Nokkur álitamál um stjórnarskrána - svör við spurningum

Ég fékk spurningu í athugasemd við stutta blogfærslu um afstöðu mína til nokkurra álitamála varðandi stjórnarskrá. Mér finnst rétt að svara henni ekki bara í athugasemdakerfinu, heldur einnig með sérstakri blogg færslu því þessi umræða um viðfangsefni stjórnlagaþingsins er mikilvæg.

a) Eignarhald á náttúruauðlindum
Á að vera ótvírætt hjá þjóðinni - en því má ekki gleyma að náttúran á sig sjálf og við berum mikla ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Setja þarf skýrar skorður við því hvernig þjóðin nýtir sínar auðlindir og tryggja náttúrunni sjálfri ákveðin grundvallar réttindi í stjórnarskránni.


b) Allt landið eitt kjördæmi
Sammála því vegna þess að með því móti er vægi atkvæða jafnað (sem er réttlætismál) og dregið úr því að þingmenn líti fyrst og fremst á sig sem fulltrúa afmarkaðra svæða sem eiga í innbirgðis togstreitu (sem er skynsemismál). Ísland er afar fámennt land og hefur ekki efni á öllum þeim hrepparíg sem hefur einkennt samfélagið, hvorki á vettvangi sveitarfélaga né ríkisins. Samhliða þessu þarf að setja ákvæði í stjórnarskrá sem tryggja að horft sé til hagsmuna einstakra svæða, rétt eins og stjórnarskrá ber að tryggja réttindi einstakra þjóðfélagshópa.

c) Persónukjör þvert á lista flokka
Hlynntur því að stjórnarskráin sé með þeim hætti að slíkt sé mögulegt. Í framkvæmd verður það mun auðveldara ef landið verður eitt kjördæmi. En slíku fyrirkomulagi þarf að setja skýran ramma í lögum (ekki stjórnarskrá) til að takmarka margvíslegan „populisma" og það að menn geti í of ríku mæli „keypt" sér fylgi í kosningum.

d) Ráðherrar víki af þingi
Sammála því að fólk á ekki að gegna bæði þingmanns- og ráðherrastarfi á sama tíma. Slíkt væri liður í að skerpa skilin milli löggjafar- og framkvæmdavalds og ýta undir þann skilning að þingmannsstarfið sé fullt starf eins og það á að vera. Tel að samhliða sé skynsamlegt að fækka þingmönnum og gera störf þeirra veigameiri með auknu sjálfstæði þingins, m.a. með sjálfstæðum þingnefndum sem hafi heimildir til að krefja framkvæmdavaldið svara og haldi fundi fyrir opnum dyrum.

e) Þjóðaratkvæðagreiðslur
Afstaða mín er afdráttarlaust sú að þjóðaratkvæðagreiðslur hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðisríkjum. Í meira en 60 ár var engin þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi sem er til marks um vantrú eða gjá milli stjórnmálaaflanna og þjóðarinnar. Tryggja þarf að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og festa þarf í stjórnarskrá að skylt sé að bera ákveðin mál undir þjóðina - t.a.m. aðskilnað ríkis og kirkju, inngöngu í þjóða-, varnar- og hernaðarbandalög (ESB, NATO). Samhliða þarf að tryggja að þjóðaratkvæðagreiðlur endurspegli þjóðarvilja með tilteknu lágmarki um þátttöku þannig að háværir eða valdamiklir minnihlutar geti síður misnotað þjóðaratkvæðagreiðslur.

f) Réttur forseta til að neita að samþykkja lög og g) Forsetaembættið almennt
Þessi atriði eru nátengd og ég geng til umræðunnar og stjórnlagaþings með nokkuð opnum huga. Ég er fylgjandi því að hafa forseta sem er þjóðkjörinn, en ekki að breyta fyrirkomulaginu þannig að það embættið verði enn pólitískara eins í Bandaríkjunum og Frakklandi þar sem forsetinn er hinn eiginlegi pólitíski leiðtogi. Fámennt samfélag þarf síður á mjög sterkum leiðtogum að halda og það er meiri hætta á að þeir valdi djúpstæðri sundrungu meðal fámennra þjóða. En það er þörf fyrir þjóðhöfðinga sem er táknrænt sameiningarafl, tekur af skarið við stjórnarmyndanir og er til staðar ef sundurlyndi stjórnmálaaflanna er of mikið. Nákvæmlega hvert hlutverk forsetans á að vera þarf að ræða, m.a. um möguleika hans á að skjóta málum til þjóðarinnar. Þörfin fyrir það er líklega minni ef það er bundið í stjórnarskrá að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að lokum minni ég á yfirskriftina í framboði mínu til stjórnlagaþings: réttlæti, sanngirni, sátt. Stjórnarskrá á að vera eitt heildarskjal þannig að gæta þarf vel að heildarjafnvægi milli allra þátta sem spurt var um hér að ofan. Í umræðum um öll álitamálin sem tengjast stjórnarskránni þurfa menn að hafa réttlæti og sanngirni að leiðarljósi til þess að auka líkurnar á því að um nýja stjórnarskrá náist góð sátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.