympíuári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mér er illa við Dani"

Íslands ógæfu verður allt að láni ... segir í góðri bók. Hás og niðurbrotinn eftir leikinn sný ég mér til ljóðlistarinnar sem er ein fárra lista sem fær svalað sárri sál á stund sem þessari:

"Mér er illa við Dani og alla kúgun og smán,
sem oss er daglega boðin af þeirra hálfu.
Þetta er misindisþjóð, sem ástundar ofbeldi og rán,
og ætlar sér jafnvel að tortíma landinu sjálfu.

Þeir tóku af oss forðum með tölu hvert einasta skinn,
og töluðu um handrit, er vörðuðu menningu alla.
Það er von að oss gremjist sú meðferð og svíði um sinn,
því síðan er íslenzka þjóðin skólaus að kalla.

Og loks varð hin íslenzka þjóð sem eitt þrautsligað hross,
við þekkjum víst allir þá styrjöld sem Danskurinn háði,
hann þröngvaði kartöfluræktinni upp á oss,
svo allt kom það fram sem Jón heitinn Krukkur spáði.

Við hugðum að vísu, sem hugprúðum mönnum ber,
að hrista af oss varginn og stympast eitthvað á móti.
En til hvers er það, eins og landslagi er háttar hér,
það er hætt við vér dettum og meiðum oss á þessu grjóti. ..."

(Sjálfstæði Íslands eftir Stein Steinarr)


mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju landsliðspiltar !

Það koma engir aðrir til greina fyrir hamingjuóskir dagsins en landsliðsdrengirnir okkar. Þótt ég teljist til antisportista, þá fylgdist ég með þessum leik og þetta var hreint ótrúlegt. Varð nett stressaður þegar þeir mistu forystuna niður um þrjú mörk í seinni hálfleik en þeir voru fljótir að vinna það upp aftur. Eftir svona svakalega frammistöðu hlýtur stefnan að vera tekin á heimsmeistaratitilinn: Það er ekkert landslið sem Ísland getur ekki unnið þegar allt gengur upp og menn mæta með þann baráttuanda sem skein úr hverju íslensku andliti í kvöld.


mbl.is Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju íþróttamenn!

Sama fyrirsögn og síðasta blogg færsla - nei, ég er ekki svona hugmyndasnauður, heldur er annað tilefni til hamingjuóska. Það er bara gaman að geta verið jákæður marga daga í röð.

Ég óska öllum styrkþegum ÍSÍ til hamingju og við treystum því að þetta aðstoði okkar afreksfólk og auki líkurnar á að við eigum góða fulltrúa á Ólympíuleikunum í Peking eftir hálft annað ár.

Sérstaklega óska ég ungum og efnilegum félögum í Íþróttafélagi fatlaðra til hamingju : Embla mín, Eyþór og Sonja - hjartanlega til hamingju. Þið eruð vel að þessu komin og þetta verður ykkur örugglega hvatning til að gera ykkar ítrasta og ná því markmiði að koma á Ólympíuleika fatlaðra árið 2008. Smile


mbl.is Örn Arnarson sundmaður fékk A-styrk á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýársmót fatlaðra barna og unglinga í sundi

Verðlaunahafar 2007Síðustu árin hefur fyrsti sunnudagur á nýju ári alltaf verið helgaður Nýársmóti fatlaðra barna og unglinga í sundi, sem nú var haldið í 24. sinn. Þetta var fyrsta sundmótið sem Emblan tók þátt í fyrir mörgum árum og nú tók hún þátt í síðasta sinn því eftir ár verður hún komin á átjánda ár og þá orðin of gömul. Hún stóð sig vel í dag og þótt engin Íslandsmet hafi fallið (maður er eiginlega farinn að vænta þess að þau falli eftir árangurinn á síðasta móti, þegar met féll í hverju sundi) þá var þetta fyrsta mótið þar sem hún stingur sér í bæði skriðsundi og bringu. Það mun alveg örugglega skila sér í betri tíma þegar kemur fram á árið.

Fréttastofa sjónvarpsins gerði mótinu góð skil í kvöldfréttum - fín mynd af minni! Helgarsportið bætti um betur og þar er skemmtileg viðtal við Sonju Sigurðardóttur sem stóð sig afar vel í dag og setti tvö Íslandsmet! Þetta verður spennandi ár hjá þeim þremur í ÍFR, vinkonunum, Emblu og Sonju og Eyþóri. Megin markmið ársins hjá þeim öllum er að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008, en þau eiga nokkuð góða möguleika á því eftir að Kristín Rós tryggði Íslandi þátttökurétt með frammistöðu sinni á heimsmeistaramótinu í S-Afríku í desember á síðasta ári. Þetta verður ekki auðvelt hjá þeim, en þau hafa sýnt mikla þrautsegju og mikinn keppnisvilja og ég hef mikla trú á að þau verði okkar tríó í Peking ... og er byrjaður að safna fyrir farinu. Smile 

Það var ekki síður gaman að fylgjast með nýgræðingunum en þeim sem voru að berjast við Íslandsmetin. Það er mikil og merkileg upplifun fyrir alla að taka þátt í alvöru sundmóti í fyrsta skipti með tímatöku, dómurum og hvatningarhrópum og fá svo viðurkenningu frá borgarstjóranum í Reykjavík í lokin. Þetta mót er til mikils sóma fyrir Íþróttasamband fatlaðra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband